Fræðigreinar
Nýr doktor í læknisfræði. Mælingar á flæði og flæðigetu kransæða með Doppler
Gylfi Óskarsson barnahjartalæknir varði doktorsritgerð sína við læknadeild háskólans í Lundi þann 31. janúar síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið "Doppler evaluation of coronary blood flow and coronary flow reserve - Clinical and experimental studies". Leiðbeinandi Gylfa var prófessor Erkki Pesonen og andmælandi við vörnina var prófessor Jaakko Hartiala frá Åbo í Finnlandi. Í dómnefnd sátu prófessorarnir Nils-Rune Lundström, Bertil Olsson og Kjell Lindström. Gylfi er fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsprófi á sviði barnahjartalækninga.
Ritgerðin fjallar um beitingu nýrra Doppler-aðferða við mælingar á blóðflæði í kransæðum. Við rannsóknirnar voru hátíðni Doppler-mælingar gegnum brjóstvegg og innanæðar-Doppler-mælingar notaðar við skoðanir á fóstrum, nýburum og börnum.
Hjartasjúkdómar hjá börnum valda oft þykknun hjartavöðvans, hækkuðum sleglaþrýstingi og lækkaðri súrefnismettun í blóði. Þessir þættir geta haft áhrif á flæði í kransæðum og flæðigetu þeirra. Truflanir á blóðflæði til hjartavöðvans við þessar aðstæður geti valdið blóðþurrð og jafnvel skyndidauða, en rannsóknir á börnum hafa verið fáar vegna skorts á aðferðum.
Niðurstöður rannsóknanna sýna að það er gerlegt að mæla flæði í vinstri kransæð með Doppler gegnum brjóstvegg hjá börnum, jafnvel nýburum, þar sem þvermál vinstri kransæðar er um 1 millimeter. Áreiðanleiki mælinganna reyndist góður. Meðal þeirra þátta sem reyndust hafa áhrif á flæði í vinstri kransæð hjá frískum nýburum voru útfall vinstra slegils og mýkt hans (diastolic compliance), en flæðið er einnig aldursháð og eykst með vaxandi þyngd vinstri slegils.
Nýburar með ósæðarlokuþrengsl eiga á hættu blóðþurrð í hjartavöðva þrátt fyrir að kransæðar séu eðlilegar. Í rannsókninni var í fyrsta sinn sýnt fram á truflanir í kransæðaflæði hjá þessum hóp. Í systolu reyndist vera bakflæði í vinstri kransæð og í diastolu var flæðið verulega aukið miðað við það sem er eðlilegt. Eftir skurðaðgerð á ósæðarlokunni hvarf bakflæðið í systolu, og flæðið í diastolu færðist nær því eðlilega.
Hjá börnum með hjartavöðvasjúkdóm (dilated cardiomyopathy) reyndist flæði í vinstri kransæð aukið í samanburði við frísk börn. Hins vegar var blóðflæði til vinstri slegils, miðað við þyngd hans, minnkað, sem gæti bent til að ónóg blóðflæði, sérstaklega við áreynslu, eigi þátt í að viðhalda skertri starfsemi vinstri slegils.
Börn með slagæðavíxlun (transposition of the great arteries) eru meðhöndluð á nýburaskeiði með aðgerð þar sem tengsl stóru æðanna og kransæðanna eru leiðrétt. Mælingar voru framkvæmdar með innanæðar-Doppler í hópi barna á aldrinum 4 til 11 ára sem höfðu gengist undir slíka aðgerð. Reyndist flæðigeta kransæða (coronary flow reserve) algerlega eðlileg, þ.e. bæði svörun við adenosini og nitroglycerini.
Síðasti hluti rannsóknanna byggðist á lambatilraunum. Flæðigeta kransæða í frískum nýfæddum lömbum var mæld með innanæðar-Doppler. Flæðigetan eftir adenosingjöf var nokkuð lægri en hjá eldri einstaklingum og er hægt að nota niðurstöðurnar til samanburðar við niðurstöður hjá nýburum með hjartasjúkdóma. Einnig voru áhrif fósturköfnunar (fetal asphyxia) á blóðflæði til hjarta og heila rannsökuð í rauntíma. Reyndist blóðflæðið til hjartans mun betur og lengur varðveitt en blóðflæðið til heilans.
Gylfi lauk prófi frá læknadeild Háskóla Íslands 1987. Eftir störf á barnadeildum í Reykjavík 1988-1990 stundaði hann framhaldsnám við barnadeild háskólasjúkrahúsins í Lundi og varð sérfræðingur í almennum barnalækningum 1993. Stundaði sérfræðinám í barnahjartalækningum á sama stað og lauk því í árslok 1995. Sérfræðingur við barnahjartaskor háskólasjúkrahússins í Lundi 1996-2000. Frá 2001 hefur hann gegnt hlutastarfi sérfræðings á Barnaspítala Hringsins ásamt störfum á eigin læknastofu í Reykjavík og hálfu starfi sem staðgengill yfirlæknis við barnahjartaskor háskólasjúkrahússins í Lundi. Gylfi er giftur Guðrúnu Sigmundsdóttur smitsjúkdómalækni og eiga þau þrjú börn.
Ritgerðin fjallar um beitingu nýrra Doppler-aðferða við mælingar á blóðflæði í kransæðum. Við rannsóknirnar voru hátíðni Doppler-mælingar gegnum brjóstvegg og innanæðar-Doppler-mælingar notaðar við skoðanir á fóstrum, nýburum og börnum.
Hjartasjúkdómar hjá börnum valda oft þykknun hjartavöðvans, hækkuðum sleglaþrýstingi og lækkaðri súrefnismettun í blóði. Þessir þættir geta haft áhrif á flæði í kransæðum og flæðigetu þeirra. Truflanir á blóðflæði til hjartavöðvans við þessar aðstæður geti valdið blóðþurrð og jafnvel skyndidauða, en rannsóknir á börnum hafa verið fáar vegna skorts á aðferðum.
Niðurstöður rannsóknanna sýna að það er gerlegt að mæla flæði í vinstri kransæð með Doppler gegnum brjóstvegg hjá börnum, jafnvel nýburum, þar sem þvermál vinstri kransæðar er um 1 millimeter. Áreiðanleiki mælinganna reyndist góður. Meðal þeirra þátta sem reyndust hafa áhrif á flæði í vinstri kransæð hjá frískum nýburum voru útfall vinstra slegils og mýkt hans (diastolic compliance), en flæðið er einnig aldursháð og eykst með vaxandi þyngd vinstri slegils.
Nýburar með ósæðarlokuþrengsl eiga á hættu blóðþurrð í hjartavöðva þrátt fyrir að kransæðar séu eðlilegar. Í rannsókninni var í fyrsta sinn sýnt fram á truflanir í kransæðaflæði hjá þessum hóp. Í systolu reyndist vera bakflæði í vinstri kransæð og í diastolu var flæðið verulega aukið miðað við það sem er eðlilegt. Eftir skurðaðgerð á ósæðarlokunni hvarf bakflæðið í systolu, og flæðið í diastolu færðist nær því eðlilega.
Hjá börnum með hjartavöðvasjúkdóm (dilated cardiomyopathy) reyndist flæði í vinstri kransæð aukið í samanburði við frísk börn. Hins vegar var blóðflæði til vinstri slegils, miðað við þyngd hans, minnkað, sem gæti bent til að ónóg blóðflæði, sérstaklega við áreynslu, eigi þátt í að viðhalda skertri starfsemi vinstri slegils.
Börn með slagæðavíxlun (transposition of the great arteries) eru meðhöndluð á nýburaskeiði með aðgerð þar sem tengsl stóru æðanna og kransæðanna eru leiðrétt. Mælingar voru framkvæmdar með innanæðar-Doppler í hópi barna á aldrinum 4 til 11 ára sem höfðu gengist undir slíka aðgerð. Reyndist flæðigeta kransæða (coronary flow reserve) algerlega eðlileg, þ.e. bæði svörun við adenosini og nitroglycerini.
Síðasti hluti rannsóknanna byggðist á lambatilraunum. Flæðigeta kransæða í frískum nýfæddum lömbum var mæld með innanæðar-Doppler. Flæðigetan eftir adenosingjöf var nokkuð lægri en hjá eldri einstaklingum og er hægt að nota niðurstöðurnar til samanburðar við niðurstöður hjá nýburum með hjartasjúkdóma. Einnig voru áhrif fósturköfnunar (fetal asphyxia) á blóðflæði til hjarta og heila rannsökuð í rauntíma. Reyndist blóðflæðið til hjartans mun betur og lengur varðveitt en blóðflæðið til heilans.
Gylfi lauk prófi frá læknadeild Háskóla Íslands 1987. Eftir störf á barnadeildum í Reykjavík 1988-1990 stundaði hann framhaldsnám við barnadeild háskólasjúkrahúsins í Lundi og varð sérfræðingur í almennum barnalækningum 1993. Stundaði sérfræðinám í barnahjartalækningum á sama stað og lauk því í árslok 1995. Sérfræðingur við barnahjartaskor háskólasjúkrahússins í Lundi 1996-2000. Frá 2001 hefur hann gegnt hlutastarfi sérfræðings á Barnaspítala Hringsins ásamt störfum á eigin læknastofu í Reykjavík og hálfu starfi sem staðgengill yfirlæknis við barnahjartaskor háskólasjúkrahússins í Lundi. Gylfi er giftur Guðrúnu Sigmundsdóttur smitsjúkdómalækni og eiga þau þrjú börn.