10. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Hjálpum Landspítalanum

Það er ekkert nýtt að upp komi erfiðleikar á íslenskum spítölum. Fyrir rúmlega 50 árum var svo komið fyrir sjúkrahúsinu á Akureyri að þar fengust engar nýjar hjúkrunarkonur til starfa. Þær fáu sem voru í starfi voru útbrunnar eftir glórulausan þrældóm og hjúkrunin á staðnum í samræmi við það. Til að leysa vandann voru hjúkrunarnemar skikkaðir til að vinna þarna og sjá um megnið af hjúkruninni. Má nærri geta hvernig kennslan hefur verið, enda töldu þær dagana þar til þær losnuðu úr prísundinni og hétu því að stíga aldrei inn fyrir dyr þeirrar stofnunar aftur! Á röntgendeild spítalans vann þá Ingibjörg Ragnheiður Magnúsdóttir, menntaður íþróttakennari og þekkt fyrir dugnað og stjórnsemi. Hún hafði ákveðið að fara suður til að læra hjúkrun þótt hún væri komin á miðjan fertugsaldur. Forstjóri spítalans var þá Brynjólfur Sveinsson menntaskólakennari og bætti þessu starfi við fulla kennslu. Hann var afi Þorbjörns Jónssonar formanns LÍ. Brynjólfur hafði oft samband við Ingibjörgu þegar fór að líða á námstíma hennar og hvatti hana til að koma norður og taka við stjórn hjúkrunar á spítalanum. Hann vissi sem var að hún hefði taugar til staðarins og lofaði henni öflugum stuðningi stjórnarinnar. Við það var staðið. Hún ákvað að ráða sem flestar úr útskriftarárgangi sínum norður. Markmiðið var að ráða í allar lausar stöður hjúkrunarkvenna og það tókst. Þetta var mikið einvalalið og nánast í einu vetfangi varð hjúkrunin á FSA með því besta sem þekktist á landinu og „mórallinn“ fór úr núlli í hæstu hæðir. Ekki spillti að þetta voru flestar fjallmyndarlegar stúlkur, greindar og skemmtilegar. Ingibjörg leigði handa þeim stórt og glæsilegt einbýlishús rauðmálað og í göngufæri við spítalann. Fékk það strax nafnið „Rauða myllan“. Ég var þarna miðhlutastúdent á lyfjadeild og ekki í neinum vandræðum með hvernig frítímanum skyldi eytt. „Those were the days my friend . . . “ og þeir gleymast seint!

Ég held að vandinn þarna hafi verið síst minni en sá sem núna er uppi á lyfjadeildinni. Helst vildi ég senda þá Björn forstjóra og Ólaf lækningaforstjóra í endurmenntun á 6. árið í læknadeild. Þá myndu þeir koma með árganginn eins og hann leggur sig inn á spítalann í vor. En það er þó líklega ekki raunhæft! Það er vissulega gleðilegt að nýskipaður heilbrigðisráðherra virðist skilja hvað hér sé í húfi, vanda sem þurfi að taka á en ekki að breiða yfir. Maður verður að treysta því að unglæknar og læknanemar á lokaári hafi verið með í ráðum um úrbætur og séu tilbúnir að ráða sig á spítalann og hugleiða framhaldsnám í lyflækningum gangi þær eftir. Háskólaspítali þar sem unglæknar vilja helst ekki starfa á ekki tilverurétt. Hins vegar er það áhyggjuefni að nokkur trúnaðarbrestur virðist hafa orðið milli lækna spítalans og stjórnenda hans. Það er reyndar ekki í fyrsta sinn því það varð einnig fyrir nokkrum árum þegar aðrir stjórnuðu. Það hlýtur öllum að vera ljóst að stjórnendur spítala verða að hafa læknana í liði með sér, annars er voðinn vís. Nú held ég að flestir séu mér sammála um að allir þessir stjórnendur hafi bæði gáfur og mannkosti í ríkum mæli. Hvernig má það þá vera að þessi staða kemur upp, ekki bara einu sinni heldur tvisvar? Fyrir því eru sjálfsagt margar ástæður, en mér dettur í hug ein sem hægt væri að bæta úr. Stjórn og skrifstofulið spítalans hefur aldrei verið undir sama þaki og annað starfsfólk. Ég man svo langt að skrifstofan var niðri á Klapparstíg, nokkuð langt frá spítalanum. Síðan fluttist hún nær, á Rauðarárstíginn, og loks enn nær, á Eiríksgötuna, aðeins nokkra metra frá aðalbyggingunni.

En því miður geta þessir fáu metrar reynst gjá sem erfitt er að brúa. Meðan ég vann á Landspítalanum voru tvö stór hringborð í matsalnum, sem læknarnir lögðu venjulega undir sig. Kannske var það ekki alltof heppilegt. Margir hafa kvartað undan því að læknar hafi tilhneigingu til að einangra sig frá öðru starfsfólki. Við þessi borð voru oftast fjörugar umræður og ekki þagað yfir vandamálum. Fyrir kom að forstjóri eða lækningaforstjóri sætu við þessi borð, en það var ekki  oft. Ég minnist þess heldur ekki að starfsfólk skrifstofunnar sæist oft í matsalnum. Seinna vann ég hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar starfaði yfirstjórnin og skrifstofufólkið undir sama þaki og við hin. Læknarnir „áttu“ ekkert borð í matsalnum og maður kynntist skrifstofuliðinu og hitti forstjórann og lækningaforstjórann nánast daglega. Ég held að það hafi skipt verulegu máli fyrir „móralinn“. Í nýjum spítala verður þetta að breytast. Skrifstofufólkið verður að verða hluti af heildinni. En meðan beðið er eftir nýjum spítala legg ég til að forstjórinn og lækningaforstjórinn borði með fólkinu á „dekkinu“ ekki sjaldnar en þrisvar í viku! Þá verður þeim ekki skotaskuld úr því að endurvinna það traust sem kann að hafa glatast. Og nú er komið að því að minnast á starfsanda - „móral“. Meðan ég starfaði á Landspítalanum sveiflaðist mórallinn dálítið. Stundum ágætur, stundum svolítið dapur. Mér er það minnisstætt að eitt sinn hitti Magnús bróðir minn Davíð Davíðsson prófessor á gangi spítalans og spurði: „Hvernig gengur það á „kærleiksheimilinu“? Davíð svaraði að bragði: „Þar sést aldrei glaður maður!“ Vonandi er það ekki svo í dag, en ég kem stundum í hádegismat í Læknasetrið þar sem vinna læknar sem starfa á Landspítalanum og mér finnst þeir mættu vera glaðari. Á vinnustað er sennilega fátt sem er nauðsynlegra til að laða að gott fólk en góður mórall. En hvað er mórall eiginlega? Mig langar að vitna í gamla sögu.1

Spekingur nokkur fór um farinn veg. Við veginn sat maður og var að höggva stein. Hvað starfar þú maður minn? spurði spekingurinn. Ég er að höggva grjót svaraði sá sem spurður var. Spekingurinn hélt áfram og kom aftur að manni sem var að klappa stein. Hvað starfar þú maður minn? spurði spekingurinn aftur. Ég er að vinna fyrir börnum mínum og ástvinum svaraði maðurinn. Spekingurinn hélt enn áfram göngunni og kom til þriðja mannsins sem einnig vann við steinhögg. Hvað starfar þú maður minn? spurði spekingurinn enn. Ég er að hjálpa til að byggja musteri svaraði maðurinn. Allir voru mennirnir þrír að vinna sama verkið. En sjónhringur þeirra var ekki sá sami. Einn sá og fann aðeins stritið. Ekkert annað. Annar sá lengra. Hann sá þann tilgang starfsins að veita honum og vandamönnum hans mannleg lífskjör. Hinn þriðji sá enn lengra. Hann sá og fann að hann var einn í hópi þúsunda sem unnu að sameiginlegu starfi, að hann var þátttakandi í byggingu musteris framtíðarinnar. Það er með því hugarfari sem við þurfum að vinna að endurreisn Landspítalans.

  1. Guðmundsson H. Lýðveldishátíðin 1944. 
    Leiftur, Reykjavík 1945: 275-7.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica