03. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Ágrip veggspjalda

V 1 Þróun hvekkaðgerða á FSA 1992-2002

Valur Þór Marteinsson

Handlækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

valmart@fsa.is

Inngangur: Talsverðar breytingar hafa orðið síðustu 20 árin á tíðni hvekkaðgerða um þvagrás vegna þvaglátaeinkenna eða fylgikvilla þeirra. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga breyt­ingar á ýmsum mikilvægum þáttum slíkra aðgerða (ábendingum, áhættu, fylgikvillum, dánartíðni, legudaga) og hvort endurskoða ætti þá eða annað þeim tengt.

Efniviður: Farið var yfir þrjú tímabil á H-deild FSA. Tímabil A=1992-94 (n=72), B=04.1995-01.1996 (n=48) og C=01.1997-04.2002 (n=36). Á tímabili B og C voru allar aðgerðir framkvæmdar af sama lækni með svipaðar verklagsreglur. Aðeins voru teknir með þeir er höfðu hvekkauka sem aðalgreiningu (krabbameinssjúklingar útilokaðir). Tímabil A var skráð afturvirkt, en B og C á framsæjan hátt.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður má sjá í töflu að neðan (niðurstöður gefnar sem fjöldi (n), miðtala* og prósentur).

Ályktanir: Aldur sjúklinga hækkar og þvagteppusjúklingum fjölgar án þess þó að eiginleg aukning verði á fylgikvillum eða blóðgjöfum. Legudögum fækkar eftir aðgerð. Ein helsta ábending slíkra aðgerða - þvagteppa - hefur aukist mjög á umræddu tímabili, sem leiðir líkur að því að sjúklingar leiti vart nægilega fljótt til læknis, einkenni séu dulin eða meðferð sú sem gefin hefur verið skili ekki tilætluðum árangri til lengri tíma litið.

V 2 Árangur nýrnanámsaðgerða með kviðsjártækni og aðstoð handar

Valur Þór Marteinsson, Hafsteinn Guðjónsson, Sigurður M. Albertssson

Handlækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

valmart@fsa.is

Inngangur: Kviðsjáraðgerðir á nýrum með aðstoð handar (hand-assisted laparoscopic nephrectomy) hafa verið framkvæmdar á FSA síðan 2001. Tilgangur rannsóknarinnar var að gera grein fyrir niðurstöðum slíkra nýrnanámsaðgerða.

Efniviður og aðferðir: Framvirk skráning var gerð hjá öllum sjúk­lingum er undirgengust nýrnanám á tímabilinu 16.10.02-15.12.04 á H-deild FSA. Tólf sjúklingar fóru í slíka aðgerð og enginn var útilokaður. Öllum var fylgt eftir. Notuð voru hefð­bundin kvið­sjár­speglunartæki auk GelPorttm. Aukalega voru gerðar gall­blöðrutaka, ófrjósemisaðgerð og ástunga á eggja­stokka­belgmein hjá þremur. Niðurstöður gefnar sem miðtala, bil og ± 95 vikmörk.

Niðurstöður: Miðtala aldurs var 61,5 ár (±10,6), ASA 2 (±0,18) og líkamsþyngdarstuðull 23,2 (±1,74). Heildarlegutími var 6 (±2,57) dagar og 4,5 (±2,07) dagar eftir aðgerð. Aðgerðartími var 183 (±36) mínútur og blæðing í aðgerð 185 (±68) ml, enginn þurfi blóðgjöf. Aldrei þurfti að venda yfir í hefðbundna opna aðgerð og engar enduraðgerðir voru. Enginn lést í eða eftir aðgerð. Einn sjúklingur fékk sýndarbelgmein í bris eftir aðgerð sem krafðist ekki aðgerða. Hjá 9 af 10 sjúklingum var staðfest illkynja æxlisvöxtur í nýra. Æxlisstærð var 52,5 (±20,5) mm (bil 15-90), tveir höfðu tvö æxli í sama nýra. Tveir höfðu óstarfhæft vatnsnýra með sýkingum. Verk­ir voru litlir sem engir á verkjakvarða einni til tveimur vikum eftir aðgerð, almenn líðan góð og engar endurinnlagnir voru. Engin merki hafa verið um útsæði eftir aðgerðirnar nær eða fjær.

Ályktun: Þrátt fyrir lítinn efnivið er árangur aðgerða ágætur og sambærilegur við bestu erlendar rannsóknir hvað varðar helstu aðgerðaþætti. Enginn þurfti á enduraðgerð að halda og ekki var þörf á aðgerðarvendingu. Aðgerðin sýnist jafngild hefðbundinni aðgerð sem krabbameinsaðgerð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica