07/08. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Heilsugæslan svarar kallinu

Mér var það sérstakt ánægjuefni að lesa ritsjórnargrein Þórarins Tyrfingssonar yfirlæknis SÁÁ í síðasta Læknablaði þar sem fram kemur að heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ hafi nú fengið aukin tækifæri til samskipta við aðra heilbrigðisstarfsmenn auk sóknarfæra til að koma enn frekar að kennslu heilbrigðis- og velferðarstétta. Nýlegur samstarfssamningur Háskóla Íslands, Íslenskrar erfðagreiningar og SÁÁ hafi í þessu sambandi skipt sköpum. 

Ég hef undanfarin ár skrifað fjölda greina og haldið erindi um mikilvægi samvinnu meðferðarstarfs SÁÁ og heilsugæslunnar og því er það sérlega ánægjulegt að yfirlæknir SÁÁ (bein tilvitnun): ,,kalli nú á heilsugæsluna til aukinnar samvinnu í kennslu í forvörnum og stuðningi til betri eftirfylgni með vímuefnafíklum”. Nú er sem sagt staðan sú að við köllum orðið hvor á annan sem þýðir að skapast hefur grundvöllur til að leggja drög að skipulögðu samstarfi. Frá stofnun SÁÁ 1977 hafa samtökin sjálfstætt annast árangursríka meðferð og endurhæfingu vímuefnafíkla af aðdáunarverðri ósérhlífni og eljusemi og unnið ómetanlegt starf við að útrýma fordómum um áfengissýki sem í hugum Íslendinga er nú sjúkdómur eins og hver annar. Þessi þróun hefur skapað góðan grundvöll til meiri samvinnu við heilsugæsluna þannig að hægt er að nýta betur þá möguleika sem heilbrigðiskerfið hefur upp á að bjóða án þess að það leiði til kostnaðarauka. Viðhorfskönnun var gerð meðal heimilislækna fyrir nokkrum árum og kom þá skýrt fram almenn jákvæðni stéttarinnar í garð meðferðarinnar (97%) en einnig var lögð áhersla á mikilvægi þess að læknabréf bærust heimilislækni ef skjólstæðingur hefði farið í áfengismeðferð (91%). Einnig kom fram verulegur áhugi heimilislækna á að kynnast meðferðarstarfinu betur og þá sérstaklega til að auka færni í greiningu áfengissýki.

Eitt af meginverkefnum í heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar verður að tryggja sjúklingum með langvinna sjúkdóma, þar á meðal vímuefnasjúkdóma, samfellu í þjónustu. Fyrirkomulag í heilbrigðisþjónustu sem byggir á skipulegri samvinnu meðferðarinnar og heilsugæslunnar gerir samspil vímuefnasjúkdóma og algengra líkamlegra og geðrænna sjúkdóma ljósara og örvar um leið eðlilega þróun þekkingar á vímuefnasjúkdómum. Rík áhersla hefur verið lögð á lykilhlutverk heilsugæslunnar við að fyrirbyggja þann skaða sem af misnotkun áfengis og vímuefna hlýst.  Betri hlutdeild og skilningur heimilislækna á þeirri framvindu og atburðarás sem áfengismeðferð er, mun stuðla að aukinni færni í íhlutun og greiningu vímuefnasjúkdóma, auk þess að skila betri stuðningi í endurhæfingarferlinu. Sjúklingar sem áður hafa farið í áfengismeðferð eru tíðir gestir í heilsugæslunni og hefur heilsugæslan alla tíð verið mikilvægur hlekkur í endurhæfingu vímuefnasjúklinga. Heimilislæknirinn leggur á ráðin um frekari endurhæfingu, sinnir nauðsynlegum vottorðaskrifum auk tengsla við aðra sérfræðilækna og félagsþjónustuna. Aðstandendur leita oft til læknis með óljós einkenni streitu og líkamlegar kvartanir þar sem tengsl áfengissýki sem fjölskyldusjúkdóms eru undirliggjandi en dulin. Betri þekking á eðli áfengissýki sem fjölskyldusjúkdóms er til dæmis mjög mikilvæg sem hluti nálgunar heilsugæslunnar í mæðra- og ungbarnavernd.

Ásókn vímuefnasjúklinga í ávanabindandi lyfseðilsskyld lyf, einkum kvíðastillandi lyf, svefnlyf og verkjalyf, er veruleg og mikilvægt að heilsugæslulæknar séu á varðbergi og upplýsi um ranga og skaðlega notkun slíkra lyfja. Notkun svefnlyfja og kvíðastillandi lyfja er of mikil á Íslandi og mun meiri en á Norðurlöndunum. Vitundarvakningar er þörf innan heilbrigðiskerfisins til að stemma stigu við þessari óhollu og varasömu notkun.

Ég legg til að gerður verði samstarfssamningur milli SÁÁ og heilsugæslunnar og óska eftir fundi um nánari útfærslu sem fyrst. Samningurinn þarf ekki að kosta neitt en gæti hugsanlega leitt til aukinna fjárframlaga til SÁÁ í því skyni að bæta starfsaðstöðuna til að sinna læknabréfum. Vel mætti hugsa sér að sérstök fjárveiting gerði heimilislæknum kleift að taka námstímabil hjá SÁÁ (til dæmis viku eða jafnvel lengra tímabil) til að kynnast nánar meðferðarstarfinu. Í áðurnefndri viðhorfskönnun kom fram að margir heimilislæknar vilja gjarnan kynna sér meðferðarstarfið af eigin raun.Þetta vefsvæði byggir á Eplica