07/08. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Vorfagnaður lækna á slóðum fortíðar – og framtíðar?

Læknar komu saman til fagnaðar í verðandi salarkynnum lækningaminjasafns á Seltjarnarnesi í byrjun júní, nutu veitinga innan um hráa steinveggi og leið augsýnilega vel þótt úti rigndi. Gestgjafar voru þeir Steinn Jónsson formaður Læknafélags Reykjavíkur og Óttar Guðmundsson formaður Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar en þeir hafa talað fyrir þeirri hugmynd að samtök lækna flytji búferlum og setjist að í Nesi innan um söguna. Lífleg umræða varð á heimasíðu lækna í kringum vorfagnaðinn og sýndist sitt hverjum um þessa hugmynd. Mörgum fannst hún góð og mæltu eindregið með því að hún yrði að veruleika, öðrum óx kostnaður í augum eða höfðu aðrar athugasemdir, jafnvel hugmyndir um að flytja eitthvert annað. Eflaust verður þetta mál áfram til umræðu, en eins og kunnugt er hefur Seltjarnarnesbær sagt sig frá samkomulagi við menntamálaráðuneytið og læknafélögin um að ljúka við að koma safninu í framtíðarhorf. En hvað sem því líður skemmtu læknar sér prýðilega og nutu bæði tónlistar og góðra veitinga.Þetta vefsvæði byggir á Eplica