03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

„Sátt og ánægð með störf mín hjá Læknafélaginu“

 Það er óhætt að segja að Margrét Aðalsteinsdóttir sé flestum læknum kunnug, því hún hefur starfað á skrifstofu Læknafélags Íslands í meira en þrjá áratugi.

Nú stendur Magga Aðal, eins og hún er kölluð af samstarfsfólki sínu, á tímamótum, því um mánaðamótin febrúar/mars hættir hún formlega störfum og fer á eftirlaun.

Margrét er á degi hverjum í samskiptum við lækna víða í heilbrigðiskerfinu. Starf hennar hjá Læknafélaginu hefur gefið henni ómetanlega innsýn í samfélag íslenskra lækna og hvernig Læknafélag Íslands styður þá í starfi.

Margrét hóf þó fyrst störf hjá Læknablaðinu eftir nokkurra ára búsetu í Kaupmannahöfn.

Læknavarpið · Margrét Aðalsteinsdóttir - Sátt og ánægð

Lærði fatahönnun

„Ég fór út til að læra fatahönnun. Reyndar ætlaði ég í búningahönnun fyrir leikhús og kvikmyndir. Ég tók fyrst grunn í fatahönnun, sem var mjög skemmtilegt. Þegar ég ætlaði að fara á næsta stig, í búningahönnun, var enginn nemandi annar en ég sem ætlaði áfram. Þar með féll það um sjálft sig. En ég fékk fljótlega vinnu hjá fatainnflutningsfyrirtæki og það var rosalega skemmtileg vinna. Við ferðuðumst mikið, fórum á fatamessur í Danmörku og víðar í Evrópu og þá opnaðist mér nýr heimur. Efnahagsástandið í Danmörku var hins vegar erfitt á þessum árum og ég missti þessa skemmtilegu vinnu. Nokkru síðar fór ég að vinna hjá „Told og skat“ í Kaupmannahöfn, sem var allt annar heimur. Þar átti ég góðan tíma, vann við bókhald og kynntist mörgu skemmtilegu fólki sem var aðeins ferkantaðra í hugsun en ég, en það þarf líka stundum“

Þú varst þá ekkert farin að huga að því að koma heim?

„Ég hefði svo sem ekkert þurft að fara heim, en maðurinn minn, Gunnlaugur Magnússon, er arkitekt. Fyrir þá var lítið að gera í Kaupmannahöfn í því efnahagsástandi sem þá var. Við vorum með drengi í skóla og leikskóla, auk þess var tengdamamma langeyg eftir að fá okkur heim og vildi ómögulega að við gerðum drengina að Dönum.“

Var ráðin í Kaupmannahöfn

„Sumarið 1991 hitti ég í Kaupmannahöfn Birnu Þórðardóttur, sem þá var ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins. Hana þekkti ég frá gamalli tíð. Ég nefndi við Birnu að við værum jafnvel að huga að heimflutningi. Þá segir hún mér að verið sé að leita að nýjum starfsmanni fyrir blaðið og spyr mig hvort ég gæti hugsað mér að sækja um. Auðvitað fannst mér það spennandi og ég tók boði um viðtal fegins hendi. Einhverju síðar kom Örn Bjarnason, þáverandi ritstjóri, með Birnu til Kaupmannahafnar og mæltu þau sér mót við mig. Ég fór í formlegt starfsviðtal fyrir Læknablaðið, sem lauk með því að ég var ráðin á staðnum.“ Haustið 1992 fluttu Margrét og Gunnlaugur, ásamt sonum sínum, heim til Íslands.

Danska dátann heim

Á skrifstofu Læknablaðsins stendur lukkugripur vaktina, í formi dansks trédáta. Áttir þú ekki einhvern hlut að því að hann kom til Íslands?

„Í kringum 1980, færðist prentun Læknablaðsins til Danmerkur til að koma meiri festu á útgáfu blaðsins. Vinnulagið var þannig að greinar fyrir hálft ár í senn voru ákveðnar og textinn sendur á floppydiskum til Danmerkur. Þar var blaðið brotið um og meira að segja sáu Danir um að afla auglýsinga. Hér heima var gefið út Fréttabréf lækna sem flutti fréttir af félagsstarfi lækna. Árið 1994, en þá var ég byrjuð að vinna hjá Læknablaðinu, voru útgáfurnar sameinaðar og ákveðið að flytja prentunina aftur heim, og síðasta blaðið var prentað í Danmörku það ár. Af því tilefni fórum við Örn, Birna og Vilhjálmur Rafnsson, sem þá var orðinn ritstjóri, út til Kaupmannahafnar. Með formlegri viðhöfn tókum við á móti blaðinu úr hendi Paul Riis og Erik Helge Pedersen og fengum að gjöf þennan líka glæsilega, metersháa lífvörð drottningar, sem átti að verða Læknablaðinu til verndar um ókomin ár. Hvert okkar fékk einnig lítinn lífvörð í rauðu húsi, sem hélt á pínulitlu Læknablaði. Auðvitað þurfti að halda uppá þessi merku tímamót, þannig að dátinn fékk að ferðast með okkur um hin og þessi vertshús Kaupmannahafnar við mikla kátínu þeirra sem á vegi okkur urðu. Dátinn komst þó að lokum heim með okkur og stendur ávallt vaktina blaðinu til verndar.“

Flutningur í Hlíðarsmárann

Þegar Margrét hóf störf á Læknablaðinu, voru skrifstofur þess í Domus Medica, en sumarið 1994 flutti Læknafélagið skrifstofur sínar í Hlíðarsmára 8, þar sem þær eru enn. Læknablaðið fékk þá aðstöðu í öllum syðri enda hússins, sem var mikill munur frá einu litlu herbergi sem blaðið hafði áður haft til afnota. „Þá voru engin hús hér í kringum okkar og fáar götur og ég man að fyrsta veturinn sem við vorum hér var ofboðslegt fannfergi og við þurftum að leggja bílunum langt frá og klofa snjóinn til að komast í vinnuna“.

Umbrotatími á skrifstofunni

Árið 1997 samþykkir stjórn félagsins að fara í endurskoðun á starfsemi skrifstofunnar. „Okkur var sagt að endurskoðunin myndi hafa talsverða hagræðingu í för með sér og að hugsanlega myndu einhver okkar missa vinnuna. Fyrirtæki útí bæ var fengið til að ráðleggja og fara yfir starfsemina og síðan endurskoða. Í kjölfarið var öllum starfsmönnum, nema yfirmönnum, sagt upp. Eðlilega varð þessi vinna til þess að á skrifstofunni varð mikil spenna. Á endanum misstu tveir starfsmenn vinnuna, sem hafði ofboðsleg leiðindi í för með sér. Ég og Guðrún Arnardóttir, sem störfum hér enn, fengum fyrstar endurráðningu. Vinnufyrirkomulag mitt átti að vera þannig að ég starfaði til helminga á Læknablaðinu og á skrifstofu Læknafélagsins. En vegna alls þessa var hreinlega ekki vært fyrir mig á Læknablaðinu, þannig að mér var kippt yfir á skrifstofuna í fullt starf. Að lokum komst á friður og til varð þessi draumavinnustaður sem hann er. Enda er ég enn hér eftir öll þessi ár.“

Aðstoðarkona Jóns Snædal

„Á þessum tíma var stjórn Norræna læknaráðsins að móta hugmyndina um það hvernig Norðurlöndin gætu staðið sameiginlega að framboði fulltrúa í stjórn Alþjóðafélags lækna (World Medical Association). Sérstök framboðsröð var ákveðin til að tryggja að það yrðu alltaf fulltrúar frá Norðurlöndunum í stjórn. Árið 2001 var Jón Snædal kjörinn í stjórn WMA með stuðningi allra Norðurlandaþjóðanna. Hann var fyrsti sameiginlegi fulltrúinn og sat í stjórninni í fjögur ár. Hann naut auðvitað gríðarlega mikils trausts, innan WMA. Seinna var hann kosinn forseti Alþjóðafélags lækna. Hann var líka fulltrúi LÍ í stjórn Norr-æna læknaráðsins og ég var fengin til þess að vera hans aðstoðarkona þar og það var mjög skemmtilegt og mikil upplifun.“

