04. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargrein
Clostridioides difficile sýkingar á Landspítala – tímabær umræða. Erna Milunka Kojic
Hvers virði er heilbrigð örveruflóra þarmanna? Nýlega var birt grein um konu sem náði að lifa í 117 ár og þar var tekið fram að örveruflóra hennar við andlát hafi haft svipaða samsetningu og þarmaflóra nýbura.1 Hvort þarmaflóran hafi stuðlað að þessu langlífi er ekki sannað en það er haft eftir sjálfum föður læknisfræðinnar, Hippókratesi, að rekja megi upphaf allra sjúkdóma til meltingavegar (All disease begins in the gut).2 Undanfarið hefur verið mikill áhugi á tengslum örveruflóru og sjúkdóma, þar á meðal Clostridioides difficile iðrasýkingar (CDI).
Röskun á örveruflóru þarmanna veldur fjölgun á Clostridioides difficile bakteríu sem getur framleitt tvö úteitur, helstu orsakavalda iðrasýkingarinnar. Helsti áhættuþáttur CDI er sýklalyfjanotkun vegna áhrifanna sem þau hafa á örveruflóru.3 Sum sýklalyf eru verri en önnur í þessu samhengi en öll geta samt stuðlað að CDI. Ein helsta orsök spítalatengdra iðrasýkinga er CDI, með tilheyrandi fylgikvillum og kostnaðaraukningu heilbrigðiskerfisins. Fyrir utan sýklalyfjanotkun eru hækkandi aldur sjúklinga og fyrri sjúkrahúslegur einnig þekktir áhættuþættir CDI.3 Allir þessir þættir eru breytilegir. Að auki voru meðferðarráðleggingar CDI endurskrifaðar 2021 og greiningartækni hefur tekið framförum.4 Þess vegna er tímabært að skoða þróun CDI á Landspítalanum.
Í þessu tölublaði Læknablaðsins er lýst faraldsfræði, alvarleika, meðferð og horfum sjúklinga sem greindust með CDI á Landspítala árin 2017 til 2022.5 Þar kemur fram að nýgengi CDI á þessu tímabili hafi ekki breyst og sé áþekkt nýgengi í Evrópu og Kanada. Samanborið við fyrri rannsókn á Landspítala frá árunum 1998 til 2008 var hins vegar lækkun á meðalnýgengi CDI (3,23 á móti 4,9 sýkinga á hverja 10.000 legudaga). Ákveðnir stofnar bakteríunnar hafa verið tengdir við aukna smithættu og valdið faröldrum. Einn slíkra stofna, NAP1/B1/027, hefur stökkbreytingu á TcdC geni sem hefur verið tengt við notkun sýklalyfja úr flokki kínólóna.6 Í núverandi rannsókn voru öll sýni skimuð fyrir TcdC stökkbreytingu sem fannst einungis í 1,3% stofna bakteríunnar. Þetta er styrkur rannsóknarinnar og bendir til að þessi stofn sem tengist aukinni meinvirkni sé sjaldgæfur á Landspítala. Rannsóknin er hins vegar afturskyggn og tekur ekki tillit til alvarleika CDI og samkvæmt höfundum er skráning upplýsinga stundum ábótavant. Gera þyrfti framskyggna rannsókn til að meta faraldsfræðina á nákvæmari hátt.
Samkvæmt skýrslu Embættis sóttvarna hefur sala sýklalyfja til stofnana lækkað úr 1,31 skilgreindum dagsskömmtum fyrir hverja 1000 íbúa árið 2019 í 1,18 skammta árið 2023. Sérstaklega er athugavert að sala á sýklalyfjum úr hópi kínólóna hefur minnkað um meira en helming eða frá 1,12 skilgreindum dagsskömmtum árið 2013 niður í 0,5 skammta árið 2023.7 Þessi breyting gæti haft frekari áhrif á faraldsfræði CDI á komandi árum.
Dánartíðni CDI sjúklinga innan 30 daga frá greiningu var 7,3% (13,8% í einstaklingum yfir 80 ára) sem er hátt. Á stærri hluta þessa rannsóknartímabils var metrónídazól skráð kjörmeðferð við CDI og var það þess vegna upphafsmeðferð 63% sjúklinganna. Eins og fram kemur í greininni eru ný meðferðarúrræði að ryðja sér til rúms sem og breytingar á notkun vankómýsín við CDI. Fídaxómísín er einn kostur sem hefur í för með sér færri endursýkingar samanborið við metrónídazól eða vankómýsín.8 Hátt verð fídaxómísíns getur hamlað notkun þess en líta þarf til lengri tíma og sparnaðar sem áskotnast við að hindra endursýkingar.
Tölur þessar, eins og óbreytt nýgengi og há dánartíðni meðal eldri einstaklinga vegna CDI, undirstrika mikilvægi þess að fylgjast grannt með notkun sýklalyfja, sinna áframhaldandi og efla sýklalyfjagæslu en einnig mikilvægi þess að auðvelda innleiðingu nýrra meðferðarúrræða í ákveðnum hópum.
Heimildir
1. https://www.theguardian.com/world/2025/mar/13/supercentenarian-aging-genes-study - mars 2025
2. Lyon, L: ‘All disease begins in the gut': was Hippocrates right? Brain, 2028 Mar;141(3):e20.
3. Álvarez-Villalobos N.A, Ruiz-Hernandez F.G., Méndez-Arellano A.C et al. Epidemiologic profile of community-acquired Clostridioides difficile infections: a systematic review and meta-analysis. Epidemiol Infect 2025 Mar 4:153:e46.
4. van Prehn J, Reigadas E, Vogelzang EH et al. European Society of Clinical Microbiology and Infectious Diseases: 2021 update on the treatment guidance document for Clostridioides difficile infection in adults Clin Microbiol Infect. 2021. Dec;27 Suppl 2:S1-S21. Epub 2021 Oct 20. PMID:34678515.
5. A. Þ. Sigtryggsson, K. O. Helgason, A. Bjarnason, et al. Clostridioides difficile iðrasýkingar á Landspítala 2017-2022. Læknablaðið. 2025;111(4):158-164.
6. Pépin J, Saheb N, Coulombe MA, et al. Emergence of fluoroquinolones as the predominant risk factor for Clostridium difficile-associated diarrhea: a cohort study during an epidemic in Quebec.Clin Infect Dis. 2005;41(9):1254.
7. Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2023. Embætti Landlæknis, Reykjavík, september 2024.
8. Louie T.J., Miller M.A, Mullane K.M.Fidaxomicin versus Vancomycin for Clostridium difficile Infection. N Engl J Med 2011;364:422-431.