02. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Doktorsvörn við Gautaborgarháskóla. Marta Berndsen

Marta Berndsen varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við Gautaborgar-háskóla þann 6. desember síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið Færslurannsóknir á strómaæxlum í meltingarvegi (Translational aspects of Gastrointestinal stromal tumors).

Andmælandi var Robert Bränström, dósent við Karolinska Institutet. Leiðbeinendur voru Stefan Lindskog, dósent við Gautaborgarháskóla, Andreas Muth, dósent við Gautaborgarháskóla, Erik Elías, dósent við Gautaborgarháskóla og Anders Ståhlberg, prófessor við Gautaborgarháskóla.

Marta lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Hún lauk sérfræðinámi í almennum skurðlækningum frá Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg 2019. Hún hefur starfað sem skurðlæknir á innkirtla- og sarkmeina-skurðdeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins síðan hún varð sérfræðingur. Doktorsnám hennar við Gautaborgarháskóla hófst 2019.

Í ritgerð sinni hefur hún skoðað gögn um sjúklinga með strómaæxli í meltingarvegi (GIST) frá Stockhólmi, Gautaborg og Ósló til að komast að því hvaða sjúklingar þurfa eftirfylgni eftir aðgerð. Það kom í ljós að hættan á endurkomu hjá lág-áhættu GIST er mjög lítil og gildandi klíniskar leiðbeiningar dregnar í efa um að allir sjúklingar með GIST þurfi tíða og langvarandi eftirfylgni með tölvusneiðmyndum. Það getur valdið streitu og útsett sjúklinga fyrir óþarfa geislun. Einnig kannaði hún hvort hægt sé að greina frítt erfðaefni í blóðrás hjá GIST-sjúklingum, sem og að meta möguleika á tveimur meðferðaraðferðum sem hafa hingað til ekki verið notaðar hjá þessum sjúklingahópi.

Hvað segir nýdoktorinn?

 Af hverju vildir þú verða læknir?

Ég ætlaði aldrei að verða læknir sem barn. Pabbi er skurðlæknir og mér fannst hann vinna allt of mikið. Í menntaskóla var ég að spá í efnafræði eða verkfræði. Ég tók mér smá pásu í menntaskóla og fór í hálft ár til Guatemala og var að vinna á heimili fyrir HIV/AIDS-veik börn. Eftir það varð ekki aftur snúið ...

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Það er miserfitt. Ég byrjaði í náminu 2019 og fyrstu árin fékk ég fáa styrki og fékk bara fjórar vikur á ári í rannsóknartíma frá klíníkinni. Þannig að vinnan var aðalega unnin á kvöldin og um helgar. Núna í haust hef ég verið með 12 vikna rannsóknartíma og það hefur verið mjög ljúft þó að það hafi verið smá stress í sambandi við vörnina.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Hækka laun allra heilbrigðisstétta svo að menntuðu hjúkrunarfræðingarnir/sjúkraliðarnir okkar kæmu til vinnu á Landspítala. Þá væri hægt að opna skurðstofur og deildir sem væri betra fyrir alla.

 Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Vera með börnunum mínum, sambýlismanni og hundinum okkar. Finnst líka gaman að fara út að hlaupa í skóginum, helst með íslensku læknastelpunum. Prjóna og syngja í kórnum mínum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica