01. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Það var ljúft verk en ekki létt að velja bestu greinina í Læknablaðinu á árunum 1985-1994. Það kom skemmtilega á óvart hversu margar mikilvægar greinar höfðu verið ritaðar í Lækna­blað­ið á þessu tímabili.

Í fyrsta tölublaði 74. árg. árið 1988 skrifaði Ólafur heitinn Jensson yfirlitsgrein um arfgengt æðamýlildi og heilablæðingu ? rannsóknaryfirlit (1). Þessi grein ásamt grein Hannesar Blöndal og fleiri í 6. tbl. Læknablaðsins 1989 (2) bera vitni einu glæsilegasta rannsóknarverkefni í íslenskri læknisfræði þar sem íslenskir vísindamenn hafa upplýst vefjafræði, eðli og erfðafræði arfgengra heilablæðinga á Íslandi.

Í 3. tbl. 78. árg. árið 1992 fjalla María Sigur­jónsdóttir og samstarfsmenn (3) um helicobacter pylori í magaslímhúð og í 4. tbl. 81. árg. árið 1994 fylgja Einar Oddsson og félagar þessu eftir með grein (4) um meðhöndlun á helico­bacter pylori sýkingum hjá sjúklingum með meltingarónot. Þessar greinar gera góða grein fyrir þeirri byltingu á skilningi manna á meltingarfærasjúk­dómum sem fólst í uppgötvun helicobacter sýkinga og áhrifa þeirra í meltingarvegi. Álíka frumkvöðulsstarf kemur fram í grein Katrínar Rutar Sigurðardóttur, Gunnars Sigurðssonar og Jóns Inga Jósafatssonar í 3. tbl. 81. árg. árið 1994 (5) þegar þau fjalla um beinþéttnimælingar í framhandlegg íslenskra kvenna. Enn á ný flytur Læknablaðið íslenskum læknum það nýjasta í læknisfræðilegum rannsóknum og segir frá frumlegum og mikilvægum íslenskum læknisfræðirannsóknum.

Að þessum greinum og öllum öðrum ólöstuðum taldist besta grein áranna 1985?1994 í Læknablaðinu vera grein Guðmundar Þorgeirssonar, Davíðs Davíðssonar, Helga Sigvaldasonar og Nikulásar Sigfússonar sem birtist í 7. tbl. 78. árg. árið 1992 (6): ?Áhættuþættir kransæðasjúkdóms meðal karla og kvenna á Íslandi. Niðurstöður úr hóprannsókn Hjartaverndar 1967-1985?. Hjartaverndarverkefnið er eitt mikilvægasta og metnaðarfyllsta rannsóknarverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Metnaður, framsýni og kraftur frumkvöðlanna verður seint fullmetinn, bæði vísindamannanna og annarra frumkvöðla sem áttu stóran þátt í að tryggja verkefninu fjármagn og aðstöðu. Eins og gjarnan er með viðamikil rannsóknaverkefni þá leið langur tími frá því að fyrst var sáð þar til að uppskeru kom. Grein Guðmundar Þorgeirssonar og félaga er hluti af uppskerunni, eins konar fyrsti sláttur og segir frá dánartíðni, dánarorsökum og helstu áhættuþáttum hjá rúmlega 8000 körlum og heldur stærri hópi kvenna. Þessi umfangsmikla faraldsfræðilega rannsókn hefur lagt grunn að margs konar rannsóknum á hjartasjúkdómum á Íslandi, þar á meðal á erfðafræði þeirra og um leið byggt upp Hjartavernd sem öfluga íslenska rannsóknastofnun. Það er ánægjulegt að sjá hve vel Læknablaðið greinir frá þessari þróun og hversu vel lestur Læknablaðsins lýsir því hvað er að gerast í íslenskum læknisfræðirannsóknum á hverjum tíma.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica