05. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

KLÍNÍSK SKOÐUN OG AÐFERÐAFRÆÐI. Blöðruhálskirtill. Rafn Hilmarsson

Blöðruhálskirtill er líffæri í grindarholi karla, staðsettur neðan við þvagblöðru og framan við endaþarm og gengur þvagrásin í gegnum hann. Hlutverk blöðruhálskirtils er að framleiða hluta af sæðisvökvanum, ásamt sáðblöðrum sem eru samtengdar kirtlinum. Blöðruháls- kirtill er á stærð við kirsuberjatómat (20ml) hjá ungum manni en stækkar með aldri og hjá miðaldra manni nær golfkúlu (40ml). Kirtillinn liggur nærri endaþarmsopinu og því er auðvelt að þreifa hann við endaþarmshreyfingu. Endaþarmsþreifing er hluti af líkamsskoðun við ýmsa læknisfræðilega uppvinnslu. Ef þreifa á blöðruhálskirtil er einfaldast að láta sjúkling liggja á skoðunarbekk í hliðarlegu með fætur/hné upp að kvið (fósturstelling). Eins og við aðra endaþarmsþreifingu þá er notað gel og hanski og þreifað með vísifingri og snúið um leið uppá handlegg svo fingurgómur snúi fram og þá að blöðruhálskirtlinum. Það sem hægt er að finna við þreifingu á kirtlinum er hvort hann er stór eða lítill, hvort hann er mjúkur eða harður, sléttur eða óreglulegur, aumur eða ekki aumur. Þessir einföldu hlutir geta gefið vísbendingu um undirliggjandi vandamál í blöðruhálskirtli.



Algengustu kvillar í blöðruhálskirtli eru :

Góðkynja stækkun: Byrjar upp úr fertugsaldri og við 70 ára aldur eru flestir karlar komnir með góðkynja stækkun blöðruhálskirtils. Það eru þó ekki allir sem fá einkenni, svo sem þvagtregðueinkenni með tíðari þvaglátum, slappari bunu og næturþvaglátum.

Krabbamein: Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbamein karla með um 270 nýgreiningar árlega. Meðalaldur við greiningu er um 70 ár og sjúkdómurinn oft á tíðum einkennalaus uns hann hefur meinvarpast.

Bólgur/sýkingar: Blöðruhálskirtilsbólga er algengt vandamál og má gera ráð fyrir að 10-15% karla lendi í þessu á lífsleiðinni. Þetta er vandamál sem hrjáir oftar yngri menn, algengast við 20-50 ára aldur. Orsökin getur verið bráð eða krónísk bakteríusýking en oft finnst ekki undirliggjandi skýring.

Sú einfalda líkamsskoðun sem þreifing á blöðruhálskirtli er getur gefið góða vísbendingu um hvert þessara algengu vandamála sé til staðar þegar grunur er um vandamál í kirtlinum.

Hér koma nokkur dæmi:

1. 65 ára hraustur vörubílstjóri leitar læknis vegna neðri þvagvega einkenna. Hann segir bununa slappa, hann vakni 2-3svar á nóttu til að pissa og sé sífellt í spreng á daginn. Við skoðun þreifast blöðruhálskirtill talsvert stækkaður án hnúta eða eymsla. Blóðprufa sýnir eðlilegt PSA 3 ng/ml. Þvagflæðis- og þvagafgangs- mæling sýnir lélegt hámarksflæði 8, ml/s, og skerta tæmingu með afgangsþvagi 100ml. Ómun af blöðruhálskirtli sýnir talsverða góðkynja stækkun með kirtlstærð 80ml. Hann er settur á meðferð tamsúlósín 0,4mg 1x1 og fínasteríð 5mg 1x1og einkenni batna verulega á komandi mánuðum.

2. 57 ára verkfræðingur leitar til læknis og óskar eftir að fara í „tékk“. Hann er einkennalaus frá þvagfærum en pabbi hans dó úr blöðruhálskirtils- krabbameini 72ja ára. Við skoðun þreifast blöðruhálskirtill með hörðum hnút hægra megin. Hann fer í blóðprufu sem sýnir hækkað PSA 20 ng/ml. Tilvísun til þvagfæraskurð- læknis og frekari rannsóknir með myndrannsóknum og sýnatöku leiða í ljós staðbundið krabbamein í kirtlinum. Hann fer í aðgerð, brottnám á blöðruhálskirtli, og læknast af krabbameininu.

3. 76 ára almennt hraustur eftirlauna- þegi sem spilar golf á Spáni sex mánuði á ári. Leitar til læknis vegna vaxandi slappleika síðstliðinn mánuði, megrun og stöðuga bakverki, væg neðri þvagvegaeinkenni. Við skoðun þreifast blöðruhálskirtill harður og óreglulegur. Blóðprufa sýnir verulega hækkað PSA, 1350 ng/ml. Myndrannsóknir sýna útbreidd sclerótísk meinvörp í hrygg og rifjum og sýnataka staðfestir illa þroskað blöðruhálskirtilskrabbamein. Hann fær lyfjameðferð með hormónabæl- andi töflum og sprautum ásamt tímabundinni krabbameinslyfjameðferð. Krabbameinið leggst í dvala næstu árin.

4. 30 ára kennari leitar læknis vegna sviða við þvaglát og verkja yfir blöðrustað. Pissar oft en buna ekki slöpp. Við skoðun þreifast blöðru-hálskirtill mjúkur án hnúta en hvellaumur. Þvagstix sýnir 2+ hbk, 1+ blóð, nítít +. Þvagræktun staðfestir vöxt 100.000 E. coli. Hann fær 10 daga sýklalyfjameðferð ásamt bólgueyðandi verkjalyfjum og eftir 4 vikur er hann orðinn einkennalaus

Í öllum þessum dæmum getur skoðun á blöðruhálskirtli ásamt sögutöku gefið sterka vísbendingu um hvert vandamálið er og í hvaða farveg eigi að koma því. Ég hvet alla lækna til að setja fingurinn á loft og þreifa blöðruhálskirtilinn þegar það á við.

Rannsóknir til nánari greiningar
á kvillum tengdum blöðruhálskirtli:

1. Blóðpróf:

a PSA-mæling. PSA skal mæla ef klínískur grunur er um krabbamein í blöðruhálskirtli

b Kreatínin-mæling. Kreatínin skal mæla ef grunur er um skerðingu á nýrnastarfsemi vegna undirliggjandi þvagteppu eða langt gengins blöðruhálskirtilskrabbameins

2. Þvagrannsóknir: þvagstix og þvagræktun ef grunur er um undirliggjandi þvagfærasýkingu.

3. Þvagflæðis/þvagafgangs-mæling: ef grunur er um skert flæði/tæmingu vegna stækkunar á blöðruhálskirtli. Þvagafgangsmælir er til staðar á flestum heilsugæslum, göngudeildum og legudeildum.

4. Transrectal-ómun á blöðruhálskirtli: framkvæmd af þvagfæraskurðlækni til að meta stærð og útlit blöðruháls- kirtils

5. Segulómrannsókn af blöðruhálskirtli: ef klínískur grunur er um blöðruhálskirtilskrabbamein, er fengin segulómrannsókn af blöðruhálskirtli.

6. Tölvusneiðmynd af brjóstholi og kvið og ísótópaskann af beinum: ef klínískur grunur er um langt gengið blöðruhálskirtilskrabbamein með meinvörpum.

7. Jáeindaskanni (PSMA PET): í völdum tilvikum við greiningu á há-áhættu blöðruhálskirtils-krabbameini eða endurkomu krabbameins í samráði við þvagfæraskurðlækna/krabbameinslækna.

8. Sýnataka frá blöðruhálskirtli: ómstýrð sýnataka með transrectal eða transperineal tækni við klínískan grun um blöðruhálskirtilskrabbamein á segulómrannsókn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica