02. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargrein
Er skipulag bæja ennþá heilbrigðismál? Lilja Sigrún Jónsdóttir
Þarfir fólks í manngerðu umhverfi hafa verið þekktar um langt skeið og hefur skipulag bæja og bygginga miðað að því að híbýli séu örugg og heilnæm fyrir íbúa; þurfa meðal annars að þola jarðskjálfta af þeim styrk sem hér eru algengir, svo dæmi sé tekið. Ekkert slíkt gerist af sjálfu sér, heldur er mælt fyrir um það í skipulagslögum og byggingareglugerðum. Fagurfræði, útsýni og nálægð við græn svæði eru einnig eftirsóknarverðir þættir, en misjafnt hve miklu landi er ráðstafað til að gera ráð fyrir slíku þegar land er skipulagt undir byggð. Byggingarland er takmörkuð auðlind og dýrt að byggja varanlegar byggingar, enda líftími bygginga almennt talinn í áratugum. Það er liðin sú tíð að endurbyggja þurfi hús reglulega eins og þekktist þegar torfbæir voru hér algengustu híbýli.
Í sögulegu samhengi þá gerði Guðmundur Hannesson læknir skipulag bæja að heilbrigðismáli með þátttöku í umræðu samtíma síns með riti sínu Um skipulag bæja árið 1916, sem var fylgirit með Árbók Háskóla Íslands. Umfjöllunin var framsýn, tók mið af hnattstöðu Íslands og varaði Guðmundur við að byggja svo hátt eða þétt að dagsbirta næði ekki til allra íbúða. Sýndi hann í riti sínu hvernig mismunandi staðsetning og afstaða bygginga gat haft úrslitaáhrif á hvernig birta nýttist í byggingum. Hann lagði einnig áherslu á að íbúar hefðu tækifæri til garðræktar. Til þessa alls var litið í eldri hluta Reykjavíkur sem var byggður eftir þetta, meðal annars við Hring-braut og í Þingholtum þar sem garðar framan við hús og staðsetning þeirra á lóðum tók mið af því að hús skyggðu hvorki á garða né aðlæg hús. Nýjasta aðalskipulagi Reykjavíkur AR2040 er lýst sem grænu skipulagi sem boðar öflugt borgarsamfélag. Það skuli byggja á blandaðri byggð, virkum samgöngum og fjölbreyttu atvinnulífi. Skuggavarp er þar lítið rætt og raunar þannig að samhliða þéttingu munu íbúar mögulega þurfa að þola aukið skuggavarp á sínum lóðum. Í lýsingu á grænu borginni er áhersla á gæði útivistarsvæða og möguleika á borgarbúskap.
Þegar 100 ár voru liðin frá útgáfu bókar Guðmundar var hún endurútgefin með umfjöllun fagfólks á sviði skipulags og heilbrigðis enda flest þar í fullu gildi og þarft að halda erindinu á lofti. Hin síðari ár hefur borið við að byggt sé þéttar og hærra og því fylgt á stundum aðstæður fyrir óæskilegt skuggavarp á íbúðir fólks. Þessi þróun hefur haldist í hendur við þéttingu byggðar þar sem áherslan hefur verið á að fá fleiri íbúðir á hverri lóð. Hættan er sú að þessi þróun hafi skert lífsgæði væntanlegra íbúa ýmist í þeim íbúðum sem byggðar eru eða í nágrenninu. Jaðaráhrif af slíku geta verið af fjölbreyttum toga, erfitt er að bæta umhverfi með gróðri þar sem skuggavarp er mikið og því geta fylgt neikvæð áhrif á velferð fólks.
Þekking á áhrifum umhverfis hefur þó aukist jöfnum skrefum, hvernig fjarlægð frá grænum svæðum hefur áhrif á heilsu. Til að geta haft græn svæði nálægt híbýlum þá þarf birta að komast að jörðu og til dæmis er sjálfgefið að skuggavarp á hús getur hindrað möguleika á ræktun.
Það er brýnt að umræður um mikilvægi birtu séu í stöðugu samtali milli skipulagsaðila og þeirra sem vilja byggja nýtt húsnæði, enda er skuggavarp á íbúasvæði ekki síður lýðheilsumál en skipulagsmál. Hvort fara þurfi fram sérstakt lýðheilsumat skal ósagt látið og mögulega þarf að líta til birtu sem takmarkaðrar auðlindar sem þarf að varðveita. Mögulega vantar staðla eða viðmið um hve mikla birtu að lágmarki við ættum að tryggja í íbúðum.
Mikilvægi dagsbirtu og sólar í huga þjóðarinnar sést best þegar endurkomu hennar er fagnað með sólarkaffi ár hvert á þeim hlutum landsins sem missa sjónlínu á sól yfir hluta vetrar vegna hárra fjalla. Það er dæmi um hve dýrmæta tengingu íbúar hafa við náttúrulegt umhverfi. Í manngerðu umhverfi þéttbýlisstaða er mikilvægt að skipulagsákvarðanir séu ætíð teknar með áhrif þess á gott mannlíf í huga.
Heimildir
Theodórsdóttir ÁH, Svavarsson S (ritstj). Um skipulag bæja. Aldarspegill. Skipulagsstofnun, Hið Íslenska Bókmenntafélag, Reykjavík, 2016.
Aðalskipulag Reykjavíkur AR2040 (Reykjavík City Municipal Plan). https://reykjavik.is/adalskipulag sótt 20.01.2025.