02. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Betri vinnutími lækna á réttum forsendum. Steinunn Þórðardóttir
Fyrstu mánuðir nýs árs verða sérlega annasamir hvað varðar undirbúning að innleiðingu betri vinnutíma lækna sem taka mun gildi 1. apríl næst komandi. Í nýafstöðnum samningaviðræðum Læknafélags Íslands (LÍ) við íslenska ríkið var sameiginlegur skilningur aðila að fara þurfi yfir verkefni lækna með það fyrir augum að draga úr sóun á tíma þeirra svo raunhæft sé að stytta vinnuvikuna. Eitt af því sem getur falist í þessu er flutningur á verkefnum frá læknum til annarra heilbrigðisstétta. Öllum er ljóst að ekki verður ráðist í slíka vegferð nema í fullri samvinnu við læknastéttina. Því miður hefur margoft brunnið við að tillögur um flutning verkefna frá læknum verða til í íslenskri stjórnsýslu án nokkurs samtals við lækna. Í yfirlýsingu World Medical Association um „task-shifting“ er varað sérstaklega við þessu og þung áhersla lögð á að læknar og félög þeirra séu undantekningalaust höfð með í ráðum í slíkum tilvikum. Þetta á sérstaklega við ef vinnan snýr að breytingum á lögum og nýjasta dæmið um samráðsleysi eins og hér er lýst er hvítbók um lyfjafræðilega þjónustu í apótekum sem gefin var út á vegum heilbrigðisráðuneytisins í desember 2024. Í hvítbókinni er meðal annars lagt til, að lyfjafræðingar geti ávísað lyfjum og endurnýjað lyf í vissum tilvikum og að apótek verði einn af fyrstu viðkomustöðunum í heilbrigðiskerfinu. Í hvítbókinni kemur fram að því verkefni sé sérstaklega ætlað að létta álagi af heilsugæslu og bráðadeildum með því að beina sjúklingum með minniháttar vandamál til lyfjafræðinga. Með þessu geti lyfjafræðingar metið, ráðlagt og eftir atvikum ávísað lyfjum fyrir einfaldari sjúkdóma og minniháttar heilsufarsvandamál, í stað þess að sjúklingar þurfi að fara til læknis. Enginn læknir kom að vinnu við hvítbókina, þótt umrædd greining sjúkdóma, lyfja-ávísanir og -endurnýjanir séu hluti af verkefnum lækna í dag. Þetta skýtur verulega skökku við og er því miður ekki eina dæmið um tillögur sem sagðar eru eiga að létta álagi af læknum en eru unnar án nokkurs samráðs við stéttina. Lyfjaávísanir og greining sjúkdóma, ásamt öðrum læknisverkum, hafa ekki verið meðal þess sem læknar hafa sjálfir óskað eftir að aðrir taki að sér, enda eru sjálf læknisverkin ekki vandamál í starfsumhverfi lækna. Markmiðið getur varla verið að útvista læknisþjónustu, sem sannarlega krefst læknismenntunar, til annarra heilbrigðisstétta, á meðan læknar sitja áfram uppi með ýmis ósérhæfð verkefni sem enginn hefur áhuga á að létta af þeim.
Ef betri vinnutími lækna á að vera raunhæfur og stjórnkerfinu er alvara með því að draga úr sóun á tíma lækna, er mun nærtækara að bæta starfsumhverfið sem læknar vinna í en að taka af þeim læknisverk. Það að flytja verkefni sem krefjast læknismenntunar til annarra heilbrigðisstétta á ávallt að vera algjört neyðarúrræði og eru greiningar sjúkdóma og ávísun lyfja þar á meðal. Frekar ætti að horfa á þætti eins og rafrænt starfsumhverfi lækna, sem mætti stórbæta og spara þannig ómældan tíma. Einnig eru veruleg sóknarfæri fólgin í að draga úr skriffinnsku og bæta verkferla. Aðrar heilbrigðisstéttir geta í mörgum tilvikum tekið að sér verkefni sem nú eru á hendi lækna, en slíkar breytingar ættu að vera á forræði læknanna sjálfra. Sé þetta ekki gert á faglegum forsendum er hætta á að breytingarnar grafi undan sambandi læknis og sjúklings, þjónustan verði brotakennd og óskilvirk, skortur verði á eftirfylgni og óljóst sé hver ber ábyrgð á fylgikvillum og óvæntum atvikum sem ávallt geta komið upp við meðferð sjúklinga.
LÍ bindur miklar vonir við samtalið við stjórnvöld um þessi atriði á nýju ári, enda setja nýundirritaðir kjarasamningar mikinn þrýsting á að vel verði farið með tíma lækna og að sérþekking þeirra fái notið sín. Landspítalinn hefur þegar stigið stór skref í þessari vegferð með verkefninu um starfsáætlanir lækna, sem unnið er í samvinnu við LÍ og -Félag sjúkrahúslækna. Það verkefni mun tvímælalaust fá byr undir báða vængi í tengslum við betri vinnutíma lækna og ætti að geta nýst sem fyrirmynd fyrir heilbrigðisstofnanir um land allt.