04. tbl. 91. árg. 2005

Ritstjórnargrein

Ofbeldi

Emil L. Sigurðsson

Skemmdir á skátaheimili eftir áflog. Maður fluttur á sjúkrahús eftir slagsmál. Þannig hljóma fréttir helgarinnar. Vaxandi ofbeldi er eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum samtímans. Því miður vorum við illa minnt á alvarleika afleiðinga ofbeldis í des­em­bermánuði þegar miðaldra karlmaður lést eftir tilefnislaust hnefahögg á veitingastað. Oft virð­ast árásarmenn telja það sjálfsagt og eðlilegt að leysa ágreiningsmál með barsmíðum og ef ekki er uppi neinn ágreiningur er engu að síður sjálfsagt að berja næsta mann, ef viðkomandi liggur vel við höggi. Um hverja helgi heyrum við fréttir af barsmíðum og líkamsmeiðingum. Ekki ósjaldan er ofbeldi tengt neyslu áfengis og eða annarra vímu­efna. Ofbeldi er ekki einungis að verða algengara heldur er það einnig mun grófara og miskunnarlausara en áður tíðkaðist. Afleiðingar alls þessa eru oft á tíðum afar alvarlegar og geta leitt til örkumla og jafnvel dauða. Sem dæmi um þetta ofbeldi er að í janúarmánuði síðastliðnum var hálfþrítugur maður dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir fjölda líkamsárása og tilraun til manndráps með því að slá tvo menn í höfuðið með öxi og fyrir líkamsárásir gegn fimm öðrum einstaklingum.

Ofbeldið hefur margar myndir. Heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og jafnvel ofbeldi gegn börnum. Það síðastnefnda virðist því miður verða æ algengara og fleiri mál af þeim toga til meðferðar hjá dómstólum landsins.

Ofbeldi gegn heilbrigðisstarfsfólki er einnig staðreynd hér á landi. Nýlega varð heimilislæknir sem sinnti neyðarvaktþjónustu á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu fyrir grófri líkamsárás þar sem "skjólstæðingurinn" reyndi hreinlega að kyrkja viðkomandi lækni eftir að hafa orðið ósáttur við þá úrlausn sem honum var boðin. Því miður er árásin ekki einsdæmi og þegar þessi mál eru rædd meðal heilbrigðisstarfsfólks koma í ljós fleiri dæmi um beinar árásir og/eða hótanir. Sjaldnast virðast þessi tilefni vera kærð til lögreglu. Í dæmi heimilislæknisins hér að ofan kom margt undarlegt fram þegar leggja átti fram kæru. Þannig virðist löggjafinn ekki gefa vinnuveitanda, í þessu tilviki heilsugæslustöð sem yfirvöld reka, kost á að kæra og verður því viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður sjálfur að kæra og útsetja sig sem einstakling fyrir þeim óþægindum sem því fylgir. Eðlilegra hefði manni fundist að svo væri búið um hnútana að sem opinber starfsmaður njóti heilbrigðisstarfsmaður þeirra sjálfsögðu réttinda að stofnunin kæri og verji þannig starfsfólk sitt. Að sjálfsögðu þarf brota­þoli eftir sem áður að gefa skýrslu og bera vitni en þyrfti að öðru leyti ekki að reka málið sjálfur.

Það er alveg ljóst að sú þróun sem við höfum orðið vitni að erlendis er einnig að birtast hér. Samkvæmt rannsóknum erlendis verður starfsfólk sjúkrahúsa hlutfallslega sjaldnar fyrir árásum en læknar sem starfa utan stofnana og þær árásir eru ekki eins alvarlegar og oftar í formi hótana. Læknar sem fara í vitjanir í heimahús verða oftar fyrir árásum og þær eru einnig alvarlegri eðlis. Í flestum tilvikum eru ákveðnir þættir til staðar þeg­ar ofbeldi er beitt gegn heilbrigðisstarfsfólki, árásarmaðurinn er gjarnan karlmaður með drykkju- og/eða lyfjamisnotkunarvandamál og jafnvel aðra geðræna sjúkdóma.

Ástæður þess að ofbeldið er að aukast í okkar samfélagi eru sjálfsagt margar. Það var að mínu mati mikið óheillaspor stigið þegar alþingi ákvað að leyfa aftur box hér á landi og ljóst að því fylgir hætta á meira ofbeldi almennt þó auðvitað komi fleira til. Íþróttahús eru og hafa verið helstu forvarnarstöðvar landsins þar sem íslenska æskan stund­ar heilbrigðar íþróttir og lærir gildi hreyfingar og þess lífsstíls sem þarf til þess að ná árangri í íþróttum án áfengis og tóbaks. Það skýtur því skökku við að sjá í þessum húsum auglýsingar þar sem börnin eru hvött til þess að koma á æfingar í boxi og jafnvel kick-boxi. Sjónvarpsgláp og tölvuleikir eru einnig líkleg til þess að valda því að einstaklingar átti sig ekki á hversu alvarlegur hlutur ofbeldi er. Börn sem leika sér í ofbeldisfullum tölvu­leikjum og sjá hvernig sjónvarpshetjurnar standa upp, nánast óskaddaðar og í versta falli með lítillega ruglaða hárgreiðslu, eftir mikil og þung högg og barsmíði eru ekki líkleg til að hafa raunverulega hugmynd um afleiðingar ofbeldis. Það er því hætt við að raunveruleikaskynjun þessara einstaklinga sé eitthvað brengluð eftir þannig upplifanir og óhjákvæmilegt að hugleiða hvort þetta geti verið hluti af skýringunni hvað varðar aukningu á ofbeldi og hversu ófyrirleitið, grimmdarlegt og misk­unnarlaust ofbeldi er orðið.

Ofbeldi er ekki bara heilsufarslegt vandamál heldur þjóðfélagslegt. Kostnaður vegna heilbrigðiskerfisins er mikill og öll erum við sammála um það að við viljum hafa gott heilbrigðiskerfi. Það er því sorglegt að horfa uppá það að ein helsta heilbrigðisvá samtímans eru afleiðingar þess að menn eru að berja hver annan. Reykingar og ofeldi eru vandamál sem þegar hafa verið sett í forgang varðandi forvarnir og talsverðum árangri hefur verið náð varðandi reykingar. Við hvorki getum né megum horfa aðgerðarlaus á þessa þróun hvað varðar ofbeldið. Læknar, almenningur og stjórnvöld verða að snúa bökum saman og stemma stigu við þessu aukna ofbeldi. Skamma stund verður hönd höggi fegin segir í Njálssögu og víst er að högg kallar á annað högg, oftast þyngra. Stöðvum þessa óheillavænlegu þróun. Málið varðar okkur öll.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica