0708. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
„Við þurfum að halda í starfsfólkið okkar og viðhalda starfsánægju til framtíðar“
Bundið er í kjarasamninga að læknar eiga rétt á að fá að minnsta kosti þriggja vikna frí á orlofstíma. Umbun lækna af því að flytja frí eða taka frí utan orlofstíma er ekki lengur til staðar og ekki má flytja leyfi á milli ára, það er að segja fram yfir áramót á orlofsári. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, skrifaði grein í júnírit Spítalapúlsins þar sem hann fjallar um hversu flókið getur verið að tryggja örugga og góða þjónustu og hvetur starfsfólk til að taka styttra frí og oftar. Læknablaðið spurði Runólf út í greinina.
Hversu löngu samfelldu fríi gerir hann ráð fyrir að starfsfólk Landspítala taki? „Í kjarasamningum heilbrigðisstétta er fjallað um réttinn til orlofs, en í samningum flestra stétta er kveðið á um að starfsmaður eigi rétt á 15 daga samfelldu orlofi, verði því komið við vegna starfa stofnunarinnar. Það er ljóst að í viðkvæmri starfsemi eins og á Landspítala, þar sem mönnun afleysinga er jafnan stór áskorun, getur reynst erfitt að verða við öllum beiðnum um svo langt orlof og því væri ákjósanlegt ef starfsmenn tækju orlof oftar en í styttri tíma í senn. Áhersla er lögð á að verða við beiðnum starfsmanna og hefur það krafist umfangsmikils skipulags sem hefur gengið þokkalega að koma í kring þetta sumarið.“
Í kjölfar aukins sveigjanleika með frídaga til að viðhalda sem ákjósanlegastri og mikilvægri þjónustu Landspítala hafa læknar, þegar á hólminn er komið, ekki getað nýtt frídaga sína áður en tímabili lauk. Runólfur segir að ætíð sé unnið að bættu skipulagi þegar komi að starfsemi Landspítala og þung áhersla lögð á að starfsfólk geti tekið orlof. „Það er bæði þeirra réttur en einnig mjög mikilvægt til að fólk viðhaldi fullnægjandi starfsorku og heilbrigðu jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þó verður að segjast að ákveðnar einingar stofnunarinnar, ekki síst fámennar sérgreinar, standa frammi fyrir miklum áskorunum og oft ómögulegt að manna starfsemina ef þorri starfsmanna er í orlofi á sama tíma.“
Á sjúkrahúsum í Svíþjóð er regla að starfsfólk taki að minnsta kosti þriggja vikna frí: eina viku til að ná sér niður, eina til að kúpla sig frá og eina fyrir undirbúning. Runólfur segir slíkt fyrirkomulag vera mjög mismunandi milli stofnana og landa eins og svo margt annað. „Á sumum sjúkrahúsum eru settar skorður við lengd orlofs yfir hásumarið. Við höfum reynt að koma til móts við þarfir þeirra sem leggja áherslu á að fá lengra frí. Svo eru aðrir sem kjósa að dreifa fríinu sínu yfir árið, sem getur reynst starfseminni dýrmætt.“
Stórar áskoranir varðandi mönnun í framtíðinni
Landspítali hefur lögbundnar skyldur varðandi það að vera bráða- og háskólasjúkrahús en einnig álag og hvíldartíma starfsfólks. Runólfur segir engan vafa leika á því að starfsfólkið sé upp til hópa vakið og sofið yfir sínum starfsskyldum. „Við erum afar heppin með starfsfólk, bæði hvað snertir faglega færni en einnig hvað viðmót og þrautseigju varðar. Ástandið innan spítalans hefur verið þungt og oft óboðlegt síðustu ár og verður það eitthvað áfram.“ Fyrst og fremst sé það vegna skorts á legurýmum og ófullnægjandi aðstöðu ásamt manneklu. „Okkur hefur tekist að efla mönnun umtalsvert síðustu misseri og er það gleðilegt. Það er hins vegar ekki nóg, við þurfum að halda í starfsfólkið okkar og viðhalda starfsánægju til framtíðar svo að starfsemin þrífist. Þetta er ærið verkefni sem við stjórnendur spítalans tökum mjög alvarlega.“
Hann sjái fram á stórar áskoranir varðandi mönnun í framtíðinni því fyrirsjáanlegt sé að sérhæfðu starfsfólki muni ekki fjölga nægilega í takt við aukin verkefni. „Við þurfum nýjar leiðir til að ráða við ört vaxandi verkefni, bæði fjölbreyttari nýtingu fagfólks og tæknilausnir. Fullnægjandi öryggi í þjónustu Landspítala yfir sumartímann er forgangsmál og ekki auðvelt viðfangsefni. Meira er um ferðalög á sumrin og þeim fylgir aukin slysatíðni.“ Áhersla hafi verið lögð á samræmda nálgun þvert á einingar spítalans við skipulag orlofs. Fáum legurýmum verði lokað í sumar vegna bættrar mönnunar. „Við erum því betur undirbúin fyrir sumarstarfsemina en stundum áður, en verðum þó ætíð að hafa hugfast að verkefni okkar eina háskólasjúkrahúss og bráðasjúkrahúss höfuðborgarsvæðisins geta verið óútreiknanleg.“
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala