05. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Innflytjendur í heilbrigðiskerfinu

Hvað verður um börnin? - Rætt við Geir Gunnlaugsson og Ingibjörgu Baldursdóttur á Miðstöð heilsuverndar barna

Stöðugt fjölgar þeim sem flytja hingað til lands frá útlöndum og setjast hér að til lengri eða skemmri tíma. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands bjuggu á landinu í árslok 2003 19.530 manns sem áttu sér annað fæðingarland en af þeim höfðu 10.180 erlent ríkisfang. Þetta samsvarar því að 6,7% landsmanna eru fæddir í öðru landi en 3,5% hafa annað ríkisfang en íslenskt.

Af þessum fjölda voru börn undir 18 ára aldri með erlent ríkisfang alls 1651, þar af 483 undir fimm ára aldri. Börn sem flytjast til landsins frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins (eins og það var fyrir stækkun) þurfa að fara í skoðun á göngudeild smitsjúkdóma á Barnaspítala Hrings­ins. Það er skilyrði fyrir veitingu dvalar- og atvinnu­leyfa til innflytjenda. En hvað verður svo um þessi börn?

Til þess að fá svar við því leitaði Læknablaðið til Miðstöðvar heilsuverndar barna í Heilsu­vernd­arstöðinni þar sem fyrir svörum urðu Geir Gunnlaugsson barnalæknir og forstöðumaður mið­stöðvarinnar og Ingibjörg Baldursdóttir hjúkrun­arfræðingur og verkefnisstjóri miðstöðvarinnar í málefnum innflytjenda.

Mikið hringt úr skólunum

Ingibjörg lýsti því ferli sem börn innflytjenda fara í gegnum núna.

"Börn sem koma til landsins til lengri dvalar eiga öll að fara í skoðun á göngudeild Barnaspítala Hringsins. Tilgangurinn með henni er meðal annars að skima fyrir ýmsum smitsjúkdómum, svo sem berklum og lifrarbólgu, og sjúkdómum af völdum sníkjudýra í meltingarvegi. Það eru tekin blóð- og þvagsýni, röntgenmynd af lungum og berklapróf framkvæmt. Hingað til hafa niðurstöður þessara rann­sókna verið sendar í formi læknabréfs til heilsu­gæslustöðvar og skóla í hverfinu þar sem barnið býr. Því miður hefur þó borið á því að slík læknabréf hafi ekki komist til skila og börnin hafi hreinlega "týnst" í kerfinu. Við fáum til dæmis oft upphringingar frá skólahjúkrunarfræðingum sem spyrja eftir börnunum þar sem þau koma óbólusett í skólana og að engar upplýsingar liggi fyrir um niðurstöðu skimunar.

Hugmynd okkar á Miðstöð heilsuverndar barna er að breyta þessu ferli. Eftir að þjónustu á göngudeild smitsjúkdóma er lokið eru öll læknabréf varðandi börn á þjónustusvæði Heilsugæslu Reykjavíkur og nágrennis send hingað. Í framhaldi af því höfum við síðan samband við foreldrana og bjóðum þeim að koma með barn sitt til skoðunar. Markmið okkar með slíkri móttöku er að meta stöðu barnsins og fjölskyldunnar, kanna hvernig bólusetningum er háttað og koma málum barnanna í ákveðinn farveg. Við viljum veita þessum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á og ekki einungis heilbrigðisþjónustu heldur einnig liðsinna með félagslega aðstoð ef þörf er á og fylgjast með því hvernig þau pluma sig, hvernig þeim gengur í skóla og svo framvegis."

Geir: "Í flestum tilvikum er um að ræða fjölskyldur sem koma frá svæðum sem hafa öðruvísi heilbrigðisþjónustu en hér er starfrækt. Hér er ung- og smábarnavernd og skólaheilsugæsla í föst­um skorðum en það er ekki gefið að allir foreldrar viti af því að þessi þjónusta sé eðlilegur hluti af uppvexti allra barna. Þess vegna viljum við fá börnin og foreldra þeirra hingað til þess að geta frætt þau um þá þjónustu sem er í boði, að hún sé ókeypis og fyrir alla.

Ef við tökum dæmi af barni sem kemur hingað sjö mánaða gamalt þá á það rétt á hefðbundinni ung- og smábarnavernd og ætti að koma í átta mán­aða skoðun. Það er hins vegar ekkert víst að þau skilaboð komist alla leið. Það má líka spyrja hvort ekki sé rétt að bjóða fólki sem er nýkomið til landsins upp á heimavitjun þótt börnin séu ekki nýfædd. Við þurfum líka að spyrja okkur þeirrar spurningar í hverrra þágu þjónustan er, erum við að fylgjast með fólki eða erum við að styðja það og gera inngöngu þess í samfélagið auðveldari en ella?"

Hreyfanlegur hópur

Ingibjörg bætir því við að móttöku erlendra barna sé ágætlega sinnt í skólakerfinu, ekki síst í móttökudeildum sem starfræktar eru við þrjá grunnskóla í Reykjavík, Austurbæjar-, Háteigs- og Breiðholtsskóla. "Fræðslumiðstöð hefur til dæmis gefið út upplýsingabækling á mörgum tungumálum fyrir foreldra sem er gott framtak. Hvað varðar heilsugæsluna þá hafa skólahjúkrunarfræðingar ekki komist til að sinna þessum börnum í þeim mæli sem þeir helst vildu."

Geir segir að allur gangur hafi verið á því hvernig læknabréfin hafi skilað sér. "Það liggur í eðli þessa hóps að hann er mjög hreyfanlegur og þess vegna er fólk oft flutt þegar bréfið berst. Þá vill það brenna við að enginn líti á það sem skyldu sína að fylgja málunum eftir. Svo birtast börnin í skólakerfinu en engar upplýsingar finnast um heilsufarssögu, bólusetningar og þess háttar þótt börnin hafi búið í landinu í heilt ár eða lengur. Þarna skortir einhvern hlekk í keðjuna sem veitir fólki fræðslu um heilbrigðisþjónustuna, hvernig eigi að bregðast við veikindum barna, hvaða þjónustu börn eigi rétt á og hvar hún sé í boði.

Með því að fá börnin til okkar getum við fylgst með þeim þangað til fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir og hægt er að tengja hana við ákveðna heilsu­gæslustöð. Með þessu móti getum við unnið með sérstök vandamál ef þau eru fyrir hendi og hald­ið utan um málefni fjölskyldunnar fyrsta kast­ið."

Börn eiga sjálfstæðan rétt

Geir og Ingibjörg treysta sér ekki til að giska á um hversu fjölmennan hóp barna er að ræða en Ingibjörg segir að ástand þeirra og upplýsingar um þau séu afar mismiklar. "Í sumum tilvikum eru þau ágætlega bólusett og með góða pappíra sem sýna það en oft liggja engar upplýsingar fyrir um hvað gert hefur verið í heimalandinu. Við vonumst til að þessi nýja þjónusta á Miðstöð heilsuverndar barna geti bætt úr þessu."

- Á þessi hópur við einhver þau heilsufarsvanda­mál að stríða sem við þekkjum ekki eða höfum kannski útrýmt?

Geir: "Berklar eru víða vandamál og lifrarbólga er landlæg í mörgum löndum en þessir sjúkdómar eru fátíðir hjá okkur."

Ingibjörg bætir því við að oft sé næringarástand barnanna ekki sem skyldi. "Við verðum að passa okkur á því hvað við segjum við fólk þegar þannig háttar til. Ekki getum við sagt fólki frá Asíu sem er vant því að borða mikið af hrísgrjónum og grænmeti að nú verði það að snúa sér að kjötsúpunni. Við verðum að tileinka okkur umburðarlyndi í þeim efnum. Annað vandamál er tannheilsan en henni er oft ábótavant. Það getur stafað af matar­æðinu, svo sem því að börn séu með sætan ávaxtasafa á pelanum. Þá verðum við að setja fólk í samband við tannlækna og benda þeim á að þau eigi rétt á endurgreiðslu frá Tryggingastofnun."

Geir nefnir líka dæmi um að hingað til lands flytjist fólk og setjist að án þess að hafa dvalar- eða atvinnuleyfi. Í sumum tilvikum eru börn með í för og þess eru dæmi að þau gangi ekki í skóla.

"Í þessu sambandi er rétt að minna á að börn eiga sjálfstæðan rétt, óháð stöðu foreldra sinna. Þegar foreldrarnir eru hér með ólöglegum hætti eða standa í baráttu um að fá að setjast hér að þá vaknar spurningin um réttindi barnanna. Við höfum haft um það milligöngu að börn sem þannig er ástatt um hafa komist í skóla, jafnvel þótt þau séu ekki komin með kennitölu."

Miðstöð heilsuverndar barna hefur aðgang að túlkum ef á þarf að halda og þar er einnig unn­ið að því að hafa viðeigandi fræðsluefni um heilbrigðismál á ýmsum tungumálum. Slíkt efni er til á netinu en það kostar sitt að koma því í að­gengi­legt horf. "Við höfum verið í sambandi við Fjömenningarsetrið á Vestfjörðum um að taka saman fræðsluefni og við höfum einnig vísað fólki á Alþjóðahúsið þar sem ýmsar upplýsingar eru til," segir Ingibjörg.

Í lokin segir Geir að þótt innflytjendur séu ekki sérlega stór hópur hér á landi þá eigi honum eftir að fjölga á komandi árum."Við megum líka eiga von á því að hingað komi börn sem eru ein á flótta. Þetta vandamál kljást menn við á Norðurlöndum og angar af þeim málum hafa sést hér á landi. Þessi börn eiga rétt á heilsuvernd og læknisþjónustu á eigin forsendum. Þarna vakna spurningar um réttindi barna, hver eigi að borga fyrir þjónustu við börn sem veikjast og eru ekki komin inn í kerfið og fleiri atriði af siðferðilegum toga. Undir þetta verð­um við að búa okkur. Hvernig viljum við standa vörð um réttindi þessara barna?"

Á þessari spurningu lauk spjalli okkar við Geir Gunnlaugsson barnalækni og Ingibjörgu Bald­urs­dóttur hjúkrunarfræðing í Miðstöð heilsuverndar barna.

u07-fig1ny

Geir Gunnlaugsson barna­læknir og Ingibjörg Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur í Miðstöð heilsu­verndar barna.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica