03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Konan á bak við krossgátur Læknablaðsins

Erla Sigríður Sigurðardóttir er á kandidatsárinu á Landspítala og stefnir á sérnám í bráðalækningum. Hún hefur í störfum sínum á bráðamóttökunni glatt samstarfsmenn með gátum og vísum sem vikulega birtast á kæliskáp bráðamóttökunnar. Sá sem leysir gátuna er síðan verðlaunaður með litlum glaðningi frá Erlu. Í aðdraganda jóla birti hún daglega í 13 daga nýja vísu um „spítalajólasveinana“ með vísun í gömlu íslensku jólasveinana. Auk alls þessa tekst Erla á við hagyrðinga í Morgunblaðinu og kveðst á við þá. Læknablaðið hafði spurn af hæfileikum og uppátækjum Erlu Sigríðar og brást hún vel við ósk um að senda blaðinu mánaðarlega krossgátu og vísu sem læknar landsins og aðrir lesendur keppast við að leysa við í hverju blaði. Við vorum forvitin um þennan gleðigjafa og mikla hagyrðing og fengum hana til að svara nokkrum spurningum.

Hvað varð til þess að þú fórst að setja upp gátur fyrir samstarfsfólkið á bráðamóttökunni ?

Þetta byrjaði raunar með því að ég hóf að senda inn vísnagátur í Morgunblaðið sumarið 2023. Það er nú þegar hefð fyrir vísnagátu hvern laugardag í Mogganum en ég vildi gjarnan fá að spreyta mig á þessu sjálf, setja saman og sjá hvort einhver myndi ná að leysa gátuna. Vísurnar mínar birtust þó iðulega á vikudögum þegar fólk var kannski lítið að leita eftir slíku og því fáir sem svöruðu. Ég hélt samt áfram að semja en hafði þetta að mestu út af fyrir mig. Þegar ég hóf störf á bráðamóttökunni sumarið 2024 datt mér þetta bara í hug einn daginn, að prófa að hengja upp eina gátu sem ég var ánægð með og sjá hvort einhver myndi senda inn. Hugsaði að það yrði kannski skemmtilegt uppbrot á vinnudeginum og svo vantaði mig vettvang til að koma þessu á framfæri.

 

Hefurðu verið að búa til gátur og
vísur lengi?

Ég var eitthvað að fikta og setja saman sem unglingur en tók þetta ekki upp af alvöru fyrr en um það leyti sem ég útskrifaðist úr læknadeild eða vorið 2023.

 

Er þetta fjölskyldu-sport? Ertu komin af miklum hagyrðingum?

Það ríkir mikil frásagnargleði í móðurættinni, amma og afi höfðu sérstakt dálæti á því að segja frá og krydda þannig hversdaginn. Afi var mikill sögumaður og gat haldið áhlustendum á tánum. Hann var launfyndinn og voru sögurnar oft kímni blandnar. Amma var meira fyrir styttri skemmtisögur úr hversdagsamstrinu og hló oft hátt og mikið meðan hún sagði frá. Frænka mín, þeim megin, er barnabókahöfundurinn Bryndís Björgvinsdóttir.

Föðuramma mín hafði síðan sérstaka ánægju af því að segja mér svokallaðar „Palla-sögur“. Þær hverfðust alla jafna um vandræðagemlinginn Palla sem hafði týnst í hinum og þessum ferðalögum fjölskyldunnar og við tók örvæntingarfull leit að drengnum. Hún hafði lesið sér til um staðina fyrirfram og notaði sögurnar til að fræða mig um heimssöguna í leiðinni. Þannig lærði ég til að mynda fyrst um Kínamúrinn, helförina og apaköttinn í Eden í Hveragerði sjö ára gömul upp í rúmi hjá ömmu minni í leit að Palla.

Hvernig kemur andinn yfir þig? Þegar þú ert úthvíld eða er það eftir mikið álag í vinnunni?

Bæði. En ég finn að ég á best með að skrifa og setja eitthvað saman þegar mér líður vel. Þegar ég var á öðru ári heimsóttum við heilsugæslu í tvo daga sem hluta af líkamsskoðunarkúrsinum, til að sjá hvernig líkamsskoðun færi fram svona „úti í feltinu“. Læknirinn sem tók á móti mér, ég get ómögulega munað hvað hann heitir, sagði að þeim sem hugnaðist að gerast rithöfundur, ætti að vera heimilislæknir. Þannig kæmist maður í tæri við ótrúlega karaktera og heyrði magnaðar sögur. Ég hugsa oft um þetta þegar ég er að vinna og sérstaklega ef það er mikið álag og erfitt. Maður er svo heppinn að fá að hitta allt þetta fólk, kynnast svo mörgum hliðum á lífinu og geta vonandi aðeins hjálpað til. Ég held að það sé afskaplega frjór jarðvegur fyrir hvers kyns sköpun.

 

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina, verður þú rithöfundur með læknisstörfunum?

Mér þykir það afar líklegt. Ég er þó ekkert að flýta mér og ætla bara að njóta þess að vinna líka. Þetta er samt eitthvað sem ég gríp í þegar færi gefst enda getur verið hollt að hvíla sig við eitthvað svo gjörólíkt því sem maður fæst við dagsdaglega.

Boulliondreypir

Boulliondreypir, vesæll ver,

á vatn og brauð er nískur,

Harla slappur, hann nú er hyponatremískur.

 

Lítil matarlystin er,

lítið kauði tyggur.

Bjarglaus inn á B7 fer,

Bollasúpu þiggur

Erla Sigríður skrifar undir Codex Ethicus hjá
Læknafélaginu árið 2023.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica