10. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Starfsumhverfiskönnun – til hvers? Ólöf Birna Margrétardóttir

Umræðan um dapurlega stöðu Landspítala hefur varla farið framhjá neinum undanfarnar vikur. Þar hefur verið virkjuð neyðaráætlun á lyflækningasviði vegna skorts á deildarlæknum og enn er ekki fyrirséð hvernig þetta endar. Lyflækningasvið, sem hafði um 30 deildarlækna á sínum snærum fyrir örfáum árum, hefur  nú rúmlega 10 deildarlækna við störf en þar eru stöður fyrir 25 deildarlækna. Ekki er heldur svo langt síðan aðsókn í sérnámsprógramm lyflækna var það mikil að færri komust að en vildu. Nú er rætt um að mögulega séu ekki lengur forsendur fyrir því að halda prógramminu gangandi. Vissulega varð hér efnahagshrun með margvíslegum afleiðingum en það skýrir ekki vandann sem glímt er við í dag. Ekki urðu starfsmenn heilbrigðiskerfisins sérlega varir við góðærið títtnefnda en sömu starfsmenn hafa fundið allhressilega fyrir efnahagshruni og enn frekari niðurskurði. Hvað varðar lækna þá hefur verið bent á yfirvofandi læknaskort í mörg ár án þess að nokkuð hafi verið brugðist við. Endurnýjun í stéttinni er of hæg og nú er svo komið að innan margra sérgreina er stór hluti sem mun hætta störfum vegna aldurs og ekki ljóst hverjir eiga að manna þær stöður. Staðreyndin er sú að íslenskt heilbrigðiskerfi er ekki samkeppnishæft við það sem er í boði í nágrannalöndunum, hvorki hvað varðar laun né vinnuaðstæður. Þegar þetta er sett saman fæst jafna sem gengur ekki upp. Skortur á starfsfólki á vinnustað sem er ekki samkeppnishæfur.

Nú hafa verið gerðar starfsumhverfiskannanir innan spítalans. Þar er spurt um ýmsa þætti, meðal annars starfshvata, hollustu og traust, starfsfélaga, starfsþróun og starfsaðstæður. Undirrituð, sem er almennur læknir á Landspítala, svaraði umræddri starfsumhverfiskönnun í mars á þessu ári og var ómyrk í máli. Síðar kom í ljós að flestir yngri kollegar höfðu svipaða skoðun. Niðurstöður könnunarinnar voru birtar á innri vef spítalans í júlímánuði þegar flestir voru í sumarfríi. Ég velti fyrir mér hvort það sé tilviljun eða hvort þetta sé algjörlega útpælt af stjórnendum spítalans. Lítið fór fyrir umfjöllun um niðurstöðurnar þó þær væru grafalvarlegar og afleiðingar þegar farnar að sjást. Mig langar til að reifa helstu niðurstöður fyrir almenna lækna úr könnuninni :

  • Fyrir deildarlækna árið 2013 voru 37 þættir af 40 rauðmerktir (rautt = aðgerðarbil), tveir þættir voru með gulu skori (gult=starfhæft bil) og aðeins einn þáttur var á grænu bili (grænt=styrkleikabil). Svarhlutfall var 75%.
  • Fyrir deildarlækna árið 2012 voru 27 þættir af 40 rauðmerktir, 11 þættir gulir og tveir grænir.
  • Fyrir kandídata árið 2013 voru 38 þættir af 40 rauðmerktir, einn var með gulu skori og einn með grænu. Svarhlutfall var 100%.
  • Fyrir kandídata árið 2012 voru 33 þættir af 40 rauðmerktir, sex þættir gulir og einn grænn.
  • Hjá báðum hópum var grænmerkt við eftirfarandi fullyrðingu: „Ég tel störf mín vera mikilvæg.“
  • Allir þættir sem tóku til starfsaðstöðu og trausts voru rauðmerktir hjá deildarlæknum bæði árin.
  • Allir þættir sem tóku til framþróunar, upplýsingagjafar og starfsaðstöðu voru rauðmerktir hjá kandídötum bæði árin.
  • 13% af deildarlæknum eru stoltir af því að starfa á Landspítala og 1% mæla með honum sem góðum vinnustað. Aðeins 3% hugsa sjaldan eða aldrei um að hætta störfum þar og 14% telja störf sín metin að verðleikum. 7% eru ánægð með vinnuaðstæður sínar.
  • Enginn af kandídötum mælir með spítalanum sem góðum vinnustað og enginn hugsar sjaldan eða aldrei um að hætta störfum þar. Aðeins 5% telja störf sín metin að verðleikum. Enginn kandídat er ánægður með vinnuaðstæður sínar.
  • Spurt var: „Á minni starfseiningu/deild höfum við unnið með niðurstöður fyrri starfsumhverfiskannana.“ Svörin voru rauðmerkt hjá báðum hópum, bæði 2012 og 2013.

Þessi upptalning er ekki tæmandi en ætti þó að gefa ágæta mynd af ástandinu. Það sem vekur furðu mína eru niðurstöður starfsumhverfiskannana fyrri ára. Þó að niðurstöðurnar í ár hafi verið verri en í fyrra er ekki hægt að segja að árið 2012 hafi komið sérstaklega vel út. Til hvers í ósköpunum er verið að gera slíkar kannanir ef ekkert er gert með niðurstöðurnar? Stjórnendur hljóta að bera ábyrgð og stjórnendur Landspítala hafa ekki axlað ábyrgð á starfsfólki sínu. Starfsumhverfiskönnunin  er falleinkunn fyrir stjórnendur stofnunarinnar. Þetta myndi ekki viðgangast í nágrannalöndum okkar án aðgerða. Stjórnendur sem myndu ekki bregðast við hættumerkjum hjá starfsfólki í langan tíma yrðu leystir frá störfum. Hvenær verða stjórnendur Landspítala leystir frá störfum? Þegar allt starfsfólkið hefur gefist upp og er horfið til annarra starfa? Líklegt er að ef eitthvað verður aðhafst verði of lítið gert og alltof seint. Það má vera að stjórnmálamenn muni minnast núverandi stjórnenda fyrir elju í niðurskurði og sparnaði. Ég hygg að starfsfólk spítalans muni hins vegar tengja þá við skort á viðbrögðum við niðurstöðum starfsumhverfiskannana og hrun ákveðinna starfseininga innan spítalans.Þetta vefsvæði byggir á Eplica