03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Hjartalækningar. Allt áhugavert við hjartalækningar. Vilborg Jónsdóttir

Ég ákvað snemma að verða læknir eins og svo margir. Veikindi fjölskyldumeðlima sem kröfðust langrar veru fjölskyldunnar á spítala höfðu mikil áhrif á mig þegar ég var að alast upp og ég fann að þetta var það sem mig langaði að gera. Afi minn lést svo skyndidauða sem talinn var vera vegna kransæðastíflu þegar ég var 15 ára og eftir það var ég ákveðin í að verða hjartalæknir. Stefnan var tekin í Menntaskólann á Akureyri og svo í læknadeild Háskóla Íslands. Ég áttaði mig fljótt á því að þetta með hjartalæknisfræðina myndi eflaust ekki ganga upp. Ég varð ung mamma og komin með ungling þegar ég þyrfti út í sérnámið, mér fannst það stór biti fyrir soninn. Fjölskyldan var ekki mjög æst í að fara út, það hentaði mjög illa á þessum tíma. Það má því segja að ég hafi gefið upp alla von um að ég yrði hjartalæknir. Ég fór því í sérnám í heimilislækningum í tvö og hálft ár.

Ég fann að það var alls ekki fyrir mig og fór ég því yfir í sérnám í lyflækningum og vann á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Eftir miklar vangaveltur hjá fjölskyldunni var síðan ákveðið að halda til Gautaborgar svo ég gæti klárað sérnámið í lyflækningum á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu. Við hjónin fórum með börnin þrjú með okkur og elsti sonur minn fór í 9. bekk í Svíþjóð. Þessi tími var vissulega krefjandi fyrir unglinginn á heimilinu en hann stóð sig vel og stefnan var alltaf sett á að dvelja í tvö ár.

Ég róteraði á hjartadeildina á Sahl-grenska í sex mánuði, sem var hluti af sérnáminu í lyflækningum. Mjög svo krefjandi og lærdómsrík rótering. Ég fann strax að þar átti ég heima. Allt var spennandi og það gaf mér mikið að sjá sjúklinga koma inn fárveika og við gátum oft gert svo mikið fyrir þá fljótt og örugglega. Svo voru margir Íslendingar þar og gott að hafa alltaf einhvern að ræða við þegar mig vantaði ráð. Mér datt þó ekki í hug að ég gæti fengið þar sérnámsstöðu. Það voru margir um hituna og ég var hvort sem var á heimleið til Íslands aftur og búin að bóka farið heim. Elsti sonurinn farinn heim á undan í framhaldsskóla. Ég fékk svo símtal frá yfirlækni hjartadeildar og hann spyr hvort ég vilji ekki sækja um sérnámsstöðu hjá þeim. Eftir smá umhugsun var öllum plönum breytt, ég sótti um og fékk stöðuna. Sérnámið kom þannig til mín.

Ég endaði á að vinna á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í fimm ár og hefði mjög verið til í að vera lengur. Hjartalækningar eru mín sérgrein því mér finnst allt við þær áhugavert, sjúklingahópurinn er breiður og við getum gert margt í höndunum. Ég veit líka að það á alls ekki við mig að sitja ein inni á stofu allan daginn, ég þarf sjúkrahús og teymisvinnu. Mér finnst afar mikilvægt að gefa mér tíma með sjúklingum, útskýra vel, mynda traust samband og vinna af alúð og fagmennsku.

Mitt ráð til ungra lækna er að fylgja hjartanu og gefa sér tíma í að hugsa. Hugsið um ykkur sjálf, ykkar nánustu og hvað hentar ykkur best. Þegar ég var á þessum tímapunkti fann ég fyrir miklum þrýstingi að drífa mig af stað. Mitt ráð er að gera þetta allt á ykkar forsendum. Mikilvægt er að velja sérgrein sem þið hafið áhuga á og getið hugsað ykkur að starfa við til æviloka. Íhugið hvort þið viljið stofuvinnu, vaktavinnu, sjúkrahústeymisvinnu eða blöndu af öllu. Ekki velja eingöngu út frá stemningunni á deildinni, heldur fyrir hvað þið brennið. Þið verðið síðar sjálf hluti af starfsandanum og getið mótað hann til hins betra ef þarf.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica