03. tbl. 91. árg. 2005
Umræða og fréttir
Læknar bera ábyrgð á tóbaksvörnum
Rætt við Göran Boethius um bann við reykingum á sænskum veitingahúsum og fleira
Einn af erlendum gestum Læknadaga var sænskur lungnalæknir og baráttumaður gegn tóbaksreykingum, Göran Boethius. Hann fjallaði í fyrirlestri sínum um heilsufarsleg áhrif óbeinna reykinga og aðferðir Svía við að draga úr reykingum á vinnustöðum. Á reyklausa deginum í fyrra fékk hann sérstaka viðurkenningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, fyrir starf sitt að tóbaksvörnum. Læknablaðið tók Göran tali og innti hann eftir því hvernig baráttan gegn óbeinum reykingum gengi í Svíþjóð og víðar.
Göran Boethius er yfirlæknir tóbaksvarnadeildar lénssjúkrahúss Jämtlands í Östersund. "Ég hef ekki sinnt klínískri vinnu í nokkur ár en notið þeirra forréttinda að helga mig tóbaksvörnum, bæði í héraði en þó einkum á landsvísu þar sem ég hef starfað fyrir sex samtök heilbrigðisstarfsmanna og fleiri stétta sem vinna saman að tóbaksvörnum. Starfssvið þessara samtaka er tvíþætt, annars vegar veitum við stjórnvöldum aðhald í því að efla tóbaksvarnir, hins vegar styðjum við félagsmenn okkar í að vinna að tóbaksvörnum hver á sínum vettvangi," segir hann.
Stærsta viðfangsefni samtakanna og þar með einnig Göran Boethius þessi misserin er að undirbúa bann við reykingum á veitingahúsum sem tekur gildi í Svíþjóð 1. júní í sumar. ?Þar er ábyrgð okkar lækna mikil vegna þess að við búum yfir svo mikilli þekkingu á áhrifum óbeinna reykinga á heilsufar fólks. Það er því óviðunandi að hafa eina starfsstétt út undan og láta hana búa við starfsumhverfi sem við vitum að eykur líkurnar á sjúkdómum meðan aðrar stéttir starfa á reyklausum vinnustöðum. Eins og gerðist hér á landi þá voru reykingar bannaðar á vinnustöðum í Svíþjóð árið 1993 en þá voru veitingastaðir undanþegnir banninu. Það var skiljanlegt á þeim tíma því bæði var ekki eins mikið vitað um áhrif óbeinna reykinga og svo var andstaðan gegn banninu mun harðari en nú er.?
Það reyndist hægt
Göran bendir á að reykleysi á veitingastöðum breiðist ört út. "Írland var fyrsta Evrópuríkið sem bannaði reykingar á veitingastöðum, Noregur fylgdi í kjölfarið og meira að segja Ítalir hafa bannað þær. Í Bandaríkjunum eru reykingar á veitingastöðum bannaðar í sjö fylkjum. Reynslan af þessu banni sýnir að þetta er hægt en að það krefst öflugrar forystu á sviði heilbrigðismála. Þetta kom glöggt í ljós á Írlandi þar sem heilbrigðisráðherrann tók forystuna og leiddi málið fram til sigurs þótt hart væri að honum sótt. Sömu sögu er að segja frá Noregi.
Þessi barátta tekur á sig ýmsar myndir. Víðast hvar hafa eigendur veitingastaða barist hart gegn banni og oftar en ekki tekist að fá starfsfólk í lið með sér. Í Danmörku vildi hins vegar svo til að eigendurnir og starfsfólkið fóru þess á leit við heilbrigðisráðherrann að hann bannaði reykingar á veitingastöðum en ráðherrann neitaði. Hann sagði andstöðu almennings það mikla eins og sjá mætti í skoðanakönnunum að hann vildi ekki ganga gegn straumnum.
Þessi afstaða ráðherrans er að vissu leyti skiljanleg því það gengur ekki að setja lög sem ganga í berhögg við vilja almennings. Hins vegar er þetta brýning fyrir heilbrigðisstarfsmenn að þeir beiti sér í umræðunni og reyni að hafa áhrif á viðhorf almennings til tóbaksreykinga. Þar hefur læknastéttin sterka stöðu því hún nýtur trausts og býr yfir miklum upplýsingum."
Hann bætir því við að fæstir hafi trúað sínum eigin eyrum þegar írskar krár urðu reyklausar, þær voru ekki beinlínis hollustan uppmáluð. "En þar sýndi það sig að öflugur málflutningur og upplýsingagjöf heilbrigðisstarfsmanna og stjórnvalda hafði þau áhrif að eigendur og starfsfólk öðluðust trú á að þetta væri hægt. Og það reyndist vera hægt."
Ekki hvort heldur hvenær
Göran segir að nú sé spurningin ekki hvort reykingar verði bannaðar á veitingastöðum í öðrum löndum heldur hvenær það gerist. "Þetta er mikilvægt skref í þá átt að fjölga reyklausum svæðum og auka með því hömlur gegn reykingum. Það er besta aðferðin til að fá fleiri til að hætta að reykja."
- Hvernig gengur undirbúningur reykingabannsins í Svíþjóð?
"Það hefur valdið okkur vonbrigðum að stjórnvöld hafa ákveðið að leggja ekki fé í áróðursherferð þegar bannið tekur gildi eins og gert var í Noregi og á Írlandi. Tillagan um bannið kom fyrst fram árið 2001 og þá voru viðbrögð eigenda og starfsfólks veitingahúsa neikvæð. Eigendunum tókst að fá starfsliðið með sér í krafti hótana um gjaldþrot og atvinnumissi. Lögreglumenn voru einnig efins því þeir sáu fyrir sér að það myndi auka mjög álagið á þá að þurfa að hafa eftirlit með fólkinu sem færi út að reykja.
Við höfðum samband við starfsfólkið og leiddum þeim fyrir sjónir að þetta væri í þeirra þágu, tilgangurinn væri að vernda heilsu starfsmanna. Stéttarfélögin skiptu því um skoðun. Við höfum líka gert samning við eigendurna um að gera rannsókn á áhrifum bannsins á heilsu starfsmanna. Samtök atvinnurekenda hafa linast í andstöðu sinni eftir að forystumenn þeirra horfðust í augu við að bannið myndi koma. Þá hafa þeir reynt að gera það besta úr þessu," sagði Göran Boethius.
Hann sagði að lokum að það skipti máli í þessari baráttu að læknastéttin væri einhuga. "Það er ekki nóg að stöku læknir standi í þessu stríði, forysta læknasamtakanna og Læknablaðið verða að beita sér til þess að hafa áhrif á stjórnvöld. Það er á okkar ábyrgð að draga úr tóbaksreykingum."
Þarna var spjalli okkar Görans eiginlega sjálfhætt því þar sem við sátum í reyklausu rými í anddyri Nordica hótels fórum við að finna tóbakslykt sem barst úr kaffistofu sem var þarna skammt frá. En áður en við kvöddumst sagði hann mér sögu frá Montana í Bandaríkjunum sem hér fær að fljóta með.
Saga frá Montana
Í Helena-sýslu í fylkinu Montana í Bandaríkjunum voru reykingar bannaðar á veitingastöðum og samtímis gerð rannsókn sem sýndi að tíðni sjúkdóma sem tengdust reykingum lækkaði um 40% á hálfu ári. Það var auðvelt að fylgjast með þessu því allir sjúklingar sýslunnar eru lagðir inn á sama sjúkrahús og með því að bera tíðnina saman við það sem gerðist í aðliggjandi sýslum kom þessi breyting í ljós.
Þá gerist það að dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að reykingabannið stangaðist á við stjórnarskrá fylkisins og afnam bannið. Á næsta hálfa ári rauk tíðni sjúkdóma sem tengjast reykingum upp þótt hún næði ekki alveg sömu hæðum og fyrr.
Göran Boethius segir að þessi saga frá Montana sýni glöggt hver áhrif óbeinna reykinga séu. "Hún segir okkur líka að það eru engin rök fyrir því að bíða eftir víðtækari rannsóknum enda vitum við nú að í fólki sem haldið er æða- og hjartasjúkdómum má merkja breytingar til hins verra ef það þarf að vera hálftíma eða lengur í tóbaksreyk. Það eru því líffræðileg rök sem styðja niðurstöður rannsóknanna í Helena-sýslu," segir hann.
Göran Boethius í anddyri Nordica hótels áður en tóbaksreykurinn flæmdi hann í burtu.