0708. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Fær sínar bestu vísindahugmyndir á fjöllum
Gunnar Guðmundsson hefur gengið á 100 hæstu tinda landsins
Segja má að Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur í lungnalækningum við lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala og prófessor við Háskóla Íslands, sé sannkallaður fjallagarpur en hann lauk þeim merka áfanga í apríl síðastliðnum að ganga á 100 hæstu tinda Íslands. Kristborg Bóel settist niður með Gunnari í Læknavarpinu á dögunum og spurði hann út í fjallaævintýrið og ýmislegt fleira. Hér má lesa brot úr viðtalinu.
Það var Ferðafélag Íslands sem hleypti verkefninu „Hundrað hæstu“ af stokkunum árið 2017. Á heimasíðu félagsins segir að áskorunin sé spennandi fyrir fjallafólk og felist í því að ganga á alla 100 hæstu tinda Íslands og að tindasöfnunin fáist staðfest, skráð og viðurkennd.
Gunnar rekur upphafið enn lengra aftur. „Þetta hófst árið 2007 þegar vinur minn, Þorvaldur Þórsson, alltaf kallaður Olli, varð fimmtugur. Hann langaði að gera eitthvað sérstakt við það tilefni og ákvað því að ganga á 100 hæstu tinda landsins. Á þeim tíma var ekki vitað hverjir þeir væru svo hann gekk á 160 tinda á einu ári og fann þannig út hverjir væru þeir 100 hæstu. Hann skráði þá niður og fékk nokkra vini sína til þess að fara með sér aftur seinna þannig að fleiri bættust við í hóp þeirra sem gengið hafa á 100 hæstu tinda Íslands. Ferðafélag Íslands ákvað svo að gera þetta að verkefni hjá sér árið 2017. Það ár varð félagið 90 ára og setti sér að taka 10 ár í þetta og á verkefninu því að vera lokið árið 2027“
Gunnar, sem sjálfur hafði verið mikill göngumaður í áratugi, kynnti sér málið og áttaði sig á því að hann hafði þegar lokið við að ganga á nokkuð marga þeirra 100 hæstu. „Sama ár bauð Ferðafélagið upp á nokkrar ferðir og fyrir sumum þeirra stóðu heiðurshjónin Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Með þeim fór ég í Glerárdal, á Kjöl, Langjökul og víðar þannig að tindarnir fóru að safnast saman.“
Tindaborg öðrum tindum erfiðari
Gunnar segir að árið 2020 hafi verið komið að þeim tímamótum í 100 tinda verkefninu að hann átti alla þá erfiðustu eftir, en þeir liggja hátt og eru á öllum helstu jöklum landsins; Snæfellsjökli, Langjökli, Eiríksjökli, Hofsjökli, Tungnafellsjökli, Vatnajökli, Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli.
„Þegar þarna var komið sögu varð ég að læra að ferðast á jöklum og til þess að kenna mér fékk ég tvo úrvals leiðsögumenn sem heita Leifur Örn Svavarsson og Einar Torfi Finnsson. Þeir kenndu mér að ganga á skíðum á jöklum, draga farangurssleða, tjalda á jökli, hita prímus á réttan hátt í því umhverfi og fleira til. Eftir það gat ég haldið áfram að ferðast.“
Gunnar segir að á þessum tíma hafi menn verið farnir að átta sig á því að verkefnið væri ekki raunhæft fyrir Ferðafélagið. „Það er snúið að fara með stóran hóp á þessa erfiðustu tinda, það verður að gerast í litlum hópum. Ég fann alltaf einhverja vini mína til þess að fara með mér á þá og við fengum góða leiðsögumenn með okkur. Langflestir þeirra tinda sem ég átti eftir eru á Vatnajökli þar sem oft eru vond veður og gátu þetta því orðið talsvert þung ferðalög. Stundum fórum við aðeins á einn tind í ferð en það kom fyrir að við náðum fleirum. Þá var einnig farin hópferð á vegum Ferðafélagsins með þeim Brynhildi og Róberti á svokallað Goðahnjúkasvæði, en í þeirri ferð náðum við að komast á 11 tinda og segja má að það hafi verið mikið afrek af þeim hjónum að koma þessum stóra hópi alla þá leið.“
Gunnar segir að einn tindur hafi reynst öðrum erfiðari. „Hann heitir Tindaborg og er í Öræfajökli, rétt fyrir neðan Hvannadalshnjúk. Hann er talinn erfiðasta fjall á Íslandi að klifra, það er í rauninni ekki ganga heldur snjóklifur upp mjög bratta brekku. Það var ekki fyrr en í þriðju tilraun sem okkur tókst að komast upp, fyrstu tvö skiptin komumst við ekki einu sinni að fjallinu áður en við þurftum að snúa við.“
Það var svo í apríl síðastliðnum sem Gunnar náði takmarki sínu. „Þá gekk ég á Snæbreið og Tindaborg og þar með voru allir tindarnir 100 komnir. Ég hóf verkefnið í raun árið 2011 og tók því alveg 14 ár í þetta. Ég fór á mismarga tinda á ári, stundum bara einn og stundum marga. Þetta hefur gert það að verkum að ég hef ferðast víða um landið með skemmtilegu fólki, ekki síst um hálendið.“
Gekk á sjö tinda með konunni sinni
Eins og fram hefur komið voru ferðirnar á toppana miserfiðar. „Það var ekki alltaf sem þurfti leiðsögumann, mér telst til að ég hafi farið á 33 tinda með vinum og kunningjum en þá voru eftir 67 sem þörfnuðust leiðsögumanns. Fyrrnefndur Olli, Þorvaldur Þórsson, fór með mér á 29 tinda og það gerði Leifur Örn líka. Brynhildur og Róbert fóru með mér á 27 tinda og Einar Torfi fór með mér á þrjá, auk annarra leiðsögumanna sem fóru á færri. Tvær ferðir í viðbót fór ég svo með Ferðafélaginu.“
Gunnari tókst einnig að virkja fólk í fjölskyldunni með sér í verkefnið. -„Tveir tengdasynir mínir komu með mér á nokkra tinda og Rakel, konan mín, fór með mér á sjö. Svo áttum við Elísabet Sólbergsdóttir, lyfjafræðingur, oft samleið en hún var áttunda manneskjan til þess að klára 100 tinda og einnig fyrsta konan til þess. Við fórum saman á 35 tinda. Þá hefur vinur minn Halldór Magnússon, verkfræðingur, gengið með mér á 29 tinda og svo margir aðrir. Sumar hafa verið hópferðir með allt upp í 30 þátttakendum.“
Með ísöxi í hvorri hönd
Það er vitanlega ekki einfalt að gera upp á milli allra þessara ævintýraferða, en Gunnar nefnir tvær helstar þegar hann var inntur eftir því hver væri sú eftirminnilegasta.
„Eins og ég sagði áður er Tindaborg erfiðasti tindur landsins og því afar eftirminnilegur, en það eru líklega undir 100 einstaklingar sem hafa komið þar upp. Leiðin að honum er ótrúlega falleg, snjóklifur, þar sem þú þarft að vera búinn öflugum gönguskóm og mannbroddum neðan undir þeim og svo með ísöxli í hvorri hönd. Leiðsögumaður í þeirri ferð var Leifur Örn, en hann fór á undan og útbjó tryggingar. Maður er svo í línu sem hann tryggir og ef einhver dettur þá eru það ekki nema 2-3 metrar áður en viðkomandi stöðvast. Þessi ferð var því gríðarlega mikið ævintýri en jafnframt töluvert ógnvekjandi, þetta er svo mikill bratti. Veðrið þennan dag var mjög gott, sem er ekki sjálfgefið á þessu svæði sem almennt er illviðrasamt.“
Þá segir Gunnar að ferðin á Hofsjökull hafi verið þægilegri en hann hafi búist við. „Það er afskaplega sjaldan gengið á Hofsjökul og hefur hann orð á sér fyr-ir að vera bæði erfiður og sprunginn. Þar eru tveir tindar sem við fórum á og það kom okkur á óvart hversu lítið var um sprungur og ferðalagið sóttist vel. Það er stundum sagt að á Íslandi leiti maður alla ævina að fjalli þar sem sést til sjávar bæði sunnan og norðanmegin við landið. Það er sennilega ekki til, en þarna var annars vegar gengið á Hásteina syðri og þaðan sá maður til sjávar í suðri. Svo var haldið áfram í klukkustund og þá komið á Hábunguna þar sem sést til sjávar í norðri. Um þetta hafði ég ekki hugmynd áður en ég fór.“
Best að fagna þegar maður er kominn niður af tindinum aftur
Það er ekki hægt að fara í gegnum viðtal sem þetta án þess að spyrja hreinlega hvað fari gegnum hugann þegar toppnum er háð? Hvernig er líðanin þegar upp er komið? „Hún er ótrúlega góð en þó alltaf best þegar maður er kominn niður af tindinum aftur. Oft er verið að ganga á svo háa tinda og margar hættur sem leynast og því best að fagna þegar maður er kominn óhultur niður aftur. Ætli þetta sé ekki bara eins og í hverri íþrótt, ef þú vinnur einhverja keppni. En þarna er náttúran bara að leyfa þér að komast upp, þú ert ekki að sigra neitt, heldur ertu bara að fá leyfi hjá náttúrunni að komast upp á ákveðinn tind. En, þessu fylgir vissulega mikil gleði.“
Bestu hugmyndirnar koma á göngu
Gunnar segir fjallamennskuna góða leið til þess að hreinsa hugann og hlaða batteríin. „Þegar verið er að fara langa leið á á jökli þar sem gengið er í línu og ekki gefst færi á að tala við ferðafélagann er gott að láta hugann reika. Ekkert símasamband og ekkert sem truflar. Það er við slíkar aðstæður sem ég hef fengið mínar bestu hugmyndir í vísindavinnu. Það getur verið mikil streita að vinna inni á sjúkrahúsi, en þar er alltaf mikill mannskapur og einhver til þess að hjálpa ef þarf. Í svona ferðum eru fáir og maður þarf að treysta vel á sjálfan sig og félagana.“
Stefnir á að þvera landið
Aðspurður hvort hann sé með áfanganum búinn að kára allar þær gönguleiðir sem hann ætlaði sér að fara, segir Gunnar svo ekki vera. „Nei alls ekki, það er alltaf hægt að finna eitthvað nýtt. Fyrir mörgum árum var gefin út bók með leiðarlýsingum yfir 151 tind á Ísland. Sumir þeirra eru í hópi þeirra 100 hæstu en aðrir ekki. Tindarnir eru um allt land og ég er búinn að ganga á yfir 70 þeirra þannig að ætli ég reyni ekki að klára þá smátt og smátt,“ segir Gunnar sem einnig langar að fara þvert yfir landið gangandi. „Þá er ekki verið að ganga á fjöll, heldur reynt að finna góða leið. Það er hægt að gera á margan hátt, sumir hafa byrjað á Austurlandi, til dæmis á Dalatanga og endað á Snæfellsnesi. Þá er einnig hægt að fara frá Reykjanestá og yfir á Langanes. Það er um að gera að halda áfram að ganga og hafa gaman, ég er ekki alveg tilbúinn að fara í golfið strax, það verður kannski einhvern-tímann seinna,“ segir Gunnar að lokum.
Lengri útgáfu viðtalsins er að finna í Læknavarpinu og hvetjum við alla til þess að hlusta á það, en í seinni hluta þess fer Gunnar yfir ferilinn sinn sem lungnalæknir og vísindamaður. Í lokin kemur hann svo inn á það sem stendur hjarta hans næst, barnabörnin sex og tengsl sín við fjölskylduna.