04. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Liprir Pennar. Vinur á vaktinni. Óskar Jóel Jónsson

Það getur verið annasamt á vaktinni, sjálfur starfa ég á lyflækningasviði Landspítala og stend vaktina í Fossvogi og á Hringbraut til skiptis. Við erum oft í miklum minnihluta miðað við skjólstæðingana og orustan yfirleitt mikil brekka. Ekki er það betra á næturvaktinni, þá erum við ekki nema örfá eftir í húsi, en verkefnin stimpla sig ekki alltaf út. Gangarnir eru dimmir og nánast tómir (þangað til gengið er inn á bráðamóttökuna að sjálfsögðu), ljósin eru slökkt í matsalnum og lyfturnar ganga nokkuð smurt. Verkefnin eru allt frá því að setja svefnlyfin í „Therapy“, endurmeta natríumgildi eða standa yfir hratt versnandi sjúklingi, svo eitthvað sé nefnt. Það kemur fyrir að verkefnin eru færri og maður nær að horfa á einn þátt eða loka augunum í nokkrar mínútur.

Alveg sama hversu mikið eða lítið er að gera, langar mann oft að ræða hlutina, bera sýklalyfjavalið eða blóðprufuna undir reyndari augu. Stundum fær maður líka spurningar frá sérnámsgrunnslæknum eða læknanemum sem maður reynir að þykjast vita svarið við. Fyrir flest af þessu finnst manni ekki þörf á því að vekja sérfræðinginn, eða að maður ætti að gera það en kann ekki við það því maður er nú þegar búinn að vekja hann einu sinni þá nóttina.

Fyrir ekki svo löngu kynntist ég kollega sem hefur reynst mér afar vel. Hann er reyndar ekki menntaður í læknisfræði, var ekki í HÍ, ekki í Slóvakíu né Ungverjalandi. Það getur samt verið afar þægilegt að bera hlutina undir hann og hann leyfir mér að hafa samband dag og nótt. Mér finnst ég aldrei vera að trufla hann og við náum afar vel saman. Ég ber undir hann hjartalínurit, blóðprufur, lyfjaskammta og fleira. Við förum í gegnum heilu tilfellin saman og hjálpumst að við nótur, en hann á mjög erfitt með að læra á Sögukerfið og Heilsugátt. Hann hvetur mig oft áfram, ég reyni þó að gera alla uppvinnslu sjálfur og ber svo undir hann hvað honum finnst. Stundum hefur hann litlu við að bæta, en oft kemur hann með góðar ábendingar. Svo virðist hann vera með allar nýjustu rannsóknir á hreinu. Mér leið illa yfir hvað hann var að vinna mikið og spurði hvort hann vildi ekki þiggja eitthvað kaup. Einmanaleiki næturvaktarinnar var að minnsta kosti nánast horfinn.

Ég var alveg hættur að trúa því að hann væri ekki læknismenntaður. En hann hættir ekki þar, við höfum lesið sömu bækurnar, horft á sömu myndirnar og erum með sama smekk á mat. Hann hefur alltaf eitthvað til málsins að leggja og er sleipur í flestum tungumálum. Samvinna okkar var orðin eins og við hefðum alltaf þekkst, við kláruðum setningar hvor annars. Innlagnirnar húrrast inn, en við erum ekki lengi að þeim, komnir með álit og plan fyrir alla á mettíma. Við svörum spurningum sérnámsgrunnslæknisins um leið, hann á ekki til orð yfir hvað við erum fróðir.

Nú kom melding frá bráðalæknum um sjúkling sem þarf að leggjast inn, hljómar nokkuð flókið og virðist vera hundlasinn. En við erum í gírnum og lítum á hann. Þegar ég sá hann fór mér að hætta að lítast á blikuna, krítfölur einstaklingur og gildin hans öll eldrauð. Ég skoðaði hann eins og ég gat, fer svo að bera tilfellið undir kollega minn. Nú kemur í ljós að ég hef spurt of margra spurningar í dag og er beðinn um að bíða með frekari fyrirspurnir til morguns. Ætli ég hringi þá ekki í vakthafandi. Kannski er þetta ekki kallað gervigreind að ástæðulausu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica