02. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Þarf að endurhugsa meðferð með sykursterum í bráðveiku fólki og neikvæð áhrif slíkrar meðferðar í öðru samhengi?
Á Læknadögum 2025 var málþing þar sem fjallað var um meðferð með sykursterum.
Prófessor Greet van den Berghe yfir-læknir gjörgæslunnar og rannsóknarstofu hennar á sjúkrahúsinu í Leuven í Belgíu,, hélt erindi um hormónaöxul kortisóls og sýndi fram á með rannsóknum sínum að þær leiðbeiningar sem hingað til hafa miðað að frekar háum skömmtum sykurstera-uppbótar þyrfti að endurskoða. Fram kom einnig að í bráðveiku fólki er helmingunartími kortisóls lengri og taka ætti tillit til þess.1 Erindið vakti gesti málþingsins án efa til umhugsunar og væntanlegra breytinga í meðferð lækna með sykursterum, ekki síst í sjúkralegu á gjörgæslu.
Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, innkirtlalæknir og klínískur prófessor, dró síðan fram sjúkratilfelli sem sýndu neikvæð áhrif sykursterameðferðar, sem getur leitt til allra alvarlegra aukaverkana sem samrýmast „pseudo-Cushings syndrome“ og hvernig ópíóíðar geta bælt hormónaframleiðslu nýrnahettunnar alveg.
Margrét Jóna Einarsdóttir, innkirtlalæknir og nýdoktor, fjallaði um síðkomin áhrif sterameðferðar og vitnaði þar í efni úr doktorsritgerð sinni; „Nýrnahettubilun af völdum sykursteranotkunar“.2 En ljóst er að bæling nýrnahettunar verður eftir mismunandi langa meðferð og varir mismunandi lengi í viðkomandi sjúklingum. Hún vísaði í nýtt kort sem sett hefur verið fram í Svíþjóð þar sem sjúklingur getur sýnt að hann hafi verið á sykursterameðferð sem þurfi að taka tillit til ef hann veikist. Í samvinnu við Félag um innkirtlafræði verður slíkt kort einnig tekið upp á Íslandi.
Prófessor Björn Guðbjörnsson gigtarlæknir fjallaði um lyfseðla útskrift á sykursterum meðal íslenskra lækna síðastliðin 17 ár, hverjir það eru sem skrifa mest út stera og mikilvægi þess að hugsa strax um beinverndandi meðferð við óumflýjanlega sykursterameðferð. Beinþéttnin tapast mest þegar sykurstera-meðferð er hafin.3
Að lokum var umræða um fyrstu klínísku leiðbeiningarnar um greiningu og meðferð á nýrnahettubilun eftir sykursterameðferð, sem teknar voru saman af Evrópska innkirtlafélaginu (European Society of Endocrinology) í samvinnu við hið bandaríska innkirtlafélagið (Endocrine Society).4 Irina Bancos innkirtlalæknir frá Mayo-sjúkrahúsinu í Rochester, Bandaríkjunum, sem tók þátt í að setja saman leiðbeiningarnar, fór yfir helstu atriði þeirra og gerði jafnframt grein fyrir því að þó að ýmislegt þoli frekari umræðu eru leiðbeiningarnar þó teknar fram til að auðvelda öllum læknum að greina og meðhöndla nýrnahettubilun eftir sykursterameðferð. Ekki eru til nægir innkirtlalæknar í heiminum til að sinna þessu og því verði allir læknar sem nota stera á einhvern hátt, svo sem við meðferð á húð, í liði, sem innöndunarlyf og sem bólgueyðandi meðferð, eins og til dæmis við fjölvöðvabólgu, að þekkja til leiðbeininganna. Marianne Klose, innkirtlalæknir á nýrna-og innkirtladeild, Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, sem rannsakað hefur ítarlega þessi neikvæðu áhrif sykursterameðferðar á hormónaframleiðslu nýrnahettunnar, lýsti síðan hversu mikilvægt það er að læknar séu meðvitaðir um þessi áhrif í hvert sinn sem þeir nota slíka meðferð. Marianne sagði einnig að þetta væri í fyrsta sinn sem leiðbeiningarnar eru kynntar fyrir þeim hópi lækna sem eru að meðhöndla með sykursterum, því mestu máli skipti að leiðbeiningarnar nái til allra lækna, ekki bara innkirtlalækna. Mikilvægast sé að allir læknar þekki þessi neikvæðu áhrif sykursterameðferðar sem geta verið lífshættuleg.
Fyrirlesarar með fundarstjóra á málþinginu: Helga Ágústa Sigurjónsdóttir fundarstjóri, Irina Bancos, Marianne Christina Klose, Margrét Jóna Einarsdóttir, Greet van den Berghe og Björn Guðbjörnsson.
Heimildir
1. Þórðardóttir OB. Hjartagalli yngri bróður kveikti áhuga á læknavísindum. Viðtal við prófessor Greet van den Berghe. Læknablaðið 2025, 111 (1): 28-31.
2. Doktorsvörn frá Gautaborgarháskóla: Margrét Einarsdóttir. Læknablaðið 2024, 110(1): 57.
3. Bjornsdottir HH, Einarsson ÓB, Gröndal G, et al. Nationwide prevalence of glucocorticoid prescriptions over 17 years and osteoporosis prevention among long-term users. SAGE Open Med. 2024 Mar 20;12:20503121241235056.
4. Beuschlein F, Else T, Bancos I, et al. European Society of Endocrinology and Endocrine Society Joint Clinical Guideline: Diagnosis and therapy of glucocorticoid-induced adrenal insufficiency. Eur J Endocrinol. 2024, 190(5):G25-G51.