03. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Hvar er tóbaksvarnastefna Íslands?
„Ísland hefur tekið þátt í norrænu samstarfi í tóbaksvörnum um langt skeið og er mjög mikilvægt að Ísland fylgist vel með þeim leiðum sem færar eru til að draga úr þeim skaða sem hlotist getur af notkun tóbaks og nikótíns,“ segir Viðar Jensson hjá Embætti landlæknis
Norðurlöndin eiga langa sögu um gott samstarf um forvarnir á vettvangi Norðurlandaráðs, meðal annars, samstarf í tóbaksvörnum til að draga úr tóbaksnotkun og vernda lýðheilsu. Með sameiginlegu átaki hafa margvíslegar fyrirbyggjandi aðgerðir verið innleiddar og hafa löndin miðlað reynslu sinni landa á milli til þess að styrkja áætlanir sínar. Ekki má sofa á verðinum og áríðandi er að Norðurlöndin haldi áfram að vinna saman að því að þróa og innleiða árangursríkar tóbaksvarnir.
Síðastliðið haust voru opinberar stefnur Norrænu landanna í tóbaksvörnum kynntar, en verkefnið miðar að því að efla og þróa enn frekar varnir gegn tóbaksnotkun. Áherslan hefur lengi verið að útrýma reykingum og skapa reyklaust umhverfi. Einnig er aukin áhersla á skaða af notkun snus (munntókbak) og rafsígaretta.
Á sænska vefnum tobaksfakta.se má finna viðtal við Jóhönnu Sigríði Kristjánsdóttur, hjá Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins, þar sem vakin er athygli á því að Ísland hefur ekki lengur neina opinbera stefnu í tóbaksvörnum. Jóhanna segir ástæðuna vera þá að það hafi verið skortur á pólitískum vilja til þess að sinna tóbaksvörnum síðustu árin. En ef stefna í málaflokknum væri til, þá myndi það auka möguleikana á aðgerðaáætlun.
Heilbrigðisráðuneytið skipaði í starfshóp
„Já, það er rétt að Ísland hefur ekki opinbera stefnu í tóbaksvörnum.“ Segir Viðar Jensson hjá Embætti landlæknis, þegar Læknablaðið leitaði svara hjá embættinu.
„Hins vegar var skipað í starfshóp um stefnumörkun í tóbaksvörnum árið 2013. Í honum áttu sæti fulltrúar frá fjármálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Embætti landlæknis. Hlutverk starfshópsins var að móta tillögur að stefnu og meginmarkmiðum á sviði tóbaksvarna, meðal annars á grundvelli Rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir sem Ísland fullgilti árið 2004, laga og annarra stjórnvaldsfyrirmæla og nýjustu þekkingar. Embætti landlæknis var falið að halda utan um söfnun og úrvinnslu upplýsinga og leggja mat á stöðu málaflokksins á Íslandi.“
Starfshópurinn var þannig skipaður:
Margrét Björnsdóttir, án tilnefningar, formaður.
Laufey Helga Guðmundsdóttir og síðar Áslaug Einarsdóttir, án tilnefningar, ritari.
Viðar Jensson, tilnefndur af Embætti landlæknis.
Lilja Sigrún Jónsdóttir, tilnefnd af
Embætti landlæknis.
Erlendur Kristjánsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Ögmundur H. Magnússon, síðar
Margrét Ágústa Sigurðardóttir og að lokum Björney Inga Björnsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Rósa Magnúsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
„Starfshópurinn fundaði þrjátíu sinnum. Stefnumörkunin var unnin í samráði við stóran hóp hagsmunaaðila og fékk hópurinn á sinn fund fjölda gesta til að afla upplýsinga. Var jafnframt óskað eftir ábendingum og tillögum frá þeim. Að auki var óskað eftir upplýsingum bréflega frá ýmsum aðilum og tillögum frá þeim.“ segir Viðar. „Starfshópurinn skilaði drögum að stefnumörkun í tóbaksvörnum í september 2015, þar sem sett voru fram meginmarkmið í áherslum í tóbaksvörnum hér á landi til ársins 2020. Helstu markmiðin voru að draga úr tóbaksneyslu meðal landsmanna með áherslu á að verja börn og ungmenni og að jafna árangur mismunandi þjóðfélagshópa í glímunni við tóbaksfíkn.“
Brýnt að vinna gegn ójöfnuði í heilsu sem tengist tóbaksneyslu
„Sérstök áhersla var lögð á að tóbak sé ekki almenn neysluvara og að þörf væri á verðstýringu og virkum aðgerðum til að hindra aðgengi barna að því. Brýnt þótti að vinna gegn ójöfnuði í heilsu sem tengist tóbaksneyslu með því að auðvelda aðgang að meðferðarúrræðum við tóbaksfíkn. Til þess þyrfti að auka þjálfun heilbrigðisstétta á því sviði og tryggja framboð á meðferð um land allt. Lagt var til að hætta sölu alls reyklauss tóbaks hér á landi eigi síðar en árið 2018. Hvatt var til þess að stjórnvöld móti stefnu um endatafl á sviði tóbaksvarna hér á landi til ársins 2040.
Við þessa vinnu var tekið mið af innlendri löggjöf og erlendum skuldbindingum Íslands og nýjustu þekkingu á sviði tóbaksvarna, auk þess sem haft var samráð við hagsmunaaðila víða að úr samfélaginu til að greina stöðu mála og sóknarfærin sem þá voru fram undan.
Þessi stefnumótun var ekki kynnt og fékk því ekki framgang til að geta orðið opinber stefna í tóbaksvörnum.“
Er ekki mikilvægt að Ísland taki þátt í -norrænu samstarfi í tóbaksvörnum og sé með tóbaksvarnastefnu líkt og hin Norðurlöndin?
„Jú, það er mikilvægt. Samkvæmt Rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir, sem Ísland fullgilti árið 2004, ber Íslandi að setja sér stefnu i málaflokknum. Ísland hefur tekið þátt í norrænu samstarfi í tóbaksvörnum um langt skeið og er mjög mikilvægt að Ísland fylgist vel með þeim leiðum sem færar eru til að draga úr þeim skaða sem hlotist getur af notkun tóbaks og nikótíns.“
Hvers vegna er það mikilvægt og af hverju er ekki þrýst á að Ísland sé með opinbera tóbaksvarnastefnu?
„Embætti landlæknis hefur talað fyrir því að unnin sé opinber stefna í tóbaksvörnum og tekið þátt í vinnu við stefnumótun í málaflokknum.
Á undanförnum áratug hafa komið fram nýjar nikótínvörur, svo sem rafrettur og nikótínpúðar. Notkunin hefur ekki síst verið á meðal yngra fólks og kallar á nýjar leiðir til að takast á við nýjar áskoranir.“
Norðurlöndin sigla fram úr okkar góða starfi
Læknablaðið hafði samband við Jóhönnu Sigríði Kristjánsdóttur vegna þessarar umfjöllunar og vildi hún bæta því við, að Ísland skorti hugrakka stjórnmálamenn til að vinna í þessum málum. „Síðustu árin höfum við setið eftir og það er miður. Á meðan sigla Norðurlöndin fram úr okkar góða starfi. Neyslutölur tóbaks sýna okkur að reykingar eru á undanhaldi, en aukning er milli ára í neyslu nikótínpúða og nú sjáum við að rafsígarettunotkun er að aukast líka. Varðandi nikótínpúðana, þá er það fyrst og fremst yngra fólk sem notar þá og það er ekki fólk sem hefur notað aðrar tóbaksvörur. Tóbaksframleiðendurnir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera og finna alltaf leið til að útbúa vöru svo þeir tapi engu úr sínum aski.
Okkur vantar stefnu í tóbaksvörnum, við erum með of lága skatta á tóbaksvörum, við erum ekki með tóbaksvörur undir sömu lögum, við erum ekki að taka á fjölgun söluaðila og svona getum við talið áfram. Það er skylda okkar að byrgja brunninn og gera allt sem í okkar valdi stendur til að fyrirbyggja að börn og ungmenni ánetjist tóbaki.
Nauðsynlegt er að kalla eftir stefnu í tóbaksvörnum, við þurfum að hækka álögur á tóbak, verð á sígarettupakka er til að mynda, mun lægra hér en á Norðurlöndunum. Hlutfall skatta á tóbak af smásöluverði er lægst hér af Norðurlöndunum. Við þurfum að koma á einsleitum pakkningum fyrir allar tóbaksvörur ásamt því að banna bragðefni. Við þurfum að minnka aðgengi að tóbaksvörunum og koma á banni við sölu á netinu. Eins þarf að fækka söluaðilum og selja einungis í sérverslunum.“ Að lokum segir Jóhanna: „Við getum aftur orðið fremst meðal þjóða í tóbaksvörnum, en til þess þurfum við hugrakka stjórnmálamenn sem þora að taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir.“