02. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Læknadagar 2025. 110 ára afmæli Læknablaðsins
„Í dag höldum við upp á 110 ára afmæli Læknablaðsins sem hefur verið gefið út sleitulaust í 110 ár og lifað af ýmsar kreppur.“ Sagði Helga Ágústa Sigurjónsdóttir ritstjóri Læknablaðsins í opnunarerindi sínu á afmælismálþingi blaðsins sem haldið var á Læknadögum í Hörpu í janúar. Helga stiklaði á stóru um sögu Læknablaðsins en af mörgu var að taka. Hún benti á hversu mikilvægt blaðið er íslenskum læknum, ekki eingöngu vegna mikilvægis birtinga vísinda íslenskra lækna og félagslegra atburða heldur geymi Læknablaðið „ótrúlega sögu læknastéttarinnar og íslenska heilbrigðiskerfisins í heild.“ Læknablaðið hefur þróast í gegn um árin og tilkomið fastir pistlar og hlaðvörp sem án efa eiga eftir að skipa stærri sess í birtingarmynd blaðsins.
Fundarstjóri var Ólöf Jóna Elíasdóttir úr ritstjórn blaðsins sem næst kynnti prófessor Karl Andersen formann Vísindaráðs Landspítala. Erindi Karls fjallaði um mikilvægi vísindagreina í Læknablaðinu og lagði út af spurningunni „Hvers vegna ætti að birta vísindagrein í Læknablaðinu?“ Beinast liggi við að benda á að Læknablaðið sé fræðilegur vettvangur íslensks heilbrigðisstarfsfólks og að það eigi erindi við íslenska fræðimenn. Hann benti á hversu gott það sé fyrir unga lækna að fá að kynnast því sem aðrir íslenskir læknar eru að fást við og að þessi vettvangur stuðli beint að samstarfi þvert á fræðigreinar. „Læknablaðið stuðlar að samfélagsumræðu um heilbrigðismál þar sem rödd lækna fær að heyrast, sem er mjög mikilvægt.“
Þá fjallaði Sigurður Guðmundsson um mikilvægi birtingar sjúkratilfella í Læknablaðinu og sagði að það væri miður að í huga flestra væru sjúkratilfellin neðst á „tótemsúlunni“ þegar horft væri á vísindalegar birtingar. Þessu sagði hann að þyrfti að breyta því að ef horft væri á sjúkratilfellin, þá væru þau í raun merkileg og spennandi. Oft snérust þau um sjaldgæfa sjúkdóma og einkenni sem ekki hafa áður sést eða þá að fjallað sé um nýja tækni eða meðferð. Ósjaldan leiði sjúkratilfelli af sér nýjar rannsóknir og að nýjar hugmyndir vakni og stuðli þannig að frekari rannsóknum. Sigurður lagði að lokum til, með djúpstæðri virðingu fyrir viðameiri rannsóknum, að sjúkratilfellum yrði í framtíðinni gert hærra undir höfði því þau hefðu bæði skemmtigildi og fræðigildi fyrir lækna.
Í fyrsta sinn í sögu blaðsins voru veittar viðurkenningar fyrir bestu vísindagreinina sem birt var í 110. árgangi blaðsins og besta sjúkratilfellið og verður stefnt að því að halda því áfram. Fyrrverandi og núverandi ritstjórn blaðsins fór markvisst í gegn um það val út frá fyrirfram gefnum áhersluatriðum, og var prófessor Karl Andersen með í vali vísindagreinarinnar og Sigurður Guðmundsson prófessor emeritus í vali sjúkratilfellisins.
Oddur Ingimarsson geðlæknir og samstarfsmenn hans hlutu viðurkenningu fyrir vísindagreinina „Hátt algengi ADHD-lyfjameðferðar bendir til að ADHD sé ofgreint á Íslandi.“
Katrín Hólmgeirsdóttir, læknanemi, fékk viðurkenningu fyrir besta sjúkratilfellið, ásamt samstarfsólki sínu, „Allir geta smitast af HIV en enginn ætti að fá alnæmi“
Sérstaka viðurkenningu hlaut Ólafur Orri Sturluson fyrir birtingu á tveimur af fjórum sjúkratilfellum sem birtust í 110. afmælisárgangi Læknablaðsins. Bæði virkilega vel gerð og komu bæði til álita við val á besta sjúkratilfelli árgangsins.
Í hléi var boðið uppá kaffi og afmælisköku undir ljúfum tónum von Willebrand bandsins undir stjórn Michaels Clausen barna-ofnæmislæknis. Að því loknu tóku við fjörugar pallborðsumræður með ritstjórum síðustu ára og núverandi ritstjórn Læknablaðsins. Halla Viðarsdóttir úr ritstjórn stjórnaði vel heppnuðum umræðum um efnið: Þarf íslenskt læknablað?
Afmælismálþinginu lauk síðan með pöbbkviss um íðorðasafnið undir dyggri stjórn Sæmundar Rögnvaldssonar úr ritstjórn sem var virkilega skemmtilegt og fræðandi.