03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Læknablaðið stofnað af Guðmundi Hannessyni 1901

110 ára afmælisárgangur Læknablaðsins að baki

 

Eins og læknum er kunnugt var 110 ára útgáfuafmæli Læknablaðsins fagnað á Læknadögum í janúar 2025 í Hörpu. Þangað mætti meðal annars Helga Hannes-dóttir geðlæknir, barnabarn Guðmundar Hannessonar, sem í kjölfarið færði ritstjóra Læknablaðsins, Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, mynd af afa sínum að gjöf.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helga Hannesdóttir kemur færandi hendi til Læknablaðsins, því á 100 ára útgáfuafmæli þess sem var haldið í Iðnó, færði hún blaðinu og Læknafélagi Íslands að gjöf fjóra innbundna árganga af fyrirrennara Læknablaðsins sem afi hennar, Guðmundur Hannesson prófessor og fyrsti ritstjóri Læknablaðsins, handskrifaði, fjölritaði og sendi til allra lækna landsins á árunum 1901-1904. Hann var síðan ritstjóri blaðsins frá endurreisn þess árið 1915 allt fram til ársins 1921. Þessir árgangar Læknablaðsins fyrra, sem Helga Hannesdóttir lét binda inn, eru varðveittir hjá Læknafélagi Íslands og Læknablaðinu og geta læknar litið við og skoðað þessa dýrgripi í húsnæði blaðsins og Læknafélags Íslands í Hlíðasmára. Helgu eru enn á ný færðar innilegar þakkir fyrir þessar gjafir og hlýhug til blaðsins.

Allir árgangar Læknablaðsins eru geymdir á www.timarit.is og ættu læknar að gefa sér tíma til að skoða þann fjársjóð. Læknablaðið hefur frá upphafi birt vísindalegt efni íslenskra lækna ásamt félagslegum þáttum sem skipt hafa lækna máli. Á tímabili var Læknablaðið gefið út í tveimur aðskildum blöðum í hvert sinn, þar sem annar hlutinn innihélt vísindalega efnið og hinn hlutinn félaslega efnið.

Læknablaðið hefur verulegt sögulegt gildi sem er mikilvægt að halda áfram með og birta áfram vísindarannsóknir íslenskra lækna og jafnvel annarra starfsstétta heilbrigðiskerfisins, nýjungar í læknisfræði og heilbrigðiskerfisins í heild.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica