Umræða fréttir
Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Kandídatsárið, menntun eða mönnun?
Ástæða þessara skrifa er að undanfarin þrjú ár hefur undirritaður velt nokkuð fyrir sér tilgangi kandídatsárs á Íslandi. Upphaf þessa var að vorið 1999 gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra breytingu á 2. grein reglugerðar nr. 305/1997 sem fjallar um tilhögun kandídatsárs. Setti hann þar inn heilsugæsluskyldu í þrjá mánuði. Er greinin nú svohljóðandi:"Til þess að kandídat í læknisfræði geti fengið lækningaleyfi, skal hann að prófi loknu hafa lokið því viðbótarnámi sem hér greinir: Hann skal hafa unnið aðstoðarlæknisstörf í samtals 12 mánuði á viðurkenndum heilbrigðisstofnunum skv. fskj. 3 með rg. nr. 305/1997 og auglýsingu, þar af skal hann starfa a.m.k. 4 mánuði á lyfjadeild, 2 mánuði á handlækningadeild og 3 mánuði á heilsugæslustöð."
Var þessi breyting gerð án umsagnar frá Læknadeild Háskóla Íslands og var ekkert fé lagt til heilsugæslunnar vegna þessa þannig að hægt væri að standa vel að kennslunni. Virðist þessi framkvæmd ráðherra því hafa verið til þess ætluð að bæta mönnun heilsugæslunnar fremur en tilgangurinn hafi verið aukin menntun. Vegna þessa er nú svo komið að flestar stöður sem eru í boði fyrir kandídata á heilsugæslustöðvum eru sumarafleysingastöður. Eru þá jafnan færri sérfræðingar starfandi á heilsugæslunum heldur en á veturna og kennslugildið oftar en ekki lítið.
Þetta hefur síðan haft í för með sér að spítalarnir hafa lent í auknum vanda með mönnun unglækna, sérstaklega á sumrin. Allt frá því að þessi breyting var gerð hefur farið fram umræða um lengingu kandídatsárs. Þessi umræða hefur gengið svo langt að fulltrúar Landspítala settu fram tillögu í Framhaldsmenntunarráði Læknadeildar síðastliðið haust um lengingu kandídatsárs úr 12 mánuðum í 18 mánuði. Var þessi tillaga síðan afgreidd nú á vormánuðum og felld með sjö atkvæðum gegn tveimur. Einnig fréttist af fulltrúa frá Landspítala og fulltrúa frá heilsugæslunni á fundi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á vormánuðum þar sem þeir ræddu lengingu kandídatsárs við hann. Veldur þessi framgangur forsvarsmanna spítalans og heilsugæslunnar undirrituðum verulegum áhyggjum. Er það sökum þess að meðalaldur útskrifaðra lækna hér á landi er fremur hár og munu þessar breytingar síðan seinka því enn frekar að kandídatar fái lækningaleyfi. Í síðasta útskriftarárgangi var meðalaldurinn um 28 ár. Orsakast þetta bæði af því að hér á landi útskrifast nemendur úr framhaldsskólum um tvítugt og síðan þurfa þeir að þreyta samkeppnispróf í læknisfræði. Tefja þessi samkeppnispróf fyrir útskrift læknanema oftar en ekki um eitt til tvö ár. Ljóst er því að lenging á kandídatsári mun síðan seinka íslenskum læknum enn frekar í því að hefja framhaldsnám. Einnig tel ég að lenging kandídatsárs í 18 mánuði sé mjög óhentug að því leyti að nær allir útskrifast úr læknadeild hér á landi á sama tíma ársins, en ekki tvisvar á ári eins og víðast erlendis. Hefur það komið fram í tillögum um lengingu kandídatsárs að taka kandídata inn tvisvar á ári. Það gengur ekki upp hér á landi, nema þá með því að seinka sumum um hálft ár til viðbótar við lenginguna á kandídatsárinu.
Telur undirritaður að mönnunarmál sjúkrahúsanna hvað varðar yngri lækna verði að leysa á annan hátt. Í fyrsta lagi gengur ekki að breyta reglugerðum til þess. Slíkt verður að gera á sömu forsendum og önnur fyrirtæki í landinu búa við sem eru forsendur markaðarins, fara þarf eftir lögmálinu um framboð og eftirspurn. Til þess að tryggja betri mönnun í stöður yngri lækna á sjúkrahúsum og heilsugæslum verður að bæta ýmislegt til þess að gera það eftirsóknarvert að starfa hér. Bæta þarf kennslu og starfsaðstöðu þannig að deildarlæknar sjái sér frekar hag í því að taka fyrstu ár síns sérnáms hérlendis. Virðist staðan í dag því miður vera sú að yngri læknar eru farnir að flýta sér út í sérnám. Efla þarf traust og trúnað á milli yngri lækna og forsvarsmanna þessara stofnana. Yngri læknar eru sífellt á varðbergi gagnvart sínum vinnuveitendum hér, enda eru ýmis réttindamál í ólestri, til dæmis hvað varðar álag, vinnustundir, hvíldartíma og frí. Launin eru einnig ekki sambærileg við aðrar stéttir ef tekið er tillit til lengdar námsins og ábyrgðarinnar sem starfinu fylgir.
Er það von mín að forsvarsmenn Landspítala og fleiri stofnana sjái að sér og reyni að gera yngri lækna sáttari við að starfa hjá þeim í framtíðinni.