12. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Með eða á móti - um Landspítalann


Landspítalinn í Fossvogi í upphafi aðventu 2013.

Framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu ræðst á aðventunni. Þetta eru stór orð en líklega nærri sanni ef marka má orð forstjóra Landspítalans. Loforð um auknar fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins og sérstaklega Landspítalans í aðdraganda Alþingiskosninganna í vor kveiktu vonir um viðreisn á næsta ári sem síðan urðu að engu þegar fjárlagafrumvarp ársins 2014 var lagt fram í byrjun október. „Misskilningur“ var það fyrsta sem Páll Matthíasson forstjóri sagði um fjárlagafrumvarpið og gefin hafa verið fyrirheit um leiðréttingar og auknar fjárveitingar til spítalans. Prófessorar, yfirlæknar, framkvæmdastjórar og forstjóri Landspítalans hafa sagt skoðun sína umbúðalaust á því hvert stefnir að óbreyttu.

Allir eru á einu máli um augljóst mikilvægi heilbrigðiskerfisins en ekki virðist jafn augljóst hvernig eigi að viðhalda því, endurnýja og manna. „Læknar greiða atkvæði með fótunum,“ segir Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar Læknafélags Íslands um afstöðu fjölda lækna til launakjara. Þingmenn aftur á móti munu greiða atkvæði sitt sitjandi með höndunum, hvort sem þeir eru með eða á móti fjárlagafrumvarpinu 2014.Þetta vefsvæði byggir á Eplica