01. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Minningarorð: Oddur Árnason, 1921-2013

Læknir í Gautaborg

Látinn er í Gautaborg Oddur Árnason læknir, 92 ára að aldri. Hann fæddist að Holtsmúla í Landmannahreppi og ólst þar upp. Hann fór seint til náms og tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1946. Ég varð ekki var við að hann byrjaði í læknadeild það haust en ég hitti hann í fyrsta hluta í læknisfræði einu eða tveimur árum seinna.

Oddur lauk kandídatsprófi í læknisfræði 1954, fór það sumar til Gautaborgar og bjó þar til æviloka. Oddur gekk í hjónaband 1948 og kvæntist Huldu Ágústsdóttur hárgreiðslumeistara. Ég þekkti til hennar því faðir hennar var verksmiðjustjóri Rafmagnsveitunnar við Elliðaár. Hulda rak ásamt öðrum stóra hárgreiðslustofu í Reykjavík og seldi hana þegar þau fluttu til Gautaborgar.

Þegar Oddur kom til Gautaborgar hafði ég verið þar í eitt og hálft ár og hafði þá fengið fasta leiguíbúð. Þar sem Guðrún kona mín var heima að ljúka kandídatsprófi bauð ég Oddi og Huldu að búa með mér í íbúðinni í hálft ár. Þau höfðu ekkert húsnæði og þáðu boðið. Oddur og Hulda voru gott sambýlisfólk. Ég var með bíl sem var þægilegt fyrir Odd því hann var þá samferða mér í vinnuna á hverjum morgni.

Á þessum árum var ekkert sjónvarp og maður sat heima á kvöldin, ýmist við lestur eða skriftir því þá var tengslanetið í gegnum bréf og ég þurfti að skrifa eitt til tvö bréf í hverri viku auk þess sem ég þurfti að lesa mér til í mínu fagi.

Þennan vetur fórum við saman eina ferð til Kaupmannahafnar því Huldu langaði til að hitta bróður sinn sem var þar í brúðkaupsferð með Gullfossi með seinni konu sinni. Jólin 1954 fórum við og heimsóttum Tryggva Þorsteinsson sem þá var læknir á litlu sjúkrahúsi í Kungsbacka, litlum bæ skammt utan við Gautaborg.

Oddur byrjaði strax þegar hann kom til Gautaborgar að ganga á deildir á Sahl-grenska sjúkrahúsinu. Hann gekk fyrst á þær deildir sem hann þurfti til að fá lækningaleyfi á Íslandi. Það tók hann eitt ár að ljúka því.

Fljótlega eftir að ég kynntist Oddi komst ég að því að hann virtist ekki ætla sér að fara til Íslands eftir framhaldsnám. Hann stefndi greinilega að því að vera í Gautaborg og verða þar heila- og taugaskurðlæknir, sem þótti ekki fýsilegt þá því það leit ekki út fyrir að stofnuð yrði taugadeild á Íslandi á næstunni.

Oddur og Hulda eignuðust þrjú börn á árunum 1955-1963. Oddur hafði hugsað sér að þau tækju upp ættarnafn og skírði hann þau öll Lunan. Það nafn fékk hann af bóndabæ afa síns og nafna því hann bjó að Lunansholti í Holtum. Börnin hafa þó ekki notað það sem ættarnafn heldur skrá sig Árnason.

Ég fór heim í ársbyrjun 1956. Árið 1959 þegar við Guðrún höfðum komið okkur sæmilega fyrir í Reykjavík fannst okkur að við þyrftum að fara aftur út og læra meira. Þá skrifaði ég Oddi og spurði hvort hann vildi koma heim í 4-6 mánuði og taka að sér stöðu mína á Slysavarðstofu Heilsuverndarstöðvarinnar og praxís minn í Reykjavík. Ég hafði fengið loforð Vilmundar landlæknis fyrir því að hann fengi bráðabirgðalækningaleyfi hér því hann hafði ekki lokið að fullu kandídatsári og ekki verið 6 mánuði úti á landi eins og þá var skylda. Oddur tók þessu, kom heim og leysti mig af í nokkra mánuði frá júlí 1959. Ég lánaði honum bíl minn, hann var bíllaus og þurfti að vitja sjúklinga minna. Þá var meira um heimsóknir til sjúklinga en nú er. Ég held að Oddi hafi ekki líkað vel að starfa í Reykjavík. Að minnsta kosti breytti þessi dvöl hans ekki afstöðu hans til að koma aftur heim.

Oddur reyndi fljótt að fá aðstoðarlæknisstarf á heila- og skurðdeildinni í Gautaborg. Hann starfaði einnig í nokkur ár á gjörgæslu- og svæfingadeildinni þar. Með tímanum fékk hann aðstoðarlæknisstarf á heila- og skurðdeildinni. Þegar kom fram á árið 1962 var hann búinn að vera um 5 ára tíma á þeirri deild sem aðstoðarlæknir. Hann fékk lækningaleyfi í Svíþjóð 1962 og á Íslandi ári síðari. Sérfræðingsleyfi í tauga- og heilaskurðlækningum í Svíþjóð fékk hann 1975. Oddur var síðustu árin aðstoðaryfirlæknir á heila- og taugaskurðdeild Sahl-grenska þar til hann hætti störfum vegna aldurs á árinu 1987.

Oddur keypti sér húsnæði í Gautaborg á Fredriksdahlsgatan og bjó þar í mörg ár. Síðan var hann í leiguíbúðum Sahlgrenska á Gullheiðinni og keypti síðan íbúð þar. Við Guðrún hittum Odd og Huldu síðast þegar við vorum í Gautaborg vorið 2000. Hann var þá hættur störfum og var fyrst og fremst að sinna esperantó sem hann hafði lært á Íslandi ungur maður þegar það var kennt í ríkisútvarpinu eins og ýmis önnur mál. Þeirri kunnáttu hélt hann við, og betur eftir að hann fór á eftirlaun. Eftir að börnin fóru að heiman lærði Hulda að mála með olíulitum og við sáum mörg verka hennar í heimsókninni.

Við Oddur skiptumst ekki á bréfum síðustu árin en sendum jólakort á hverju ári. Jólin 2011 kom ekki jólakort frá Oddi svo ég hringdi hann. Hann sagði mér þá að hann hefði fengið titring í hendur um það leyti sem hann varð níræður og gæti ekki skrifað. Við því væri engin önnur lækning en bolli af sterku kaffi eða rauðvínsglas. Eftir þetta samtal heyrði ég ekki í Oddi og las um andlát hans í tilkynningu í Morgunblaðinu.

Oddur Árnason er eini íslenski læknirinn sem ég veit um sem starfaði á háskólasjúkrahúsi í Svíþjóð alla sína starfsævi að undanskildum fjórum mánuðum á Íslandi og 6 mánuðum á skurðdeild utan Sahl-grenska, en það þurfti hann að gera til að fá sænskt lækningaleyfi. Þegar ég var í Svíþjóð komust menn yfirleitt ekki á háskóladeildirnar í launuð störf fyrr en eftir mörg ár á öðrum sjúkrahúsum og langt komnir í sérgrein. Oddi tókst með þrautseigju sinni að komast inn á heila- og skurðdeildina og enda þar í yfirlæknisstarfi.

Við Guðrún sendum börnum og afkomendum Odds hugheilar samúðarkveðjur.

Páll Sigurðsson

fyrrum ráðuneytisstjóriÞetta vefsvæði byggir á Eplica