05. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Leiðin til Curacao liggur í gegnum safnkerfi nýrans. Halla Fróðadóttir

Fyrir tveimur árum var ég stödd í vinnunni á Landspítalanum í Fossvogi. Ekki merkilegri dagur en hver annar nema að ég var með þyngsli yfir öðru nýranu og taldi mig vera með nýrnastein. Rölti mér yfir á röntgen þar sem ég hitti fyrir erlendan afleysingalækni, Jepke de Berg, sem ómaði á mér nýrun. Það var væg víkkun á safnkerfinu þeim megin sem verkurinn var en steinninn líklega lítill eða genginn niður. End of story. Ég fór að spjalla við Jepke og kom í ljós að hann var Hollendingur búsettur í Curacao í Karabíska hafinu. Hann var einn úr hópi nokkurra röntgenlækna frá Curacao sem leystu af á Landspítalanum þennan veturinn.

Ég vissi ekki mikið um Curacao fyrir þetta stutta spjall okkar en eftir kynni mín af Jepke fór ég að kynna mér þessa litlu eyju og komst að því að þetta væri ein af hollensku Antilles eyjunum sem hafði verið undir stjórn Hollendinga í nærri 500 ár, eða til ársins 2010 þegar Curacao fékk sjálfsstjórn.

Í Curacao búa 160.000 manns, mjög blandað samfélag af innfæddu fólki, Hollendingum og öðru fólki af yfir 100 þjóðernum. Curacao er mikil paradís með hvítar strendur, túrkisbláan sjó og falleg kóralrif.

Þegar ég sá síðar að verið væri að auglýsa eftir lýtaskurðlækni á CMC (Curacao Medical Center), ríkisspítalanum í Curacao var forvitni mín vakin. Spítalinn var glænýr og aðstaðan góð.

Það var að vísu æskilegt að viðkomandi væri einnig með sérfræðiréttindi í handaskurðlækningum svo þá vandaðist málið þar sem flestir skandinavískt menntaðir lýtaskurðlæknar eru ekki með þessi tvöföldu réttindi. Ég ákvað að gamni mínu að setja mig í samband við eina lýtalækninn sem var þarna fyrir og úr varð að ég heimsótti eyjuna og spítalann fyrir ári síðan. Mér bauðst síðan vinnan og fjölskyldan var til. Við fjölskyldan stundum öll köfun og var þetta því kjörið tækifæri að sinna því áhugamáli.

Með komu minni á spítalann væri hægt að mynda gott teymi með breiðari sérþekkingu og bæta þar með þjónustuna við sjúklingana á eyjunni. Auk þess var kollegi minn alltaf á vakt og því kærkomið að fá lækni á móti sér á vaktirnar. Gott plan.

En um það leyti þegar við fjölskyldan vorum mátulega búin að pakka húsinu heima á Íslandi og gera okkur tilbúin til að fara tilkynnir tilvonandi kollegi minn hér úti að hann sé að hætta á spítalanum og hafi ákveðið að flytja til Hollands. Það leit því út fyrir að ég yrði eini lýtaskurðlæknirinn á spítalanum þegar ég kæmi út. Þetta var ekki alveg það sem ég hafði hugsað mér en mér fannst eiginlega of seint að hætta við, búin að skrifa undir samning og allt klárt. Eftir skyndifund með fjölskyldunni var ákveðið að við skyldum fara út þrátt fyrir þetta, þetta gæti ekki orðið annað en ævintýri.

Hér er ég nú búin að vera í 8 mánuði og okkur líkar öllum mjög vel. Ég fékk góðan kollega frá Kólumbíu með mér á spítalann í vetur og gengur okkar samstarf vel. Það er afar hressandi að skipta svona alfarið um vinnu umhverfi og kynnast nýju fólki, nýrri þjóð og nýrri menningu. Fjölskyldan er alsæl. Yngsti sonur okkar er í alþjóðlegum skóla og annar af eldri sonum okkar kom með og vinnur hjá köfunarfyrirtæki. Maðurinn minn vinnur heiman frá í fyrirtækinu sínu á Íslandi. Hér ganga flestir hlutir fyrir sig á hraða snigilsins og skipulagið oft á tíðum sérstakt en þá er ekkert annað en að stilla sig inná þeirra tempó og bara anda djúpt.

Því miður hitti ég aldrei röntgenlækninn Jepke de Berg aftur þar sem hann lést úr krabbameini í byrjun síðasta árs. Hann var sannarlega áhrifavaldur í mínu lífi.  



Þetta vefsvæði byggir á Eplica