Burðarstólpi Læknadaga

Stefán B. Matthíasson skrifaði pistil um tilurð Læknadaga í 100. árgang Læknablaðsins og þar segir hann að þú hafir komið að öllum Læknadögum sem framkvæmdastjóri og að þú sért burðarstólpi þeirra.

„Læknadagar eru yndislegir. En það form og skipulag sem er á þeim í dag á sér langan aðdraganda. Fræðslunefnd læknafélaganna hafði lengi staðið fyrir fræðsluþingum, eða frá því um 1960. Stefán B. Matthíasson hóf sín afskipti af fræðslunámskeiðunum um 1985. Þetta voru fræðsluþing sem stóðu í þrjá daga, nefnd Haustnámskeið læknafélaganna. Það var mikill metnaður settur í þessi þing en aðsókn að þeim fór samt minnkandi. Eftir að framhaldsmenntunarráði Læknadeildarinnar er komið á laggirnar hefst fljótlega samvinna fræðslunefndar læknafélaganna og framhaldsmenntunarráðs. Framhaldsmenntunarráð skipulagði námskeið fyrir deildarlækna og við kölluðum það unglæknaprógrammið. Því stjórnaði sá mikli snillingur Sigurður Guðmundsson. Dagskráin sem var í boði þótti það góð að full ástæða var að aðrir fengju að njóta hennar. Þá var farið að skoða að sameina þessi tvö fræðsluþing, haustnámskeiðið og unglæknaprógrammið.

Í janúar 1995 leit fyrsta sameiginlega þingið dagsins ljós í þeirri mynd sem við þekkjum sem Læknadaga og voru Sigurður Guðmundsson og Margrét Oddsdóttir heitin tilnefnd í undirbúningsnefnd fyrir hönd Framhaldsmenntunarráðs. Það var svo mikill kraftur í kringum hana Margréti Odds, hún hristi upp í öllum þegar hún mætti á svæðið. Það var mikil upplifun að vinna með henni.

Strax frá byrjun var auglýst eftir tillögum að dagskrá, allir læknar gátu og geta enn sent inn hugmyndir sínar og þannig haft áhrif. Við höfum alltaf fengið mikið af góðum tillögum og oft fengið tillögur að efni sem hefði dugað í tvær vikur. Læknar virðast alltaf luma á góðum tillögum. Á einum af norrænu læknaráðsfundunum, sagði formaður danska læknafélagsins við mig að þetta fyrirkomulag, á jafnstóru þingi og Læknadagar eru, væri óhugsandi í Danmörku. Honum fannst þetta einstakt.“

Tilviljun

„Ég kom inn í þennan hluta starfsins fyrir tilviljun vegna þess að Ásta Jensdóttir, sem hafði séð um haustnámskeiðin áður, var komin í barnseignarleyfi. Þetta var upphafið að miklu ævintýri fyrir mig.

Fyrsta haustnámskeiðið sem ég kom að var árið 1993. Það var mikill skóli fyrir mig og Stefán B. Matthíasson var minn mentor í þessu. Hann var reynslubolti og hafði trú á mér og við störfuðum feykilega vel saman allt þar til hann hætti 2001. Þá voru fræðsluþingin búin að fara í gegnum miklar breytingar undir hans stjórn, frá haustnámskeiðum til Læknadaga, eins og ég hef rakið. Hann var fyrsti formaður Fræðslustofnunar lækna frá 1997 og fyrsti formaður undirbúningsnefndar Læknadaga, auk þess sem hann stýrði haustnámskeiðunum þar áður.

Samhliða þessum breytingum fjölgaði þátttakendum og lyfjafyrirtækin fóru að sýna þessu meiri áhuga og húsnæðið varð fljótlega of lítið. Við vorum til að byrja með á Hótel Loftleiðum, fórum svo á Grand Hótel, vorum fljót að sprengja það utan af okkur, síðan á Nordica sem einnig varð alltof lítið og loks í Hörpu og erum þar enn.

Þegar að Stefán hætti tók Arnór Víkingsson við keflinu og við áttum mjög gott samstarf – og svo kom Arna Guðmundsdóttir 2006.

Arna lyfti Læknadögum algjörlega upp á næsta stig. Hún stefndi fljótlega á að Læknadagar fengju símenntunarviðurkenningu CME (Continuing Medical Education). Það gerðist í fyrsta skipti 2012 og Læknadagar hafa fengið þessa viðurkenningu á hverju ári síðan. Það er heilmikið ferli að fá þessa viðurkenningu. Það þarf að leggja fram alls kyns gögn, auk dagskrár á ensku sem fer síðan í matsferli. Þessi viðurkenning segir okkur allt um hversu góðir Læknadagar eru. Einnig gilda mjög strangar reglur um aðkomu lyfjafyrirtækja og samskipti við þau. Á þessum tíma var Harpa að opna og Læknadagar voru fyrsta stóra ráðstefnan sem haldin var í Hörpu, það var 2012. Starfsfólk Hörpu lærði þess vegna heilmikið á okkur. Það fer vel um Læknadaga í Hörpu, enda er þetta stórkostlegt hús og mikið er ég fegin að það var klárað, mikill sómi fyrir land og þjóð.

Fyrir tíma Örnu sá ég um allar bókanir fyrir erlendu gestina, bæði flug og hótel og skráningu þátttakenda, en Arna breytti því þannig að ráðstefnufyrirtæki var fengið til að sjá um hvorutveggja, sem létti mikilli vinnu af mér. Arna hefur verið lengst allra formaður Fræðslustofnunar lækna, eða í átta ár. Við Arna unnum gríðarlega vel saman og bar aldrei skugga á það samstarf. Við vorum alltaf í miklu sambandi og unnum bara sem ein manneskja.

Á eftir Örnu fóru í formannsstólinn Gunnar Bjarni Ragnarsson, Jórunn Atladóttir, Reynir Arngrímsson og Kristín Sigurðardóttir og ég átti mjög gott samstarf með þeim öllum. Núverandi formaður er Katrín Þórarinsdóttir sem ég hef mikla trú á og sem ég hefði gjarnan viljað starfa með lengur. En svona er nú það.“

Glöð í starfi

„Þegar ég lít til baka er ég sátt og ánægð með störf mín hjá Læknafélaginu, mér hefur liðið mjög vel hér og verið svo heppin að fá að takast á við mörg og mismunandi verkefni. Mér hefur alltaf fundist gaman að stíga út fyrir rammann og koma sjálfri mér á óvart.“

Hægt er að segja að manneskjan sem tekur við af þér sé ekki öfundsverð því þetta er mikil vinna sem þarf að inna af hendi og mörg atriði, stór og smá, sem þarf að muna svo vel takist.

„Ég tel mig vera búna að undirbúa arftaka mína vel. Margrét Gunnlaugsdóttir mun taka við umsjón Læknadaga og Ingvar Freyr Ingvarsson tekur við þeim bókhaldsverkefnum sem ég hef sinnt. En auðvitað tekur alltaf tíma að komast inn í ný verkefni. En síminn er opinn og ég verð ínáanleg, ef á þarf að halda.“

Hvað tekur við hjá Möggu Aðal?

„Barnabörnin eru þrjú og nú gefst meiri tími fyrir þessar litlu elskur. Við Gunnlaugur, maðurinn minn, byrjuðum í golfi fyrir 20 árum síðan og höfum ferðast eins og fjandafælur útum allt og ætlum bara að halda því áfram. Ég get farið að fara með honum útá golfvöll í staðinn fyrir að fara í vinnuna. Svo nú getur hann glaðst.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica