Umræða og fréttir
  • Örn Bjarnason

Kristinn heimur miðalda og Hrafn Sveinbjarnarson

Norðurlandabúar höfðu átt langvinn og mikil samskipti við hinn kristna heim áður en þeir sneru endanlega baki við Óðni og Þór, Nirði og Frey. Þeir vissu að Frankar, Englendingar, Írar og íbúar í Býzans trúðu á Hvíta-Krist og það hafði heldur ekki farið fram hjá norrænum kaupmönnum að viðskiptamenn þeirra á Íberíuskaga og við Kaspíahaf aðhylltust eingyðistrú.Einn heimur - hinn kristni heimur

Í eftirmála að Öldinni þrettándu segir Óskar Guðmundsson:Á hámiðöldum voru þjóðir Norður- og Vestur-Evrópu svo nátengdar menningarlega að í vitundinni lifði eitt samfélag - hinn kristni heimur. Ein kirkja batt þessar þjóðir saman í einn sið. Líklega viðurkenndu kirkjunnar menn varla nokkur landamæri - og þeir töluðu meira að segja einni tungu, latínu. Svipað má segja um tungumálið sem notað var á því víðfeðma svæði um haf innan, löndum og eyjum við Atlantshaf, sem byggð voru norrænum mönnum. Þannig fóru saman sameiginlegar menntir og hugsjónir. Við það bætist svo að þessi heimur var að hefja nýja byltingu í verslunar- og viðskiptaháttum. Samskipti þjóða á milli leiddu til nýrra bandalaga og verslunarmiðstöðva. Bandalög Hansaborga og fleiri slík leiddu til víðtækrar löggjafar og samninga þjóða á milli.

Íslendingar voru við hið stóra haf þar sem flestir töluðu sömu tungu, og játuðu sama sið, kristni. Samskipti á sviði menningar, verslunar og trúmála voru fjölbreytileg. Íslendingar urðu fyrir margvíslegum menningaráhrifum - og það eru líkindi til að þeir hafi einnig haft töluverð áhrif í hinum norræna heimi.Nýr siður í Danaveldi ...

Þegar Karla-Magnús færði endimörk ríkis síns til norðurs, komust Danir í nána snertingu við löndin í suðri. Þeim tókst að stöðva framrás Frankanna og árið 811 var gert samkomulag um það, að áin Eider (Egedorae fluminis) skyldi marka landamæri Danaveldis til suðurs og hélzt sú skipan til 1864. Loðvík I. keisari hinn frómi, sonur Karla-Magnúsar, reyndi að kristna Dani og sendi í því skyni Ansgar munk til Heiðarbæjar árið 826. Ekki hafði hann erindi sem erfiði, en árið 831 stofnaði Loðvík erkibiskupsstól í Hamborg og skipaði Ansgar í embætti. Skyldi hann ráða fyrir kristnum á Norðurlöndum.

Í Heiðarbæ (nú Slésvík, Schleswig) innst í firðinum Slé (Schlei) reis mikilvæg miðstöð á verzlunarleið Frankanna til múslímsku ríkjanna í austri, um Eystrasaltið og rússnesku fljótin. Danir tóku virkan þátt í viðskiptunum í samvinnu við Frísa, sem bjuggu suð-vestan við þá, við Elbu og Rínarfljót. Frísar voru kristin siglingaþjóð sem komst undir þýzk yfirráð árið 925. Þjóðverjar sóttu einnig á Dani og þeir urðu einnig að verjast Vindum, slavneskum þjóðflokki við vestanvert Eystrasalt (Vender á dönsku, Wenden á miðháþýzku).

Þegar Haraldur blátönn konungur Dana, sonur Gorms hins gamla, tók skírn um miðja tíundu öldina og ákvað að þegnar hans skyldu kristnir verða, fól hann nýskipuðum biskupum á Jótlandi að stjórna trúboðinu, en þeir heyrðu undir erkibiskupinn í Hamborg. Hefir verið látið að því liggja að Haraldur Gormsson hafi gerzt kristinn til þess að geta bægt frá afskiptum þýzkra.

Togstreitan við Eystrasaltið náði hámarki þegar Valdimar konungur I. var kominn til valda í Danmörku og í Suður-Svíþjóð og fóstbróðir hans og ráðgjafi, Absalon biskup í Hróarskeldu, var orðinn erkibiskup í Lundi 1177. Með blessun erkibiskups hóf konungur krossferð gegn Vindum og öðrum baltneskum heiðingjum, enda ógnuðu þeir Eystrasaltsverzluninni. Absalon biskup hlaut menntun sína í París og er talinn fyrsti Daninn sem þar stundaði nám.... og í Noregi

Í Noregi kostaði kristnitakan verulegar blóðsúthellingar. Þar fóru fremstir Ólafur Tryggvason og Ólafur Haraldsson hinn digri, síðar nefndur hinn helgi. Báðir voru þeir afkomendur Haraldar hárfagra. Báðir höfðu á ferðum sínum snúizt til kristinnar trúar, báðir reyndu að snúa Norðmönnum til betri siðar og réðu til þess trúboða frá Englandi.

Ólafur Tryggvason var skírður af Aelfeah erkibiskupi af Kantaraborg árið 994. Ólafur var þá í herför á Englandi með Sveini konungi Dana, sem auknefndur var tjúguskegg.

Ólafur tók við völdum í Noregi 995. Um hann segir í Noregskonungatali "er Sæmundur frodi orti":22. Misti litt

su er laugum styrdi

recka kind

raad hins bezsta.

þa er nordr

i Noregi

kristinn mann

til konungs toku.23. Ok Olafr

arfui Tryggua

tok liddriugr

lond ok þegna.

hinn er fimm

a faam vetrum

lofda vinar

lond kristnadi.Fyrir utan Noreg er hér átt við Orkneyjar, Færeyjar, Ísland og Grænland:

Orkneyjar á Ólafur Tryggvason að hafa kristnað með því að neyða jarlinn, Sigurð digra, til þess að taka skírn. Færeyingum á hann að hafa fært kristindóminn með hjálp Sigurðar Brestissonar. Til Íslands sendi hann þýzkan prest, Þangbrand. Þarf ekki frekar um það að ræða. Grænlendingum sendi hann Leif heppna Eiríksson.

Ólafur Tryggvason féll í orrustunni sem kennd er við Svoldur, árið sem kristni var í lög tekin á Íslandi.

Ólafur frændi hans Haraldsson var skírður í Rúðuborg í Normandí (Rouen) veturinn 1013-1014 og árið eftir tók hann við konungdómi í Noregi. Heimkominn í Niðarós hitti hann fyrir Sighvat skáld Þórðarson, en faðir Sighvatar, Þórður Sigvaldaskáld, var í liði konungs. Varð Sighvatur trúnaðarmaður konungs, hirðskáld, stallari og sendimaður. Jafngildir það því að hann hafi í nútímaskilningi verið bæði forsætis- og utanríkisráðherra.

Ólafur lagði undir sig lendur Dana í Noregi og varð hann þannig fyrstur konungur yfir landinu öllu. Hann skipulagði trúboðið, byggði kirkjur og að ráði Grímkels, engilsaxnesks biskups, lét konungur setja kirkjulög, sem bændur samþykktu á þingi og engilsaxnesku trúboðarnir menntuðu Norðmenn til prestsstarfa.

Ólafur Haraldsson féll í orrustunni við Stiklarstað árið 1030. Fljótlega þóttust menn merkja að hér hefði verið á ferð helgur maður og má segja að látinn hafi hann stuðlað betur að framgangi kristninnar, en meðan hann lifði.Magnús konungur og Sighvatur Þórðarson

Þegar Magnús, laungetinn sonur Ólafs Haraldssonar, fæddist árið 1024 var það Sighvatur Þórðarson sem lét skíra drenginn og var sjálfur guðfaðir hans. Þetta staðfestir Sighvatur í niðurlagi Bersöglisvísna sinna, í átjándu vísu:"Seyni olafs bið ek snúðar

sið queða aftans biða

oframs sök meðal ockar

allt er haligt sva mala" ...[Syni Ólafs bið ég hagstæðra málaloka; sagt er að mál óframfærins verði að bíða þar til síðar í kvöld; milli okkar er allt heilagt] ...

Norski bókmenntasagnfræðingurinn Hallvard Lie segir í æviágripi Sighvats um orðalagið "meðal okkar allt er heilagt", að það vísi til þeirrar cognatio spiritualis (andlegs skyldleika), sem skírnin stofni til.

Ólafur Haraldsson hraktist í útlegð til Garðaríkis 1028. Athyglisvert er að Sighvatur varð eftir í Noregi og árið eftir fór hann í pílagrímsferð til Rómar. Hefir verið leitt að því líkum að Sighvatur hafi fyrst og fremst verið að ganga erinda Ólafs, en höfuðandstæðingurinn, Knútur ríki Danakonungur hinn mikli, sonur Sveins tjúguskeggs, hafði þá nýverið heimsótt páfa og haft með sér digra sjóði. Á heimleiðinni frétti Sighvatur fall Ólafs konungs. Árið eftir fór hann til Svíþjóðar að finna Ástríði drottningu Ólafs helga og var honum vel tekið.

Magnús Ólafsson fylgdi föður sínum í útlegðina, en þegar Ólafur konungur hélt heim á ný, varð sonurinn eftir í uppfæðzlu og fóstri hjá Jarizleifi konungi í Garðaríki. Árið 1035 fóru þeir austur Einar Þambaskelfir og Kálfur Árnason að sækja konungssoninn og Sighvatur kom til móts við þá í Sigtúnum og síðan var haldið til Noregs, þar sem Magnús var tekinn til konungs.

Ekki fer sögum af Sighvati næstu árin, en hann hefir áfram staðið konungi nærri því þegar harðýðgi Magnúsar þótti úr hófi gengin var ákveðið meðal þeirra tólf er nánastir voru konungi, að hlutkesti skyldi ráða hver ætti að reyna að koma vitinu fyrir hann. Var því þá þannig fyrir komið að Sighvatur vann hlutkestið. Þetta er talið hafa gerzt rétt fyrir 1040.

Þá orti Sighvatur Bersöglisvísur sem Hallvard Lie segir í æviágripinu að sé pólitískt skjal án nokkurrar hliðstæðu og bætir þessu við:Ósk mín er að lifa og deyja með þér, Magnús, - og þurfi endanlega að berjast, verður Sighvatur þér við hlið með sverð í hendi, því heilög bönd tengja okkur saman. En - nú verður þú að gæta þín konungur! Þú stefnir í óefni. Þú virðir ekki lögin, þú stundar rán í eigin ríki, tekur óðulin af bændunum, þú heldur ekki orð þín. Þetta mun fólkið ekki umbera. Gráhærðir menn hafa misst þolinmæðina og eru þér ógn. Nú er hætta á ferðum; ógæfan er skammt undan, en henni verður enn afstýrt. Syni Ólafs bið ég hagstæðra málaloka. Í mjög styttu máli er þetta nakin hugsunin í þessu stolta kvæði, sem stendur sem verðugt minnismerki, ekki einasta um Sighvat skáld, heldur einnig um Magnús konung, sem reyndist svo stór í sniðum að þola þessa bersöglu ræðu og draga af henni lærdóm. Líklega hafa skáldskapur og stjórnmál sjaldan átt í innilegra sambandi en var í þessu tilviki.

Í sögu Magnúsar konungs segir: "Nú hyggur konungur að þessum ráðum og áminningum, sem Sighvatur skáld hefir til skipað í kvæðinu. Verða þá margir göfgir menn og góðgjarnir til að styðja þessi heilræði ... og með því konungur var bæði vitur maður og góðgjarn og stillti sig vel, þótt honum væri mikið í skapi. ... Hét konungur öllum mönnum gæzku og friði." Við það stóð hann og gjörðist Magnús konungur þaðan í frá ástfólginn þegnum sínum og var hann kallaður Magnús hinn góði.

Sighvatar skálds er síðan ekki getið fyrri en í herför Magnúsar konungs til Eystrasalts og Jótlands 1041-1043 og álitið er að hann hafi fallið frá skömmu síðar, 1044 eða 1045.Orrustan við Vinda á Hlýrskógsheiði

Hörða-Knútur (1018-1042), eða Hardeknud, eins og Danir kalla hann, varð konungur Dana og Englendinga eftir föður sinn, Knút hinn ríka og mikla, sama árið og Magnús góði var til konungs tekinn í Noregi.

Náfrændi Hörða-Knúts, Sveinn Ástríðarson (Svend Estridsson) hafði gengið í þjónustu Magnúsar góða og svarið honum trúnaðareiða. Sveinn var sonur Úlfs jarls Sprakaleggssonar og Ástríðar, er var systir tveggja konunga, Knúts hins ríka og Ólafs hins svenska.

Í Flateyjarbók segir frá því að Sveinn hafi farið með Magnúsi suður til Danmerkur. Fékk konungur Sveini jarlstign og vald og ríki í Jótlandi, "er megn er allz Danaveldis, þat er fyrst Noregs ríki, en næst Vindum og Söxum, er mikinn ófrið veittu Dönum jafnan. Síðan fór Magnús konungur aptur til Noregs og sat þar um vetrin í Niðarósi og veitti þar jól sín."

Sveinn jarl beið ekki boðanna og kallaði um veturinn saman þing að Vébjörgum (Viborg) "og á því þingi gáfu Danir honum konungs nafn." Magnús brást við hart, en fyrst varð að berja á Vindum og "sigldi hann með flotanum til Vindlanz ... gengu þeir á land upp og herjuðu og brenndu byggðir og menn ..." Haustið eftir var Magnús konungur kominn til Jótlands. Þá var honum sögð sú hersaga að Vindaher fer óspaklega, brennir allt og bælir í ríkinu. Er Vindar sneru úr ránsferðinni á Jótlandi, sat konungur fyrir þeim á Hlýrskógsheiði, örskammt norðan við Heiðarbæ (Slésvík).

Í Flateyjarbók segir frá því að nóttina áður en herjunum laust saman vitraðist Ólafur helgi syni sínum. Þóttist Magnús konungur sjá föður sinn á hvítum hesti og þótti hann mæla við sig: "Statt upp hart og fylk liði þínu. Ærið lið hefir þú að berjast gegn heiðnum mönnum, því að ég mun berjast með þér. Þá er þú heyrir hringt Glöð norður í Þrándheimi, þá mun ekki lengur þurfa að bíða mín, því að hún skal vera lúður minn í dag."

Í upphafi orrustunnar segir konungur mönnum sínum að þeir munu sigur fá, "því að hinn helgi Ólafur konungur fer með oss. Og í því bili heyrðu allir Norðmenn klukknahljóð í himininn yfir sig og kennir Magnús konungur og allir Norðmenn, að það hljóð var sem í Glöð norður í Þrándheimi og við þetta snýr af liðinu allan ótta og hyggja allir á þessar jarteinir og enginn hræðist nú um líf sitt, hvort sem heiðingjar eru fleiri eða færri." Er ekki að orðlengja það að í september 1043 fékk Magnús konungur góðan sigur.Svá kom lækning af guðs miskunn fyrsta sinn í kyn Bárðar svarta

Í Heimskringlu segir að það sé alþýðu mál að mannfall hafi ekki "orðið jafnmikið á Norðurlöndum í kristnum sið sem það, er varð á Hlýrskógsheiði af Vindum. En af liði Magnúsar konungs féll ekki margt, en fjöldi varð sárt og eftir orrustu lét Magnús konungur binda sár sinna manna ..."

Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar segir frá því að Atli Höskuldsson, faðir Bárðar svarta, föður Sveinbjarnar læknis, föður Hrafns,

hafði verið með Magnúsi konungi hinum góða Ólafssyni í bardaganum á Hlýrskógsheiði, þá er hann barðist við Vindi. Þá vitraðist Ólafur konungur Magnúsi, syni sínum, bað hann velja tólf menn af öllum herinum, þá er væru af hinum beztum ættum, til þess að þeir bindi sár manna. En hann kveðst það myndi þiggja af guði, að í hvers þeirra kyni skyldi síðan lækning haldast, er þar væri til valdir sár manna að binda. En eptir bardagann skipaði hann þeim til að binda sár manna, því að fáir voru læknar í liði hans, en menn voru margir sárir orðnir. Þá batt Atli sár manna fyrsta sinn að boðorði Magnúss konungs og var síðan algjörr læknir, sem allir þeir, er þar bundu sár manna. Svá kom lækning af guðs miskunn fyrsta sinn í kyn Bárðar svarta.

Í Heimskringlu er þess getið, að Magnús konungur hafi nefnt til tólf menn, "þá er honum sýndist sem mjúkhenzktir myndu vera, og segir, að þeir skyldu binda sár manna, en enginn þeirra hafði fyrr sár bundið; en allir þessir urðu hinir mestu læknar. Þar voru tveir íslenzkir menn, var annar Þorkell Geirason, annar Atli, faðir Bárðar svarta í Selárdal og komu frá þeim margir læknar síðan."

Í Landnámabók er getið tveggja manna með viðurheitið læknir:

Annar þeirra var Höskuldur, sonur Þórdísar Snorradóttur Jörundarsonar, en móðir hennar, Ásný, var dóttir Sturlu Þjóðrekssonar á Staðarhóli (Víga-Sturlu). Dóttir Höskuldar læknis var Margrét, móðir Þorfinns ábóta.

Hinn var Þorkell Geirason að Lundum, sem nefndur var hér á undan, faðir Geira, föður Þorkels kanúka, vinar Þorláks biskups hins helga, en Þorkell kanúki gaf fé sitt til þess að stofnað yrði klaustrið að Veri í Þykkvabæ.Hrafns saga Sveinbjarnarsonar

Hrafns saga Sveinbjarnarsonar hefst á því að sögð eru deili á ætt hans:Sveinbjörn hét maður, son Bárðar svarta, Atlasonar, Högnasonar hins heppna, Geirþjófssonar, er nam Geirþjófsfjörð, Valþjófssonar hins gamla. Sveinbjörn bjó í Arnarfirði á þeim bæ, er á Eyri heitir. Hann átti konu þá, er Steinunn hét. Hún var Þórðardóttir, Oddleifssonar. Sveinbjörn var goðorðsmaður og vitur og mikill atferðarmaður, læknir góður.Atli Högnason, afi Sveinbjarnar, hafði verið með Magnúsi konungi hinum góða Ólafssyni í bardaga á Hlýrskógsheiði, þá er hann barðist við Vindi, svo sem sagt er frá hér næst á undan.

Þau Steinunn Þórðardóttir og Sveinbjörn Bárðarson áttu fimm dætur og tvo sonu. Markús hét hinn eldri og var hann mikill vexti og rammur að afli. Hann var ungur settur til bókar og síðan vígður til prests. Var það í samræmi við það að á þessum tíma tóku margir höfðingjar vígslu, enda héldust þannig yfirráð yfir kirkjujörðum í þeirra höndum og fjórðungur tíundar féll þeim í hlut, eins og Óskar Guðmundsson greinir frá í Öldinni tólftu. Markús hrapaði ungur til bana á ferðalagi og stóð þá yngri bróðirinn, Hrafn, til arfs að goðorðinu.

Í Hrafns sögu er honum svo lýst að hann var mikill maður og réttleitur í andliti, svartur á hárlit, syndur vel og við allt fimur það er hann hafðist að, bogmaður mikill og skaut manna bezt handskoti. Í sögunni segir enn fremur að hann hafi snemma verið mikill atgervismaður, völundur að hagleik, bæði á tré og járn og skáld, þó hann hafi fátt kveðið, það sagnarritarinn vissi. Hann var hinn mesti læknir og vel lærður og ei meir vígður en krúnuvígslu, lögspakur maðr og vel máli farinn, minnugur og að öllu fróður.

Í kaþólsku kirkjunni og í rétttrúnaðarkirkjunum er krúnuvígsla (tonsura á latínu) fyrsta athöfnin, sem fram fer til þess að helga einstakling til þjónustu við guð og kirkjuna og upphafið að því að ganga í heilagt samfélag. Latneska nafnið er dregið af sögninni tonso, raka, enda er hluti höfuðhárs þess sem vígður er skorið á viðeigandi hátt.

Hrafn hefir notið kennslu föður síns og ætla má að hann hafi haft aðgang að þeim lækningaritum sem tiltæk voru á þessum tíma og að hann hafi haft næga þekkingu til þess að geta nýtt sér þau fræði og að auki hefir hann aflað sér þekkingar erlendis.Af fyrri ferð(um) Hrafns Sveinbjarnarsonar

Í Hrafns sögu segir frá því að Hrafn hafi farið þrívegis til útlanda ýmissa erinda.

Í Hrafns sögu segir að hann hafi fengið "góða virðing í öðrum löndum af höfðingjum." Þó er aðeins einn nefndur, Bjarni biskup Kolbeinsson í Orkneyjum.

Hvergi er í sögum getið um fæðingarár Hrafns, en í Læknum á Íslandi er hann talinn fæddur árið 1071. Sé sú tilgáta rétt hefir hann verið sautján ára þegar ferðin hófst, þar sem Bjarni Kolbeinsson varð biskup árið 1088. Það kemur og heim og saman við frásögnina: "Hrafn fór ungur brott af landi ok" ... "var utan einn vetur ok var á hendi tignum mönnum ok þótti mikils verður, hvar sem hann kom, fyrir íþrótta sakir. Þá réð Sverrir konungur fyrir Noregi" (1084 til 1202). "Annað sumar sigldi hann út hingað ok fór til bús með föður sínum á Eyri." Þá er þess getið að Bjarni Orkneyjabiskup hafi sent Hrafni gersemar "út hingað, það fingurgull er stóð eyri og var merktur á hrafn og nafn hans svo að innsigla má með. Annan hlut sendi biskup honum, söðul góðan, og hinn þriðja hlut, steinklæði." Má vera að þetta tengist væntanlegri suðurgöngu Hrafns.

Aðdraganda þeirrar ferðar er svo lýst:Atburður sá gerðist í Dýrafirði á vorþingi, þá er Hrafn var þar, að rosmhvalur kom upp á land, ok fóru menn til að særa hann, en hvalurinn hljóp á sjó ok sökk, því að hann var særður á hol. Síðan fóru menn til á skipum ok gerðu til sóknir ok vildu draga hvalinn að landi ok unnu engar lyktir á. Þá hét Hrafn á hinn helga Tómas erkibiskup til þess að nást skyldi hvalurinn. Hann hét að gefa hausfastar tennur úr hvalnum, ef þeir gætu náð hvalnum að landi fluttan. Ok síðan, er hann hafði heitið, þá varð þeim ekki fyrir að flytja að landi hvalinn. Þessu næst fór Hrafn brott af landi, ok komu þeir skipi sínu við Nóreg ... Þann vetur var Hrafn í Nóregi, ok að vori fór hann vestur til Englands og sótti heim hinn helga Tómas erkibiskup í Kantarabyrgi og færði hinum helga Tómasi tennurnar, ok varði hann þar fé sínu til musteris ok fal sig undir þeirra bænir ...

Þessu er lýst svo í drápu Guðmundar Svertingssonar, sem í er vitnað í sögunni:Get ek þess, er gekk at lúta

geðfastur hinum helgasta

bölhnekkjandi af blakki

blás vandar Tomási[Ég get þess, er gekk (ég) einarður af skipi, til þess að lúta hinum miskunnsama helgasta Tómasi]

Blakkur (hestur) blás (svarts) vandar (masturs) er skipskenning.

Í Hrafns sögu segir: "Þaðan fór hann suður um haf" og í drápu Guðmundar Svertingssonar segir:Ferð kom fleina rýrir

framm, jókeyris Glamma

lýður sá storma stríða

stund, til Jakobs fundar[Hermaður kom fram ferð til fundar við Jakob. Sæfarar hrepptu stríða storma (langa) stund]

Þessi lýsing gæti átt við að hann hafi farið til La Coruña á norðurströnd Spánar, en þaðan er 50 kílómetra leið til borgar Heilags Jakobs, Santiago de Compostela. Þá kæmi og til greina að hann hafi siglt til vesturstrandar Frakklands, til dæmis til Bordeaux í Aquitania, en þaðan er um 250 kílómetra leið upp með Garonne-ánni til Toulouse.Tómas Bechet átti ættir að rekja til Normandí. Hann gekk í þjónustu Theobalds erkibiskups af Kantaraborg 1142. Að ráði erkibiskups gerði Hinrik II Tómas að kanslara sínum, þegar hann tók við konungdómi árið 1154. Það var síðan konungur sem tryggði kanslara sínum kosningu sem archiepiscopus Cantauriensis árið 1162. Fljótlega slettist upp á vinskapinn hjá þessum fyrrum samherjum því að Tómas erkibiskup tók nú upp á því að reyna að koma á þeim umbótum innan kirkjunnar, sem Hildibrandur (síðar Gregóríus páfi VII) hafði hleypt af stað eitt hundrað árum fyrr. Í þeim fólst að kosningar yfirmanna kirkjunnar skyldu óháðar veraldlegu valdi, eignir kirkjunnar væru friðhelgar, frelsi væri til þess að áfrýja til páfa og að kirkjunnar menn yrðu ekki sóttir til saka fyrir veraldlegum dómstólum. Í sem fæstum orðum: Kirkjan skyldi ráða sér sjálf og guðs lög sett ofar lögum mannanna. Þetta gat Hinrik II augljóslega ekki fellt sig við og svo fór að lokum að riddarar konungs myrtu erkibiskupinn í dómkirkjunni í Kantaraborg þann 29. desember 1170. Tómas var tekinn í dýrlingatölu árið 1173.Í síðari hluta þessarar greinar að mánuði liðnum verður vikið að lífi og lækningum Hrafns Sveinbjarnarsonar. Þar verður og gerð grein fyrir helztu heimildum.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica