0708. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

„Vandamálið mitt er að ég hef áhuga á öllu“

Martin Ingi Sigurðsson er prófessor og yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum og leiðtogi á sviði rannsókna, kennslu og nýsköpunar í íslenskum heilbrigðismálum. Martin fékk á dögunum viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar og Læknablaðið hitti hann til að skyggnast inn í hans fjölbreytta starf, hvernig lífið í vísindum
og læknisfræði sameinast og hvernig hann sér framtíðina þróast

Eftir að hafa dúxað á stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2002 tók Martin eitt ár í verkfræði við HÍ áður hann skipti yfir í læknisfræði og lauk kandídatsprófi 2009. Á menntaskólaárum keppti hann á Ólympíuleikunum í eðlisfræði og stefndi á stærðfræði fyrst. „Eftir að hafa unnið eitt sumar á verkfræðistofu ákvað ég að prófa byggingaverkfræði. Foreldrar mínir voru ánægð í starfi sem verkfræðingar og góðar fyrirmyndir mínar. Ég sótti bara í eitthvað þar sem ég myndi tengjast fólki meira. Læknisfræðin reyndist vera sá vettvangur.“

Nám í Boston og Norður-Karólínu

Martin segir að flestir hafi einhverjar hugmyndir um hvers konar læknar þeir ætla að verða í upphafi læknanáms. „Ég held að vandamálið mitt sé að ég hef áhuga á öllu. Mér fundust allar sérgreinar læknisfræðinnar áhugaverðar og mjög fáar sem ég gat í raun útilokað. Þannig að ég hugsaði með mér við hvað ég myndi vilja starfa og mér fannst gjörgæslan koma til greina. Þar eru líka dálítið saman komin áhugaverðustu vandamál allra sérgreina.“ Hann langaði að vinna á sjúkrahúsi og segist hafa haft gaman af tölum og tölfræði og í svæfinga- og gjörgæslulækningum sé verið að mæla alls kyns hluti, bregðast við mælingum og mæla á nýjan leik.

„Ég vonaði að mér fyndust svæfingalækningar skemmtilegar líka. Sem betur fer voru þær einnig mjög áhugaverðar og ég sannfærðist eftir 11 mánaða starf á svæfinga- og gjörgæsludeildinni á Landspítala sem deildarlæknir eins og það hét þá.“ Þannig að úr varð að Martin lærði svæfingalækningar í Boston og að loknu námi þar fór hann til Norður-Karolínu og lærði svæfingar fyrir hjarta-og lungnaskurðaðgerðir og gjörgæslulækningar og fór að sinna svæfingum fyrir hjartaskurðaðgerðir. „Maður kemur inn með ákveðna sérþekkingu í aðgerðina, það er hjartaómskoðun og þar á sér stað samvinna allra fagstétta á skurðstofunni við að koma sjúklingi á og af hjarta- og lungnavél. Svo þegar heim var komið sinnti maður auðvitað öllum tegundum svæfinga- og breiðum hópi gjörgæslusjúklinga“

Þegar Martin var að gera þriðja árs rannsóknarverkefnið í læknanáminu var leiðbeinandi hans sjálfur í doktorsnámi í Baltimore og Martin var hjá honum í hálft ár í því verkefni og sumarverkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna. „Mér fannst Ameríka vera heillandi og háskólaumhverfið spennandi þar. Alltaf eitthvað að gerast og mér fannst einnig kostur að námið er formfast. Það hentar mér ágætlega. Maður veit hvenær maður byrjar og hvenær maður er búinn og um það bil líka það sem maður gerir þar á milli.“

Hjónin ánægð með að hafa flutt heim

Martin og eiginkona hans, Anna Björnsdóttir taugalæknir, kynntumst á fyrsta ári í læknisfræði og fóru saman í sérnám til Bandaríkjanna. „Við vorum heppin að geta nýtt okkur paramatch-kerfið þar sem hjón eða pör sækja saman um nám og reynt er að láta þau lenda nálægt hvort öðru. Þótt við værum ekki á sama spítala í Boston gátum við búið saman.“ Sérhæfing Önnu eru hreyfitruflanir á borð við Parkinson og hún starfar sjálfstætt á Heilsuklasanum.

„Við eigum 15 ára brúðkaupsafmæli í ár og 21 árs sambandsafmæli. Börnin okkar eru tvö, 8 ára og að verða 6 ára. Við ákváðum að lokum að snúa heim til Íslands þegar sérnámi lauk. Okkur langaði að börnin myndu alast upp á Íslandi innan um ættingja,“ segir Martin og bætir við að ömmur og afar barnanna séu og hafi verið þeim ómetanleg stoð. „Í Bandaríkjunum hefði okkur liðið vel líka en þar hefðum við þurft starfsmenn til að aðstoða okkur við heimilishaldið.“ Martin segir að þau hjónin séu mjög ánægð með að hafa flutt heim. „Það er annað að alast upp í góðu tengslaneti og við búum í Fossvoginum með allt í seilingarfjarlægð.“

Svæfingalækningar og gjörgæsla – svarti kassinn sem heillaði

Martin segist afar þakklátur fyrir viðurkenninguna úr verðlaunasjóðnum og sér í lagi vegna þess að starf hans spannar svo breitt svið. „Við svæfingalæknar eigum ekki eitthvað eitt svið, líffæri eða sjúkdóm. Við erum því í mjög breiðu samstarfi með mörgum sérgreinum sjúkrahússins og öllum fagstéttum. Mitt markmið er að reyna að vinna sömuleiðis í breiðu samstarfi í rannsóknum.“

Hann nefnir að í fyrra hafi doktors-nemi hans, Freyja Jónsdóttir, útskrifast, sem er klínískur lyfjafræðingur og frumkvöðull í að koma þeirri undirsérgrein lyfjafræði almennilega á koppinn á Íslandi, bæði með sérfræðinámi í klínískri lyfjafræði og með því aða auka við þjónustu klínískra lyfjafræðinga á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. „Með Freyju hef ég unnið að lyfjafaraldsfræði, að skoða lyfjanotkun sjúklinga í aðdraganda og kjölfar innlagnar á sjúkrahús, annað hvort fyrir skurðaðgerðir eða í tengslum við bráðar innlagnir sjúklinga sem leggjast inn á vegum sérgreina lyflækninga".

Frá sjálfstæðum rannsakanda til prófessors

Martin segist alltaf hafa notið þess að aðstoða fólk og styðja við rannsóknarhópa við tölfræðiúrvinnslu. „Eftir því sem árin liðu hóf ég að spreyta mig sem sjálfstæður rannsakandi, setja upp mín eigin gagnasöfn og handleiða aðra. Fyrst var ég meðleiðbeinandi í doktorsverkefni hjá Þóri Long sem var doktorsnemi hjá Gísla H. Sigurðssyni, forvera mínum í starfinu.“ Hægt og rólega hafi þetta svo þróast og eftir að Martin var kom heim til Íslands tók hann við núverandi starfi prófessors í gjörgæslulækningum.

„Svo hef ég búið til minn eigin rannsóknarhóp sem ég hef unnið með hér heima, fólk sem er að gera ýmis verkefni. Þá er mitt hlutverk að sjá um allt sem inniheldur fjármögnun, taka meiri þátt í leyfaumsóknum og svo auðvitað að styðja við fólk sem er að taka sín fyrstu skref við að halda áfram á vísindaferlinum; skrifa vísindagreinar og slíkt,“ segir Martin og hefur líka, eftir að hann kom heim, verið með BS-nema. Svipað og þegar hann var sjálfur hjá Hans Tómasi Björnssyni í Baltimore.

Þverfaglegt námskeið, vendinám og HermÍs

Martin finnst gott að geta skilað þekkingu og reynslu áfram til verðandi lækna. Þá sé um að ræða nemendur sem séu komnir hálfa leið í læknanámi og eru að byrja að spreyta sig á aðferðarfræði og vísindavinnu. „Það er verulega gott námskeið í læknadeildinni þar sem nemendur vinna að handleiddu rannsóknarverk-efni og ég held að fólk hafi gott af því að kynnast rannsóknarvinnu snemma, hvort sem það ætlar að leggja hana fyrir sig eða ekki. Það veitir fólki innsýn í það hvernig er að stunda rannsóknir með því að gera 11 vikna rannsóknarverkefni.“

Hann tekur fram að hann hafi alltaf haft mikinn áhuga á kennslu. „Síðan ég varð prófessor höfum við breytt kennslunni. Fyrir COVID voru þetta fyrirlestrar og munnleg próf, sem við þurftum svo að breyta í heimsfaraldrinum. En svo fórum við að nota vendikennslu. Nemar horfa á fyrirlestra fyrir fram og við hittumst svo sem hópur og ræðum klínísk tilfelli. Þetta virkar vel og nemar kunna að meta það.“ Hermisetrið HermÍs hafi einnig reynst dýrmætt. „Við höfum haldið þverfagleg námskeið þar sem nemendur í læknanámi, sérnámslæknar og blönduð teymi fagstétta á skurðstofu æfa handbrögð, mat og meðferð sjúklinga. Þetta er mjög öflug kennsluaðferð þó hún sé mannaflafrek.“

Team Heart og hjartaskurðaðgerðir í Rúanda

Í fimmtán ár hafa Martin og félagar hans, sjálfboðaliðarnir í hópnum Team Heart, aðstoðað við að byggja upp sjálfbæra hjartaskurðþjónustu í Rúanda. „Heimamenn sinna nú hjartaskurðaðgerðum og núna er þar starfandi skurðteymi og 3-4 aðilar frá hjálparsamtökum sem styðja við starfsemina. En við fylgjumst áfram með og fyrir mér er þetta verkefni sem byggir á sömu hlutum og við gerum hér, að kenna heilbrigðisstéttum og verðandi heilbrigðisstéttum og sinna sjúklingum. Við höfum tekið þátt í yfir 250 aðgerðum og nú er þetta orðið vel skipulagt og stöðugt verkefni. Núna eru forsprakkar Team Heart að leita að leita hófanna í öðrum löndum sem gætu haft áhuga á þessu módeli.“ Rúanda sé ekki stórt land að flatarmáli þó það sé fjölmennt og umrædd hjartaskurðstofa sé í höfuðborginni og hjartaaðgerðirnar fari bara fram þar.

Þar sem allir hitta alla – krafturinn í litlu samfélagi

Martin leiðir hugann að íslensku vísindasamfélagi og hversu magnað það sé, opið og tengt. „Hér þekkja flestir flesta og það er auðvelt að mynda nýjar rannsóknareiningar og samstarf. Ég reyni að halda opnum dyrum og styðja fólk sem vill hefja feril sinn.“ Sama með klíníska vinnu og rannsóknir, þá finnist honum gefandi að vera klínískur læknir og segir það auðvitað standa sér fyrir þrifum sem rannsakanda að geta ekki varið meiri tíma til rannsókna. „Auðvitað er það samt lúxus að vera ekki háður hverfulli fjármögnun í rannsóknum varðandi lífsviðurværi. Það er ekki auðvelt að vera læknir en það er frábært starf, fjölbreytt og skemmtilegt, og ég sé sannarlega ekki eftir því að hafa valið það.“

Aðspurður að lokum segist Martin ekki hugsa framtíðina sem beina braut heldur í fösum eða lotum. „Þegar ríkisstarfsmenn hafa verið fastráðnir verða þeir æviráðnir. Árið 2019 var ég því æviráðinn til 2052. En í raun hugsa ég í fimm ára lotum. Núna langar mig til dæmis að útskrifa nokkra doktorsnema. Eftir það kannski færist áherslan í ný-sköpun eða eitthvað annað spennandi.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica