01. tbl. 91. árg. 2005
Ritstjórnargrein
Læknablaðið 90 ára
Um þessar mundir er Læknablaðið 90 ára. Á liðnu vori vaknaði sú hugmynd innan ritstjórnar blaðsins að vert væri að minnast þessara tímamóta og gefa yfirlit yfir það sem birst hefur í blaðinu með því að endurbirta eina grein frá hverjum áratug úr útgáfusögu blaðsins. Ákveðið var að fá fyrrverandi ritstjórnarmenn til að velja greinarnar og fylgja þeim úr hlaði með greinargerð um valið eða fjalla um efni greinarinnar í ljósi nútímaþekkingar í læknisfræði. Nú er þessi hugmynd orðin að veruleika og komið að lesendum að skoða hvernig til hefur tekist. Ritstjórnin þakkar hér með þeim sem tekið hafa að sér að velja greinarnar og ræða þær. Læknablaðið er afar háð þeim sem í það skrifa og taka að sér viðlíka verkefni og hér er á ferð og allt er það gert án þess að það gefi peninga í aðra hönd. Læknablaðið væri ekki til án þeirra sem í það hafa skrifað frá upphafi og til þessa dags og helst það í hendur við að blaðið hefur haft trygga lesendur.
Læknablaðið er blað lækna. Það er að mestu skrifað af læknum um læknisfræði og hefur lengst af borist eingöngu læknum þó dreifing þess hafi orðið miklu umfangsmeiri á síðustu áratugum og þar með áhrifin. Nú er blaðinu meðal annars dreift til alþingis og fjölmiðla þar sem efni þess hefur oft vakið umræðu. Það yfirlit sem hér er gefið um það sem birst hefur í blaðinu í 90 ára sögu þess er um margt athyglisvert og greinarnar eru af tvennum toga. Í fyrsta lagi eru greinar um einstaka sjúkdóma eða sjúkdómaflokka, greiningu þeirra, meðferð, gang og horfur. Í öðru lagi eru greinar um heilbrigðismál íslensku þjóðarinnar, það sem nú er kallað lýðheilsa. Greinarnar um sjúkdómana bera því vitni að íslenskir læknar hafa á umræddu tímabili fylgst vel með í fræðum sínum, höfundarnir kynna nýjungar, hver í sinni sérgrein, fyrir öðrum læknum með það að markmiði að sem best gagnist sjúklingunum. Efni þessara greina eiga sér hliðstæður í erlendum læknatímaritum og Læknablaðið hefur því ekki staðið eitt að þekkingardreifingu fræðanna. Læknar sem lögðu sig eftir nýrri þekkingu gátu einnig lesið um þetta annars staðar og þannig fengið vísbendingar um nýjungar. Þekkingarsvið læknisfræðinnar er alþjóðlegt og þar hefur Læknablaðið verið þátttakandi jafnframt því sem það hefur veitt þeim sem ekki eru læknislærðir innsýn í fræðilegar nýjungar á íslensku.
Greinarnar um lýðheilsumálin hafa ekki síður alþjóðlega skírskotun auk þess að varða hag og heill allrar þjóðarinnar. Í þessum greinum nota höfundar faraldsfræðilegar rannsóknaraðferðir nútímans eins og þar sem best hefur tíðkast í nágrannalöndum okkar. Fjallað er um algenga sjúkdóma í sögulegu samhengi og skal hér nefnd grein um berklaveiki en einnig greinar um leiðir til þess að koma í veg fyrir kransæðasjúkdóm og um það hvernig lífshættir og hegðunarmynstur ráða holdafari og þar með heilsu. Enn skal á það minnt að þessar vönduðu læknisfræðilegu greinar eru ekki einungis skrifaðar af læknum til lækna heldur höfða þær ekki síður til almennings og til stjórnvalda. Lýðheilsumál er oft á tíðum flókin og hápólítísk og kalla því á nákvæma og vandaða umfjöllun og framsetningu þannig að málinu sé lið unnið og fái sem flesta fylgjendur og stuðningsmenn svo nægilegt afl sé til að hrinda fram forvarnaraðgerðum.
Læknablaðið er á íslensku. Mörgum finnst það öllu skipta að Læknablaðið sé á móðurmálinu. Þeirra rök eru meðal annars að læknar verði að geta tjá sig um læknisfræði á íslensku við sjúklinga og að Læknablaðið sé góður æfingavöllur til þess. Aðrir láta sér fátt um finnast og gætu eins hugsað sér að blaðið væri á alþjóðlega fræðimálinu, á því máli koma flestar nýjungar fram, án þeirra stöðnum við.
Læknablaðið fylgir stöðluðum reglum alþjóðlegra læknatímarita, hvað varðar framsetningu og hönnun fræðigreina (1, 2). Þar eru einnig fyrirmyndir að ritrýnisferli og gæðamati á innihaldi greina í Læknablaðinu. Á þeim kröfum og stífu reglum verður í engu slakað: Þær eru órjúfanlegur hluti þess trúverðugleika sem læknisfræðin og Læknablaðið njóta. Reglukerfi þetta, sem er í stöðugri endurskoðun, miðar að því að leitast sé við að hafa sannar og réttar frásagnir og að ályktanir byggi á röklegum samanburði og þar er mannvirðing höfð að leiðarljósi. Þessar reglur hafa læknatímaritin sjálf sett sér, hvorki stjórnvöld, háskólar né læknadeildir hafa komið að gerð þeirra. Þær eru umgjörð samvinnunnar sem ritstjórn og höfundar eiga um fræðigreinarnar.
Margur íslenskur læknirinn hefur fyrst reynt sig á hinum fræðilega ritvelli á síðum Læknablaðsins. Nánd blaðsins við íslenska lækna er mikil og það hefur ef til vill lokkað og hvatt til fræðiiðkana. Það er auðvelt sem ritstjóri að sjá fyrir sér höfunda fræðigreina, einkum hina yngri, glíma við textagerðina. Löngu áður hafa þeir velt vöngum yfir skipulagi rannsókna sinna og spurt spurninganna, safnað gögnum, stillt þeim saman, lagt á þær tölulegt mat og hugleitt ályktanir.
Aftur þakkir til höfunda, það eruð þið sem gert hafið blaðið.
Heimildir
1. Uniform requirements for manuscripts submitted to biomedical journals. International Committee of Medical Journal Editors. Med Educ 1999; 33: 66-78.
2. www.laeknabladid.is/fragangur/