Ritstjórnargreinar

Langtímaáhrif kannabisneyslu

Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á fíkniefninu kannabis og hafa flestar beinst að fíkninni sjálfri og taugaeitrunareinkennum hjá þeim sem nota kannabis. Að undanförnu hafa birst niðurstöður rannsókna sem sýna annars vegar að kannabisreykingar valdi eiturverkun á erfðaefnið og framkalli þannig krabbamein og hins vegar að kannabisneysla tengist geðröskunum.

Neysla kannabis jókst mjög á síðustu tugum seinustu aldar meðal ungs fólks í iðnþróuðum löndum. Það sem ýtti undir þessa auknu neyslu var ekki síst það hversu auðvelt var að verða sér úti um þennan vímugjafa en einnig auknar hömlur gegn áfengisneyslu og akstri bifreiða. Samfara þessu var það ef til vill hald manna að neysla kannabis væri hættulaus og gerði ekkert til eða að hún væri í það minnsta ekki eins skaðleg og reykingar og áfengisneysla. Fljótlega fór neysla kannabis að valda áhyggjum því talið var að hún gæti leitt til neyslu annarra og hættulegri vímuefna, einsog síðar var staðfest (1, 2).

Fíkn í kannabis hefur ekki verið eins áberandi og fíkn í önnur vímuefni og kann skýringin að vera sú að neyslan er oftast óregluleg og er mest meðal unglinga sem flestir hætta neyslu fyrir þrítugsaldur (3). Nokkur hluti kannabisneytenda leiðist þó út í reglulega neyslu sem getur varað árum saman. Fíknieinkenni og heilsufarsvandamál sem hrjá þá er misnota ópíum og örvandi efni eru miklu algengari og alvarlegri en þau sem sjást hjá þeim er neyta kannabis (4). Kannabisneysla veldur ekki eins oft árásarhneigð samanborið við ýmsa aðra vímugjafa og vekur því neyslan oft ekki sömu athygli. Kannabisneysla skerðir þó hæfni manna til að stjórna hvers konar farartækjum og vara slík áhrif, eftir venjulegan skammt, lengur en 24 tíma vegna hægs útskilnaðar kannabisefna. Þetta gerir að erfitt er að sanna þátt kannabisneyslu í umferðarslysum (5). Sýnt hefur verið fram á í mörgum rannsóknum að slakur námsárangur unglinga tengist kannabisneyslu og framsýnar rannsóknir sýna að unglingum sem byrja snemma að nota kannabis gengur illa í skóla og þeir hætta fyrr skólagöngu en aðrir nemendur og að þetta er óháð öðrum áhættuþáttum (2, 6). Í læknisfræðinni hefur fyrirbærinu "kannabis-geðveiki" verið lýst, fyrst í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar, sem skyndilegu rugli með ímyndunum, ofskynjunum, tilfinningalegu ójafnvægi, gleymsku, áttavillu, óraunveruleikatilfinningu og ofsóknarkennd er kemur eftir inntöku kannabis í stórum skömmtum (7). Kannabis-geðveiki og einkenni geðveiki sem greinilega tengjast kannabisneyslu eru yfirleitt talin ganga til baka við afeitrun þegar neyslu er hætt, en geta komið fram að nýju við endurtekna neyslu.

Á síðustu árum hafa komið fram æ fleiri vísbendingar um að kannabisneysla geti leitt til varanlegs heilsutjóns. Faraldsfræðilegar rannsóknir á sambandi kannabis og sjúkdóma hafa verið fáar hingað til en þar sem kannabis er reykt hafa athuganir beinst að öndunarfærum og sérstaklega krabbameinshættu. Tíu greinar hafa birst sem fjalla um krabbamein í höfði og hálsi sjúklinga sem reykt hafa kannabis og í nýlegri tilfellaviðmiðarannsókn kom í ljós að kannabisneysla jók hættuna á flöguþekjukrabbameini á höfuð- og hálssvæði (8). Í þessari rannsókn sást tölfræðilega marktækt skammtur/svörun-samband milli krabbameinshættunnar og magni kannabisreykinga á dag og fjölda ára sem reykt hafði verið (8). Við mat á hættunni á krabbameini var tekið tillit til og leiðrétt fyrir öðrum sennilegum áhættuþáttum, svo sem sígarettureykingum, áfengisneyslu og fleiri atriðum.

Spurningin um hvort neysla kannabis leiði til hrakandi geðheilsu hefur lengi verið áleitin. Nýleg rannsókn staðfesti fyrri rannsóknir um að langvarandi kannabisnotkun leiði til vitsmunaskerðingar en hún virðist mælast æ meiri því fleiri ár sem menn hafa verið í neyslu kannabis og er hér um að ræða einn til tvo áratugi (9). Þessi vitsmunaskerðing er mæld með níu taugasálfræðilegum prófum og er ekki vegna bráðra eiturverkana. Breytingar á heilastarfsemi og vægar skerðingar sem lýst hefur verið í fyrri rannsóknum eru jafnvel taldar koma fram eftir styttri neyslu (9), en ekki að koma þurfi til langvarandi og mikil notkun einsog um var að ræða í nefndri rannsókn. Þessi skerðing og breytingar á heilastarfsemi eru það alvarlegar að þær geta hindrað menn í að ljúka háskólaprófum, hindrað eða komið í veg fyrir starfsstöðuhækkanir eða valdið samskiptaörðugleikum í einkalífi og starfi og truflað daglegt líf.

Tengsl kannabisnotkunar og geðveiki, einkum geðklofa, er löngu staðfest en það eru ekki til margar rannsóknir sem benda til þess að um orsakatengsl sé að ræða. Sýnt þykir að til þess að skýra sambandið þurfi framsýnar rannsóknir því að neysla kannabis er svo hegðunar- og félagslega bundin að erfitt er að henda sannar reiður á henni í aftursýnum rannsóknum og spurningar hafa vaknað um hugsanleg áhrif neyslu annarra vímuefna. Fyrsta rannsóknin sem þótti benda til skýrra orsakatengsla skoðaði meira en fimmtíu þúsund karla sem kvaddir höfðu verið til herþjónustu í Svíþjóð og sem fylgt var eftir í 15 ár (10). Rannsóknin sýndi að neysla kannabis á unglingsárum jók hættuna á geðklofa í skammtur/svörun-sambandi. Ný rannsókn með lengri fylgitíma á sama hópi staðfesti fyrri niðurstöður og tók af skarið um að neyslu annarra vímuefna var ekki um að kenna og ekki var heldur um að ræða að þeir sem síðar fengu geðklofa hafi þegar í upphafi haft einhver forstig sjúkdómsins (11). Í vönduðum framsýnum rannsóknum frá Hollandi og Nýja Sjálandi er tekið í sama streng (12, 13).

Vísbendingar um að neysla kannabis leiði síðar til þunglyndis hafa einnig komið fram í framsýnum rannsóknum sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum og Ástralíu (14, 15), svo dæmi séu nefnd, og kannabisneyslan tengist einnig sjálfsmorðshugleiðingum, almennri vansæld og kvíða.

Nokkur umræða hefur átt sér stað um að kannabis verði hugsanlega notað sem lyf, til dæmis verkjalyf. Slíkar hugmyndir fá ekki stuðning í nýlegri yfirlitsgrein þar sem reynt var með mati á mörgum hendings samanburðarrannsóknum að svara spurningunni um hvort kannabisefni geti verið áhrifarík og örugg verkjameðferð (16). Kannabisefnin voru ekki áhrifameiri en kódein gegn verkjum og þau höfðu slævandi áhrif á miðtaugakerfið sem takmarkaði notagildi þeirra. Í greininni var mælt gegn almennri notkun kannabisefna í lækningaskyni.

Það er mikilvægt að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk tileinki sér þessa nýju þekkingu um skaðsemi kannabisneyslu og komi henni áfram til sjúklinga, almennings og þó einkum til unglinga og ungs fólks.



Heimildir



1. Fergusson DM, Horwood LJ. Does cannabis use encourage other forms of illicit drug use? Addiction 2000; 95: 505-20.

2. Fergusson DM, Horwood LJ, Swain-Campbell N. Cannabis use and psychosocial adjustment in adolescence and young adulthood. Addiction 2002; 97: 1123-35.

3. Chen K, Kandel DB. The natural history of drug use from adolescence to mid-thirt in a general population sample. Am J Public Health 1995; 85: 41-7.

4. Hall W, Babor TF. Cannabis use and public health: assessing the burden. Addiction 2000; 95: 485-90.

5. Ashton CH. Pharmacology and effects of cannabis: a brief review. Br J Psychiatry 2001; 178: 101-6.

6. Lynskey M, Hall W. The effects of adolescent cannabis use on educational attainment: a review. Addiction 2000; 95: 1621-30.

7. Hall W, Degenhardt L. Cannabis use and psychosis: a review of clinical and epidemiolgical evidence. Aust N Z J Psychiatry 2000; 34: 26-34.

8. Zhang ZF, Morgenstern H, Spitz MR, Tashkin DP, Yu GP Marshall JR, et al. Marijuana use and increased risk of squamous cell carcinoma of the head and neck. Cancer Epidemiol Biomarkers Prev 1999; 8: 1071-8.

9. Solowji N, Stephens RS, Roffman RA, Babor T, Kadden R, Miller M, et al. Cognitive functioning of long-term heavy cannabis users seeking treatment. JAMA 2002; 287: 1123-31.

10. Andreasson S, Allebeck P, Engstrom A, Rydberg U. Cannabis and schizophrenia. A longitudinal study of Swedish conscripts. Lancet 1987; 2: 1483-6.

11. Zammit S, Allebeck P, Andreasson S, Lundberg I, Lewis G. Self reported cannabis use as a risk factor for schizophrenia in Swedish conscripts of 1969: historical cohort study. BMJ 2002; 325: 1199-201.

12. Van Os J, Bak M, Hanssen M, Biijl RV, de Graaf R, Verdoux H. Cannabis use and psychosis. A longitudinal population-based study. Am J Epidemiol 2002; 156: 319-27.

13. Arseneault L, Cannon M, Poulton R, Murray R, Caspi A, Moffit TE. Cannabis use in adolescence and risk for adult psychosis: longitudinal prospective study. BMJ 2002; 325: 1212-3.

14. Bovasso GB. Cannabis use as a risk factor for depressive symptoms. Am J Psychiatry 2001; 158: 2033-7.

15. Patton GC, Coffey C, Carlin JB, Degenhardt L, Lynskey M, Hall W. Cannabis use and mental health in young people: cohort study. BMJ 2002; 325: 1195-8.

16. Campbell FA, Tramér MR, Carroll D, Reynolds DJM, Moore RA, MvQuay HJ. Are cannobinoids an effective and safe treatment option in the management of pain? A qualitative systematic review. BMJ 2001; 323: 1-6.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica