0708. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Doktorsvörn við Háskóla Íslands. Hrönn Harðardóttir

Föstudaginn 6. júní 2025 varði Hrönn Harðardóttir doktorsritgerð sína við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Þáttur streituviðbragða við greiningu lungnakrabbameins í þróun sjúkdómsins. (The role of the psychobiological stress response to a lung cancer diagnosis in tumor biology and survival).

Andmælendur voru dr. Maria Planck, dósent við Háskólann í Lundi í Svíþjóð og dr. Judith Prins, prófessor við Radboud-háskóla í Hollandi.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Thor Aspelund, prófessor, Heiðdís Valdimarsdóttir, prófessor, Susan K. Lutgendorf, prófessor, Magnús Karl Magnússon, prófessor, og Tómas Guðbjartsson, prófessor.

Um verkefnið

Að undirgangast rannsóknarferli og greiningu krabbameins, sér í lagi lungnakrabbameins, veldur mikilli streitu sem getur verið viðvarandi. Sálræn streita virkjar drifkerfi sjálfvirka taugakerfisins sem getur haft áhrif á framgang krabbameinsins. Lítið er vitað um sál-líffræðileg streituviðbrögð við greiningu lungnakrabbameins.

Rannsóknir þessarar ritgerðar eru byggðar á LUCASS rannsókninni (LUng Cancer, Stress and Survival), sem er framskyggn ferilrannsókn sem fór fram á Landspítalanum og Uppsala-sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Mælingar voru gerðar á sálrænum streituviðbrögðum og lífmerkjum streitu fyrir og eftir greiningu lungnakrabbameins en áður en meðferð var hafin. Jafnframt var upplýsingum safnað úr krabbameinsæxlum skurðtækra sjúklinga og lifun þeirra sem greindust með lungnakrabbamein.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að rannsóknarferli og greining lungnakrabbameins veldur mikilli aukningu á sálrænum streitueinkennum, þar með talið þunglyndi og kvíða. Jafnframt kom fram að sjúklingar upplifa mikla áfallastreitu eftir greininguna. Magn streituhormóna var hækkað í þvagi áður en greining lungnakrabbameins var staðfest, án skýrrar tengingar við sálræna streitu. Engu að síður tengdust sálræn einkenni sjúklinga fyrir greiningu lungnakrabbameins við þéttni beta2-adrenergra-viðtaka á krabbameinsfrumunum sem í öðrum rannsóknum hafa verið tengdir verri sjúkdómsgangi. Að lokum benda niðurstöðurnar á að tengsl séu milli sálrænna einkenna og streituhormóna, mældra við greiningu lungnakrabbameins, við lifun sjúklinga. Þessar niðurstöður undirstrika flókin sál-líffræðileg streituviðbrögð við greiningu lungnakrabbameins og þörf á frekari rannsóknum á því sviði.

Hvað segir nýdoktorinn
Afhverju vildir þú verða læknir?

Það er svo langt síðan, varla að ég muni það. Ég man þó að stefnan var sett á sjúkraþjálfun en á kynningu á háskólanámi í HÍ var kynningin mun skemmtilegri fyrir læknisfræðina, sem varð því fyrir valinu. Ég hefði ekki getað valið betur því mér hefur alltaf fundist skemmtilegt í vinnunni, sérstaklega vegna þess að maður fær tækifæri til að leysa erfið verkefni og hitta mikið af áhugaverðu og skemmtilegu fólki, bæði sjúklinga og samstarfsmenn.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Það fer eftir doktorsnemanum og verkefninu sem hann fæst við. Ég hef verið svo heppin að verkefnið mitt tengdist minni klínísku vinnu og áhugamálum í vinnunni. Einnig hef ég verið svo lánsöm að hafa leiðbeinendur sem studdu mig óþrjótandi, hvöttu mig og hjálpuðu ávallt áfram þegar mér fannst ég vera komin í strand. Ég vann að verkefninu samhliða hlutastarfi á Landspítalanum og oft á tíðum var gott að komast frá spítalanum í vinnu yfir tölvunni án endurtekinna truflana og öfugt. Aftur á móti hefur mér ekki fundist þetta létt verk.

Hvert yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Það er ekki öfundsvert eða auðvelt. Mannfjölgun á Íslandi ásamt bættri meðferð með góðum árangri í erfiðum krónískum sjúkdómum hefur leitt til stigvaxandi verkefna innan heilbrigðiskerfisins. Fjöldi heilbrigðisstarfsfólks hefur ekki fylgt vaxandi verkefnum. Þannig að ef ég yrði heilbrigðis-ráðherra með fjársjóð og töfrasprota þá myndi ég búa til stóran tæknivæddan spítala og fjölga starfsfólki. Ég myndi styðja við grunnþjónustu heilsugæslunnar til að hafa burði til að takast á við sífjölgandi verkefni og auka fjárframlög til forvarnarstarfa.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Ég er nú svo lánsöm að vera hraust og eiga stóra og samheldna fjölskyldu. Það hafa verið algjör forréttindi að fá að fylgja börnum mínum eftir í íþróttum og námi. Barnabörnunum fer fjölgandi og stefni ég á að fara með þeim á skíði eins oft og mögulegt er. Til að mynda fór ég með elsta barnabarni mínu á fyrstu Andrésar Andarleikana sína í vor. Svo er lífið bara svo skemmtilegt, það er gaman að ganga, hlaupa, hjóla og skíða í íslenskri og erlendri náttúrufegurð. Einnig þarf ég að gefa mér tíma til að læra golf á allra næstu misserum til að fylgja vinum mínum eftir næstu árin.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica