02. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Framtíðarsýn, áskoranir og mikilvægi ritstjórnarlegs sjálfstæðis Læknablaðsins
Læknablaðið hefur verið órjúfanlegur hluti af íslenskri læknasögu frá því að fyrsta tölublaðið kom út árið 1915. Með óslitinni útgáfu í 110 ár hefur blaðið þjónað sem vettvangur fræðilegra greina, umræðna, upplýsinga og viðtala úr heimi læknastéttarinnar hjá fámennri þjóð. Ritstjórnir blaðsins hafa í gegnum tíðina lagt mikla hugsjónavinnu í að viðhalda gæðum þess og þróa það í takt við tímann. Í viðtali Læknablaðsins við fjóra fyrrverandi og núverandi ritstjóra kemur fram saga blaðsins undanfarna áratugi, áskoranir og mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði þess og fagleg vinnubrögð.
Læknablaðið var stofnað árið 1915 af Guðmundi Hannessyni, sem jafnframt var fyrsti ritstjóri þess. Guðmundur lagði grunninn að þeirri hugsjón að blaðið væri vettvangur fyrir íslenska lækna til að miðla fræðilegum upplýsingum og leggja sitt af mörkum til læknavísinda. Í gegnum tíðina hafa margir ritstjórar staðið vaktina við að þróa og efla blaðið í síbreytilegu umhverfi.
Alþjóðlegur gagnagrunnur markaði tímamót
Jóhannes Björnsson, ritstjóri á árunum 2005–2010, lýsir hvernig honum tókst, með aðstoð tengslanets síns, að koma Læknablaðinu inn á alþjóðlegan gagnagrunn, PubMed. „Það var heilmikil vinna,“ segir Jóhannes, „þar sem ekki var mikið hlustað á íslenska lækna erlendis á þeim tíma.“ Hann rifjar einnig upp að mest gefandi við ritstjórastarfið hafi verið samstarfið við aðra í ritstjórn, sem allir gáfu sér tíma í frá annasömu starfi við heilbrigðisþjónustu. Jóhannes bendir á að það hafi tekið tíma að breyta vinnulagi og venjum. „Við áttum stundum erfitt með að finna ritrýna og sjálfboðaliðar í ritstjórn lögðu ómælda vinnu í blaðið. Það var mikið hugsjónastarf hjá góðu fólki,“ segir hann.
Sjálfstæði ritstjórnar lykilatriði
Engilbert Sigurðsson, ritstjóri á árunum 2011–2016, leggur áherslu á mikilvægi sjálfstæðis ritstjórnar. „Það skiptir öllu máli að ritstjórnin geti sjálf ákveðið hvað fer í blaðið og hverjir sitja í stjórn á hverjum tíma,“ segir hann.
Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, núverandi ritstjóri, frá lok ársins 2020, og fyrsta konan til gegna því starfi, tekur undir að sjálfstæði ritstjórnar sé mikilvægasti þátturinn í starfsemi Læknablaðsins. Þrátt fyrir að félagið gefi út blaðið, tekur hún fram að það ráði ekki innihaldi þess. Hún segir að ákveðnir núningsfletir hafi verið til staðar þegar hún tók við, en það hafi tekist að tryggja að blaðið hafi vatnsheld skil milli ritstjórnar og Læknafélagsins. „Við viljum sem ritstjórn ákveða hvað fer í blaðið og hvað ekki,“ segir hún. Að hennar mati hefur verið lykilatriði að halda góðu sambandi við bæði félagsmenn og erlenda kollega, sérstaklega þegar smæð íslenska læknasamfélagsins gerir það á köflum erfitt að fá fólk til að skrifa og ritrýna greinar. „Við höfum lagt áherslu á að fá unga lækna til að birta greinar og tókum á afmælismálþingi nú í ár, upp á þeirri hefð að veita verðlaun fyrir bestu vísindagreinina og sjúkratilfellið á síðasta árgangi til að hvetja þá áfram.“
„Þegar við héldum upp á 100 ára afmæli blaðsins í Iðnó, áttum við samtal um framtíð þess,“ segir Engilbert. Hann bendir á að það sé mikilvægt að byggja traust innan ritstjórna og vinna að stöðugri þróun blaðsins.
Tækni og þróun blaðsins
Magnús Gottfreðsson, ritstjóri á árunum 2017–2020, nefnir að tækni og breytingar á miðlun upplýsinga hafi haft mikil áhrif á blaðið. „Við gerðum lesendakannanir til að kanna hug lesenda til blaðsins og settum inn nýja liði, svo sem „lipra penna“ og „dagur í lífi læknis“ til að tryggja gott jafnvægi meðal fræðilega hlutans og þess efnis sem er meira á persónulegu nótunum. Jafnframt hófum við útgáfu hlaðvarpa sem hafa síðan haldið áfram að dafna,“ segir hann. Hann telur að blaðið hafi einnig mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að veita nauðsynlegt aðhald. Magnús bendir á að breytingar í hinum alþjóðlega útgáfuheimi hafi gert það að verkum að fagfélög hafi í vaxandi mæli selt tímarit sín til stórra forlaga. „Þetta er áhyggjuefni,“ segir hann. „Upplýsingar sem ættu að tilheyra almenningi, og almenningur hafi í raun oft þegar greitt í formi skatta, eru að verða að viðskiptatækifærum og rándýrri söluvöru, sem er mjög miður.“
Framtíð Læknablaðsins
Læknablaðið er gefið út mánaðarlega í hátt í 2000 eintökum og dreift til lækna, heilbrigðisstofnana, fjölmiðla og Alþingis. Ritstjórar blaðsins eru sammála um að mikilvægt sé að standa vörð um sjálfstæði þess og tryggja gæði útgáfunnar. Með áherslu á nýsköpun, samstarf og virðingu fyrir hefðum blaðsins sem hafa þróast á undanförnum áratugum er vonast til að það muni áfram þjóna íslenskum læknum og samfélaginu um ókomin ár.