04. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Bókin mín. Af fíkjutré og mannlegu eðli. Sjöfn Ragnarsdóttir
Ég þakka Katrínu Fjeldsted innilega fyrir áskorunina en ég hafði mjög gaman af því að ræða við hana um bækur á ráðstefnu í Oxford fyrir nokkrum árum. Eftir meðmæli frá henni, heimsótti ég Blackwell bókabúðina og gekk út með örugglega 15 bækur í fanginu sem ég dröslaði svo í handfarangri heim. Ein af þeim, The Island of Missing Trees eftir Elif Shafak, hafði djúpstæð áhrif á mig. Ég lagði nefnilega stund á læknisfræði í fjögur ár á Kýpur, sem er sögusvið bókarinnar. Hún fjallar um forboðna ást ungra elskenda rétt fyrir valdaránið 1974. Hann er frá gríska hlutanum og hún þeim tyrkneska. Sagan er að stórum hluta sögð frá sjónarhorni fíkjutrés sem fylgist vel með öllu sem gerist og gefur okkur innsýn í fortíð sögupersóna, heim náttúrunnar og sögu eyjunnar. Máttur góðra bóka er mikill. Þær tengja fólk saman, skapa samræður og minningar, flytja mann bæði á kunnuglegar og ótroðnar slóðir og fá mann til að hugsa.
Sem barn þráði ég að geta skrifað spennandi bækur eins og Nancy Drew og reyndi mitt besta á borðtölvunni heima en eyddi svo, á endanum, meirihluta minna lestrastunda í Hogwarts. Síðar tóku íþróttir og að lokum læknisfræðin við. Það var því kærkomið þegar áhuginn minn kviknaði almennilega aftur á yndislestri og ein af þeim bókum sem kveikti þann neista er The Midnight Library eftir Matt Haig. Bókin fjallar um Noru. Hún tekur þá stóru ákvörðun að enda líf sitt, sem einkennist af mikilli eftirsjá. Í stað þess að fara í hið ókunnuga, vaknar hún í sérstöku bókasafni milli lífs og dauða, þar sem hver bók táknar ólíka útgáfu af lífi hennar sem byggir á öðrum ákvörðunum sem hún hefði getað tekið. Hún grípur því tækifærið og reynir að leiðrétta örlög sín. Höfundur bókarinnar hafði sjálfur verið að glíma við kvíða og þunglyndi og nær að koma hugsunum sem því fylgja svo fallega og vel til skila í skrifum sínum. Ég mæli líka hiklaust með The Humans eftir sama höfund sem er allt öðruvísi bók en ég hef sjaldan hlegið jafn mikið yfir lestri. Þar fylgjumst við með geimveru sem tekur yfir líkama stærðfræðiprófessors til að njósna um mannkynið því markmiðið er að ná heimsyfirráðum. Geimveruna skortir alla tilfinningagreind og býður við útliti og siðum okkar manna. Þegar líður á bókina fer geimveran hins vegar að sjá fegurðina í veikleikum okkar. Ágætis áminning um hvað þykir „eðlilegt“ og hressandi að líta í eigin barm á þennan máta.
Undanfarin ár hef ég sótt í meira efni eftir íslenska höfunda. Auður Ava er í miklu uppáhaldi og sá ég nýlega leikverkið Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu sem var stórkostleg upplifun. Fallegur texti Auðar kemst þar vel til skila og persónutöfrarnir sömuleiðis. Ég skora á ykkur sem eigið eftir að lesa bókina Kjöt eftir Braga Pál að grípa hana við tækifæri en hann er fær penni og greinilega mikill áhugamaður um hið líkamlega en bókin fjallar um myndlistarmann sem fær þá klikkuðu hugmynd að éta sjálfan sig. Hann þráir nefnilega að hverfa. Þetta er ekki bók fyrir viðkvæma.
Bækur geyma og skapa minningar. Ég gæti ekki hugsað mér lífið án þeirra. Fátt veit ég betra en að byrja á góðri hljóðbók á leiðinni í eða úr vinnu eða þegar maður upplifir dag í sófanum þar sem maður nær að lesa bók til enda.
Í gær greip ég á bókasafninu Þegar fennir í sporin eftir Steindór Ívarsson og hlakka til að byrja að lesa.
Ég vil skora á góðan kollega og rithöfund, Hlyn Níels Grímsson, að skrifa um sínar uppáhalds bækur.