09. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Anders Jahre-verðlaunin veitt fyrir rannsóknir á sykursýki

Danski prófessorinn Jens Juul Holst hlýtur Anders Jahre-verðlaunin í líf- og læknisfræði árið 2013. Hann starfar við Háskólann í Kaupmannahöfn. Holst fær verðlaunin fyrir brautryðjandi rannsóknir á efnaskiptasjúkdómum, sérstaklega fyrir uppgötvanir á áður óþekktu hormóni.


Jens Juul Holst.

Holst og samstarfsfólk hans hafa stundað ítarlegar lífeðlisfræðilegar rannsóknir og einangrað og lýst hormónum sem eru í lykilferlum sem skipta meðal annars máli í sykursýki. Einkum er Holst þekktur fyrir að hafa lýst starfsemi Glp1 (Glucagon-like peptide-1) hormónsins, en það er framleitt af ákveðnum frumum í meltingarvegi og hefur áhrif á sykurbúskap líkamans.  Ennfremur hefur hann framkvæmt ítarlegar rannsóknir á ensíminu Dpp4 (Dipeptidyl peptidase-4) sem hindrar virkni Glp1.

Meðferðarúrræði við sykursýki 2 byggja á niðurstöðum Holst á þessum efnaskiptaferlum.

Anders Jahre verðlaunin í fyrra voru einnig veitt til vísindamanns sem unnið hefur að sykursýkisrannsóknum, Leif Groop. Rannsóknir hans byggjast þó á öðrum fræðasviðum,  einkum faraldsfræðilegrar erfðafræði. Verðlaunaveitingin undirstrikar hversu öflugar rannsóknir eru stundaðar á sykursýki á Norðurlöndunum.

Jahre-verðlaunin til yngri vísindamanna hljóta prófessorarnir Christian B. F. Andersen við Árósaháskóla og Yenan Bryceson við Karolínsku stofnunina í Stokkhólmi. Andersen fær verðlaunin fyrir rannsóknir á byggingu sameinda sem taka þátt í flutningi vítamína í frumur líkamans og Bryceson fyrir rannsóknir í ónæmisfræði, einkum starfsemi drápsfruma ónæmiskerfisins og fyrir rannsóknir á meðfæddum blóðsjúkdómum.

Norðmaðurinn Anders Jahre stofnaði sjóð árið 1960 sem ætlað er að efla rannsóknir í líf- og læknisfræði innan Norðurlandanna og eru stærstu norrænu rannsóknarverðlaun á þessu sviði. Háskólinn í Osló veitir verðlaunin sem er ein milljón norskra króna. Einnig eru veitt aukaverðlaun úr sjóðnum til yngri vísindamanna. Valnefnd með fulltrúum læknadeilda háskóla allra Norðurlandanna vinnur úr tilnefningum og ákveður verðlaunahafa, sjá nánar: uio.no/english/about/facts/anders-jahre/nomination/.

Jahre (1891-1982) var löglærður auðkýfingur sem fékkst við skipaútgerð og samgöngumál, en er ef til vill best þekktur fyrir hvalveiðiútgerð frá Sandefjord og vinnslu á hvalaafurðum. Hann var útnefndur heiðursdoktor við Oslóarháskóla fyrir stuðning sinn við vísindastörf og uppbyggingu skólans.Þetta vefsvæði byggir á Eplica