04. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Bókaskápurinn minn. Pétur Lúðvígsson

Í bókaskápnum mínum geymi ég nokkrar gamlar námsbækur, sem ég hef ekki tímt að henda, þótt ég sé löngu hættur að lesa það sem í þeim stendur. Þarna er Gray´s Anatomy, og Lehrbuch der Topgraphishen Anatomie, báðar svo níðþungar að þær myndu sliga hvern þann læknanema sem reyndi að bera þær í bakpoka heim til sín á kvöldin. Það tíðkaðist reyndar ekki á mínum tíma í læknadeild að ferðast mikið með námsbækurnar, því lesið var á lesstofum og bækurnar geymdar þar meðan tímar voru sóttir eða skotist heim á kvöldin til að sofa í nokkrar klukkustundir. Þá var mikið lesið, ekki síst fyrir próf þegar lífið snerist um hve margar blaðsíður var komist yfir og hvort þessi kafli eða hinn hefði verið lagður að velli. Einn bekkjarbróðir, norskur að ætt, sagði mér löngu síðar, að hann hefði staðið norskum kollegum sínum langtum framar í teoríunni þegar hann sneri til baka. „Hversvegna var það?“ spurði ég, því við vorum sammála um að kennslan hefði ekki verið uppá marga fiska í þá daga og líklega verri en í Noregi. „Við lásum svo mikið“ svaraði hann. Nokkuð til í því, hugsaði ég, enda blasa sannindamerkin við þegar gömlu námsbækurnar eru opnaðar, þéttar undirstrikanir á öllum blaðsíðum, sumstaðar jafnvel tvöfaldar. Í skápnum eru líka ýmisskonar fagbókmenntir um barnalæknisfræði, taugasjúkdómafræði og aðrar skyldar greinar, sem safnast hafa saman í gegnum tíðina og dagað þarna uppi, stundum án þess að það hafi endilega verið meiningin. Um daginn fór ég í skápinn til að sjá hvort ég fyndi bókina sem var mörgum læknanemanum örlagavaldur á fyrsta ári námsins, The Tissues of the Body, en greip í tómt. Hef líklega hent henni í ruslið úr því að ég náði upphafsprófunum inn í deildina vorið 1967. Þetta var ekki stór bók, en textinn einstaklega tyrfinn og illskiljanlegur, hugtökin framandi svo oft þurfti að fletta upp í orðabókum til að skilja hvað þarna stóð. Þessi bók var númerus clausus síns tíma og þeir fáu sem náðu munnlega prófinu að vori, voru ýmist námshestar, nördar eða lukkuriddarar sem höfðu verið svo heppnir að lesa akkúrat kaflann um prófsefnið sem prófessor Jón Steffensen hafði skrifað á litla bréfmiða og lagt á grænan fíltdúk fyrir framan sig og prófdómarann.

 

Neðst í bókaskápnum eru Gray´s og biblía barnataugalæknisfræðinnar The Practice of Pediatric Neurology, ásamt klassíkerum eins og Muscle Disorders in Childhood, Wolff´s Headache og Tourette Syndrome and Human Behavior, sem er tæplega 700 blaðsíður með smáu letri. Ofar eru minni bækur og kiljur sem láta lítið yfir sér, en innihalda þó mikinn vísdóm sumar hverjar. Þarna eru til dæmis flestar bækur Olivers Sachs, breska taugalæknisins og rithöfundarins, sem öðlaðist heimsfrægð fyrir bók sína Awakenings, um „upprisu“ fórnarlamba von Economo heilabólgufaraldursins eftir L-Dopa lyfjameðferð og bókin The Man who Mistook his Wife for a Hat, með klínískum reynslusögum af sjúklingum með sérkennilegustu einkenni heilasjúkdóma. Efst í skápnum, innanum myndabækur af dysmorfólógískum syndrómum og útbrotum sé ég The House of God, sem ég hélt mikið uppá meðan ég var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum og reyndar síðan. Kostuleg og drepfyndin skáldsaga um líf og störf kandídata á stóru háskólasjúkrahúsi í Bandaríkjunum. Bókin olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út og var ýmist lofuð í hástert eða rökkuð niður sem argasti skandall. Bókin er full af sarkastískum vísdómi, eins og „ We came here to serve God and also to get rich“ og „Remember, it is the patient who has the disease“. Djúpvitur húmor þessarar bókar hefur oft leitað á hugann á löngum ferli, kannski oftar en margt af því sem nú safnar ryki í gamla bókaskápnum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica