05. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnar. Félagsstörf. Magdalena Ásgeirsdóttir

Læknafélag Íslands (LÍ) var stofnað 14. janúar 1918. Nú í dag er LÍ er bæði fag- og stéttarfélag með fjögur aðildarfélög, Félag íslenskra heimilislækna (FÍH), Félag sjúkrahúslækna (FSL), Félag almennra lækna (FAL) og Læknafélag Reykjavíkur (LR). Félagið er líka virkt í mörgum alþjóðasamtökum lækna. Samkvæmt félagatali Læknafélags Íslands 13. mars. 2025 eru 1590 starfandi læknar, yngri en 70 ára.

Ég hef verið þeirrar gæfu njótandi að hafa í mörg ár verið treyst fyrir setu í stjórn félagsins og starfað með þremur formönnum. Ég tók þetta að mér af því að ég vildi kynnast öllum hliðum þessa öfluga félags sem og að leggja mitt af mörkum. Mér hefur þótt stjórnarsetan skemmtilegt og gefandi. Ég hef kynnst mörgum og eignast góða vini.

Sitjandi í stjórn LÍ hef ég líka fengið tækifæri til að koma mínum skoðunum á framfæri í Læknablaðinu úr penna stjórnarmanna LÍ. Þar hef ég meðal annars talað fyrir bólusetningum, nauðsyn Reykjavíkurflugvallar vegna nálægðar við spítala allra landsmanna og flaggskipi íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Einnig hef ég skrifað um menntun lækna og að það verði að líta á menntun lækna sem fjárfestingu til framtíðar. Fullt nám sérfræðilæknis tekur að lágmarki 12 ár og stjórnvöld verða að standa vel að þessu námi og tryggja því fjármagn. Ég horfi sérstaklega til núverandi heilbrigðisráðherra sem vonandi lætur málið til sín taka.

Eitt mikilvægasta hlutverk LÍ er að standa vörð um kjör lækna. Á þessum árum sem ég hef setið í stjórn hef ég fylgst með undirbúningi og gerð nokkurra kjarasamninga, samningaferlið finnst mér furðulegt. Á árunum sem ég bjó í Svíþjóð og var í mínu sérnámi var alltaf samið áður en fyrri samningur rann út og öllum virtist líða vel með það, þótt fólk hefði auðvitað mismunandi skoðanir á kjörunum. Hér á landi er það lenska hjá ríkinu að setjast ekki að samningaborði fyrr en löngu eftir að samningar renna út. Mánuðum, jafnvel árum er eytt í argasta þras, öllum til ama, til þess eins að valda óróa og allt að því hvetja til verkfalla. Þó svo að samningur sé í höfn, þarf alltaf að passa að maður hafi fengið þá launahækkun sem um var samið. Oftar en ekki á starfsævinni hef ég þurft að gera athugasemd og fá leiðréttingu.

Nýr kjarasamningur fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og Læknafélags Íslands sem var undirritaður 28. nóvember 2024 markar tímamót. Þá loksins fengu læknar styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 36. Í inngangi kjarasamningsins er eftirfarandi texti: „Markmið breytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi lækna og auka möguleika þeirra á að samþætta betur vinnu og einkalíf. Breytingunum er einnig ætlað, til lengri tíma, að auka stöðugleika í mönnun hjá stofnunum ríkisins, að draga úr yfirvinnu, að bæta öryggi og þjónustu við almenning og gera störf lækna hjá ríkinu eftirsóknarverð.

Þetta er svo sem gott og blessað en það þarf viðhorfsbreytingu bæði stjórnvalda og vinnuveitanda, hætta að líta á lækna sem útgjaldalið. Við erum dýrmætur starfskraftur og án okkar væri engin heilbrigðisþjónusta.

Ég kveð stjórn Læknafélags Íslands og þakka öllum fyrir samstarfið og hvet unga lækna til að taka virkan þátt í starfi félagsins okkar. Ykkar er framtíðin.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica