0708. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Doktorsvörn við Háskóla Íslands Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Hrafnhildur Gunnarsdóttir varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands 16. júní síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið: Lýðgrunduð rannsókn á frumkomnu aldósterónheilkenni á Íslandi: Frá greiningu til mótefnalitunar og erfðarannsókna (A Nationwide Study on Primary Aldosteronism in Iceland: From Detection to Immunohistochemistry and Genetic Testing).
Andmælendur voru dr. Martin Reincke, prófessor og yfirlæknir við Ludwig-Maximilians háskólasjúkrahúsið í Munchen, og dr. Marianne Aardal Grytaas, yfirlæknir við Haukeland háskólasjúkrahúsið í Bergen.
Leiðbeinandi var dr. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor, og umsjónarkennari var dr. Ragnar Grímur Bjarnason, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Bjarni A. Agnarsson, prófessor emeritus, og Guðjón Birgisson, skurðlæknir.
Um verkefnið
Frumkomið aldósterónheilkenni (FA) er algengasta orsök afleidds háþrýstings og hefur mun alvarlegri afleiðingar en frumkominn háþrýstingur. Snemmgreining og sértæk meðferð eru lykill-inn að góðum meðferðarárangri. Árið 2007 var innleiddur gagnreyndur uppvinnsluferill fyrir FA sjúklinga á Landspítala. Markmið rannsóknarinnar var að meta nýgengi FA á Íslandi á árunum 2007-2016, bera saman niðurstöður úr uppvinnsluferlinu á milli sjúklinga með sjúkdóm í annarri og báðum nýrnahettum, meta notagildi stöðuprófs og meðferðarárangur. Einnig að bera saman vefjameinfræðigreiningar fyrir og eftir sértæka mótefnalitun og meta þörf á eftirfylgd út frá niðurstöðum mótefnalitunarinnar.
Sjúklingarnir reyndust 58 talsins, 47% höfðu sjúkdóm í annarri nýrnahettu og gengust undir nýrnahettubrottnám, 53% höfðu tvíhliða sjúkdóm og fengu sértæka lyfjameðferð. Allir höfðu blóðkalíumlækkun við skimun eða síðar í uppvinnsluferlinu sem bendir til vangreiningar og greiningartafar FA á Íslandi. Meiri lækkun varð á blóðþrýstingi og lyfjanotkun hjá aðgerðarsjúklingum en þeim sem fengu lyfjameðferð, sem bendir til betri útkomu fyrrnefnda hópsins. Sértæk mótefnalitun jók nákvæmni greiningar og mögulegt virðist að sníða eftirfylgd eftir niðurstöðum litunarinnar. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að vekja athygli á FA, víkka út skimunarábendingar og einfalda uppvinnsluferlið.
Hrafnhildur lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2017 og kandídatsári við Landspítala ári síðar. Samhliða doktorsnáminu hefur Hrafnhildur stundað sérnám í almennum lyflækningum á Landspítala og sinnt handleiðslu BS nema.
Hvað segir nýdoktorinn
Afhverju vildir þú verða læknir?
Ég var frekar óákveðin framan af menntaskólagöngunni og íhugaði að fara í verkfræði eða jafnvel íslensku. Mér fannst samt mjög heillandi að geta hjálpað fólki og ákvað að fylgja straumnum þegar nánast allur bekkurinn minn í MR fór í inntökuprófið. Ég sé ekki eftir að hafa valið læknisfræði og get ekki hugsað mér skemmtilegri vinnu nema kannski þegar það kemur í minn hlut að útbúa læknabréf fyrir færni- og heilsumat.
Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?
Á köflum var það hátt í 9,5 – sérstaklega þegar kom að því að skrifa ritgerðina ofan á 100% klíníska vinnu. Inni á milli komu þó tímabil sem voru róleg. Ætli meðalálagið hafi ekki verið í kringum 5. Mér fannst mjög hentugt að vera í doktorsnámi samhliða barneignum – náminu fylgir ákveðinn sveigjanleiki sem getur komið sér vel.
Hvert yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?
Að greiða leið íslenskra lækna í gegnum sérnám og sjá til þess að peningur fylgi hverjum sérnámslækni í gegnum námið, óháð því hvar læknirinn þarf að starfa í sínu námi.
Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?
Ég reyni að nýta tímann í útiveru eða annað skemmtilegt með fjölskyldunni. Mér finnst líka mjög gaman að komast út að hlaupa.