11. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Auknar fjárveitingar fremur en fögur orð - um aðalfund LÍ 2013

Aðalfundur Læknafélags Íslands fór fram í Hlíðasmára dagana 10. og 11. október. Þrátt fyrir tvísýnt útlit um framtíð heilbrigðisþjónustu á landinu var ekki búist við miklum átakafundi; læknar sammála að mestu um ástandið og fljótlegt að koma sér saman um ályktanir þess efnis. Nokkur eftirvænting var vegna ávarps hins nýja heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíusssonar, ekki síst í ljósi nýframkomins fjárlagafrumvarps. Þá var einnig búist við því að nokkrar umræður yrðu um ályktun varðandi framtíð Lækningaminjasafnsins í Nesi en þar eru ekki allir sammála um hvert hlutverk Læknafélaganna tveggja skuli vera.


Heilbrigðisráðherra tekur við yfirlýsingu frá 141 lækni starfandi erlendis 
um þungar áhyggjur af ástandi íslenska heilbrigðiskerfisins.


Frummælendur á málþinginu Læknar fimm árum eftir hrun: Kristján
Guðmundsson háls-, nef- og eyrnalæknir, Friðbjörn R. Sigurðsson krabba-
meinslæknir, Þórarinn Ingólfsson heimilislæknir, Eyjólfur Þorkelsson læknir
á Egilsstöðum og Hrönn Ólafsdóttir læknir á Landspítala.


Barnalæknarnir Michael Clausen og Ingólfur Einarsson leita í smiðju til
Jóhanns Heiðars Jóhannssonar meinafræðings og íðorðasmiðs.


Heilbrigðisráðherrann kom víða við í ávarpi sínu (velferdarraduneyti.is/raedur-og-greinar-KTHJ-radherra/nr/34166) og boðaði frestun framkvæmda við nýjan Landspítala, en kvaðst vongóður um að sá niðurskurður til Landspítalans sem fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp leggur til yrði að einhverju leyti dreginn til baka áður en frumvarpið yrði að lögum. Hann gerði einnig að umtalsefni möguleika á aukinni einkavæðingu ákveðinna þátta heilbrigðisþjónustunnar í formi verktöku en sagði jafnframt: „Ég ætla mér ekki að opna fyrir einhverja krana með handahófskenndri verktöku. Það verður að vera einhver skynsemi í framkvæmdinni. Ríkið á að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustu í landinu líkt og lög kveða á um en það er alveg hægt að fela einstaklingum og fyrirtækjum að sinna ákveðnum þáttum fyrir hönd ríkisins.”

Orð ráðherrans vöktu vonir um að í heilsugæslunni yrði einnig opnað fyrir möguleika til einkareksturs: „Fjölbreyttari rekstrarform koma einnig til greina þar sem við sjáum að rekstur einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið góða raun, sömuleiðis starfsemi sjálfstætt starfandi heimilislækna og eins virðist vel hafa tekist til með rekstur þessarar þjónustu í höndum sveitarfélaga líkt og á Akureyri og á Hornafirði.”



 Þórarinn Ingólfsson formaður Félags íslenskra heimilislækna í ræðustóli.

Neikvæð umræða orsök óánægju

Ráðherrann viðraði einnig þá skoðun sína að neikvæð umræða um heilbrigðiskerfið, og þá sérstaklega Landspítalann, hefði átt sinn þátt í skapa það andrúmsloft óánægju sem ríkti um stofnunina.

„Það hefur verið heldur stormasamt í kringum heilbrigðismálin að undanförnu, stóru orðin hafa ekki verið spöruð og umræðan að mínu viti verið heldur lausbeisluð á köflum. Ég geri ekki lítið úr þeim vanda sem við er að fást en ég óska eftir málefnalegri umfjöllun og legg áherslu á að við tökumst á við þessi viðfangsefni af skynsemi með lausnir að leiðarljósi.”

Síðar sagði ráðherrann: „Eins og ég sagði í upphafi hafa mér þótt umræður um heilbrigðismál og vanda heilbrigðiskerfisins nokkuð glannalegar á köflum og það finnst mér ekki síst þegar rætt er um landflótta fagfólks og launamál. (… ) Það er ekkert nýtt að íslenskir læknar starfi erlendis og við vitum að margir sem fara í sérfræðinám úti ílengjast þar – sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Auðvitað viljum við halda í lækna og annað fagfólk og laða það til starfa og það tel ég að við getum gert með ýmsu móti.”

Ekki var laust við að sumir fundarmanna tækju brýningu ráðherrans um ábyrgari umræðu óstinnt upp og töldu þar jafnvel talað niður til sín þar sem ábyrg afstaða lækna byggðist á því að lýsa ófremdarástandi af hreinskilni og fagmennsku enda væri ekki hægt að bæta ástand með jákvæðum lýsingarorðum, þar þyrftu aðgerðir og auknar fjárveitingar að koma til fremur en fögur orð.

Ráðherrann kallaði eftir samstarfi við samtök lækna og kvaðst leggja mikið upp úr sérþekkingu þeirra og kunnáttu. Var gerður góður rómur að þeim orðum en í inngangsávarpi Þorbjörns Jónssonar formanns Læknafélags Íslands kom reyndar glöggt fram að lítt hefur verið skeytt um aðvaranir og ráðleggingar læknasamtakanna undanfarin ár. Var margítrekað af fundarmönnum að núverandi ástand væri ekki nýtilkomið heldur vandi sem til staðar hefur verið um allangt skeið. Sumir tóku jafnvel svo djúpt í árinni að segja ástandið mun verra en lýst hefur verið og væri það vegna ábyrgðartilfinningar lækna gagnvart almenningi svo ekki skapaðist ótti í samfélaginu.  Í þeim skilningi væri umræðan jákvæðari en hún annars væri, hefði ekkert verið dregið undan.

Í svari við fyrirspurn um hvaða möguleika ráðherrann sæi til bættra kjara lækna, kvaðst hann ekki vilja tjá sig um það þar sem hann hefði ekki aðkomu að samningum milli ríkisins og lækna og kjarasamningar framundan á nýju ári. 

Í ályktun aðalfundarins um heilbrigðismál segir meðal annars:

Aðalfundurinn lýsir yfir miklum vonbrigðum með fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp og þykir ljóst að við gerð þess hefur eindregin ósk þjóðarinnar um að setja heilbrigðismálin í forgang verið hunsuð. Fundurinn lýsir skýlausri ábyrgð á vanda heilbrigðiskerfisins á hendur stjórnvöldum.

Áður en ráðherrann hvarf á braut afhenti Þorbjörn Jónsson honum yfirlýsingu 141 læknis búsettum erlendis, sem ýmist eru í sérfræðinámi eða hafa lokið því. Þar segir meðal annars: „Við óskum eftir skýrum línum frá stjórnvöldum hvað varðar þær aðgerðir sem þau hyggjast fara í til bjargar Landspítalanum og íslenska heilbrigðiskerfinu. Fyrir sérfræðilækna er afar erfið tilhugsun að snúa heima í þá óvissu sem nú ríkir.”


  Þétt setinn bekkurinn er heilbrigðisráðherra ávarpaði aðalfundinn.


Snemma beygist krókurinn. Ólöf Birna Margrétardóttir fulltrúi FAL í
stjórn LÍ ásamt dóttur sinni, Margréti Birtu Sigurðardóttur, sem æmti
hvorki né skræmti mikið en ýmist svaf eða drakk allan fundinn.

Staðan fimm árum eftir hrun

Fyrri hluti föstudagsins var lagður undir málþing um afmarkað efni að vanda og að þessu sinni var yfirskriftin Læknar fimm árum eftir hrun – hver er staðan og hvað er til ráða?

Má segja að efni málþingsins hafi verið í beinu framhaldi af umræðum við ráðherrann daginn áður og kom þar margt fram í framsöguerindum og umræðum að þeim loknum. Framsögumenn voru fimm og ræddu efnið útfrá sínu sjónarhorni og vinnuumhverfi. Friðbjörn R. Sigurðsson sérfræðingur á lyflækningasviði Landspítalans gerði grein fyrir stöðu lyflækningasviðsins sem mikið hefur verið í umræðunni undanfarið og reifaði ýmsar hugmyndir til úrbóta. Hrönn Ólafsdóttir deildarlæknir á Landspítalanum ræddi launamál, vinnuaðstöðu og vinnuálag sem almennir læknir mættu þola og rifjaði upp ýmislegt sem Félag almennra lækna hefði lagt til á undanförnum mánuðum til úrbóta án þess að ná eyrum stjórnenda spítalans. Þórarinn Ingólfsson formaður félags íslenskra heimilislækna fór yfir helstu staðreyndir um vanda heilsugæslunnar, meðal annars hversu margir íbúar höfuðborgarsvæðisins  væru án heimilislæknis og hversu marga heimilislækna vantaði til að hægt væri að bæta úr því ástandi.

Eyjólfur Þorkelsson læknir á Heilbrigðisstofnun Austurlands varpaði ljósi á stöðu landsbyggðarinnar og benti á hvað þyrfti til að laða unga lækna til starfa á landsbyggðinni. Kristján Guðmundsson sérfræðingur á Læknastöðinni og formaður samninganefndar LR gerði hækkandi meðalaldur starfandi lækna á Íslandi að umtalsefni en það væri ein birtingarmynd þess að ungir læknar skiluðu sér ekki til starfa nema að hluta að loknu sérnámi erlendis.

Það vakti athygli að Magnús Karl Magnússon prófessor og forseti læknadeildar kvaðst kinoka sér við að ræða jákvæðar hliðar íslenskrar læknisfræði á sviði rannsókna og vísinda. Það mætti túlka sem óraunsæi við núverandi aðstæður en hann minnti á hversu stórkostlegir möguleikar væru á Íslandi til að skipa sér í fremstu röð á sviði ýmissa rannsókna ef hlúð væri að þeim þætti og gætt vel að hlutverki Landspítalans sem rannsókna- og háskólasjúkrahúsi.


Heimilislæknarnir Sigurbjörn Sveinsson og Katrín Fjeldsted ásamt
Þórarni Guðnasyni hjartalækni.


Friðbjörn Sigurðsson í ræðustóli.

Framtíð lækningaminjasafns

Að málþinginu loknu skiptust fundarmenn upp í vinnuhópa sem gengu frá ályktunartillögum sem í kjölfarið voru bornar undir atkvæði fundarins. Gekk það hratt fyrir sig og allar tillögur nær einróma samþykktar þar til kom að ályktun um framtíð Lækningaminjasafns í Nesi. Þar hefur framhald byggingar og umsjár safnsins verið í uppnámi frá því að Seltjarnarnesbær sagði sig frá þríhliða samkomulagi við ríkið og læknafélögin um byggingu og rekstur safnsins. Í kjölfarið spruttu upp hugmyndir meðal lækna um nýtingu húsnæðisins og hlutverk læknafélaganna og var borin upp tillaga á aðalfundinum um að Læknafélag Íslands hefði forgöngu um að tryggja framtíð safnsins. Stjórn Læknafélagsins taldi að með tillögunni væri verið að skuldbinda félagið um of fjárhagslega og bar fram aðra tillögu með almennara orðalagi og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða. Tillagan er svohljóðandi:

Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópavogi 10.-11. október 2013, felur stjórn félagsins að vinna áfram að málefnum lækningaminjasafns í anda fyrri verka og samþykkta félagsins en þannig að fjárhag félagsins og uppbygging og rekstri safns verði með engum hætti blandað saman.

Fyrirfram hafði verið búist við snarpari umræðu um þessar tillögur en raunin varð og þegar ofangreind tillaga hafði verið afgreidd var eftirleikurinn auðveldur. Stjórn félagsins var endurkjörin einróma og að því loknu sleit formaðurinn, Þorbjörn Jónsson, aðalfundinum með þeim orðum að næsti aðalfundur yrði haldinn á sama stað að ári. 

Yfirlýsing lækna erlendis og ályktanir aðalfundarins má sjá í heild sinni á heimasíðu Læknafélags Íslands www.lis.is.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica