06. tbl. 99. árg. 2013
Umræða og fréttir
Nýjungar í læknisfræði - Líffræðileg vefjameðhöndlun með þorskroði
Stofnendur Kerecis. Guðmundur F. Sigurjónsson verkfræðingur, Baldur Tumi Baldursson húðsjúk-
dómalæknir og Hilmar Kjartansson lyf- og bráðalæknir. Ernest Kenney vantar á myndina.
Talsverð aukning er í notkun á líffræðilegum (biologic) vefjameðhöndlunarefnum í skurðaðgerðum og sárameðhöndlun. Líffræðileg vefjameðhöndlunarefni eru stoðefni (scaffolds) sem unnin eru úr vefjum dýra og manna. Á markaði eru stoðefni sem unnin eru úr húð, þvagblöðrum, þörmum og gollurshúsum svína, manna og nautgripa.
Líffræðileg vefjameðhöndlunarefni eru framleidd þannig að allar frumur og önnur ofnæmisvaldandi efni eru fjarlægð úr gjafavefnum svo eftir stendur n.k. stoðefni eða stoðgrind úr próteinum. Stoðefnið er dauðhreinsað og því pakkað. Efnisbútnum er síðan komið fyrir við vefjaskaða og gefur frumum mannslíkamans stað til að festa sig í og ef aðstæður eru réttar skipta frumur sér í efninu og leggja niður nýjan vef. Sauma má í efnisbútinn og leggja marga saman ef þörf er á fyllingu.
Líffræðileg vefjameðhöndlunarefni eru notuð í margskonar aðgerðum, til að mynda viðgerðum á kviðslitum, endursköpun á kviðarholsvegg og brjóstum, viðgerð á heilabasti, viðgerð á liðböndum og síðast en ekki síst í meðhöndlun á þrálátum sárum.
Líffræðileg vefjameðhöndlunarefni flokkast sem lækningavörur (medical devices). Í Evrópu er sala á lækningavörum háð s.k. CE merkingu.
Til meðhöndlunar þrálátra sára
Kerecis er íslenskt lækningavörufyrirtæki sem undanfarin ár hefur unnið að þróun á líffræðilegum vefjameðhöndlarefnum sem unnin eru úr þorskroði. Vörulínur fyrirtækisins eru tvær, MariGen stoðefni til nota í skurðaðgerðum og til meðhöndlunar á þrálátum sárum og MariCell sem eru húðkrem til meðhöndlunar á ýmsum húðkvillum.
Kerecis var stofnað árið 2009 af tveimur læknum og tveimur verkfræðingum. Þrír þessara manna höfðu unnið saman um árabil hjá íslenska lækningavörufyrirtækinu Össuri hf.
Hráefnið sem Kerecis notar í vörur fyrirtækisins er þorskroð sem ættað er úr eldiskvíum í Ísafjarðardjúpi. Framleiðsla fer fram á Ísafirði í verksmiðju sem uppfyllir kröfur bandarískra (FDA) og evrópskra skráningaryfirvalda. Prófanir fara fram í Reykjavík og í samstarfi við erlend prófunarfyrirtæki.
Tækni Kerecis býður uppá ýmsa kosti umfram þær vörur sem fyrir eru á markaði. Efni Kerecis er þykkara og meðfærilegra en samkeppnisvörurnar. Ekki eru trúarlegar hindranir við notkun eins og á við um vörur sem unnar eru úr svínavef. Sjúkdómar smitast ekki úr fiskum í menn sem gerir vöruna örugga með tilliti til mögulegs smits á vírusum frá gjafavef. Varan veldur ekki fiskiofnæmisviðbrögðum þar sem sameindirnar sem valda fiskiofnæmi eru í holdi fisksins en er ekki að finna í roði. Síðast en ekki síst er að nefna Omega3 innihald roðsins en Omega3 er ekki að finna í spendýravef. Fjöldi vísbendinga er að finna um kosti Omega3 við skaddaðan vef, meðal annars bólguminnkandi áhrif, minni samloðun blóðflagna og bættan frumuvöxt.
Fyrsta MariGen vara fyrirtækisins kom á markað nýlega. Um er að ræða vöru sem ætluð er til meðhöndlunar á þrálátum sárum og heitir hún MariGen Wound. Kerecis gerði nýlega fyrsta sölusamning sinn erlendis og er MariGen Wound varan nú seld á Bretlandi og í Mið-Austurlöndum.
Þrálát sár eru vaxandi vandamál á heimsvísu. Mjög stór hópur fólks er með þrálát sár og eru t.d. meira en 34 milljónir krónískra sára meðhöndluð á hverju ári. Tíðni þrálátra sára á Íslandi er svipuð og annars staðar í heiminum en um 0,6% fullorðinna einstaklinga yfir 70 ára hafa þrálát fótasár. Algengustu sárin eru bláæðasár og svo sykursýkis- og slag-æðasár (Guðbjörg Pálsdóttir, 2010). Þessar gerðir sára er mjög erfitt að meðhöndla og getur meðferðartíminn verið nokkur ár sem endar oft með að nema þarf gangliminn brott.
MariGen Wound var fyrst notað á Sáramiðstöð Landspítala-Háskólasjúkrahúss og í gegnum prófanir hefur verið sýnt fram á góða virkni vörunnar. Fótasár sem höfðu verið til staðar og ekki svarað hefðbundinni meðferð í yfir fjórar vikur eða lengur gréru til að mynda eða bötnuðu til muna þegar þau voru meðhöndluð með MariGen Wound.
Vegna eðlis þrálátra sára koma oft upp sýkingar og því eru sýklalyfjameðferðir tíðar. Á meðan á notkun MariGen Wound stóð dró úr sýklalyfjanotkun, sem er mjög jákvætt þar sem sýklalyfjaónæmi er að aukast í heiminum.
Yfir 100 sjúklingar hafa nú verið meðhöndlaðir með MariGen Wound og hafa ekki komið upp neinar hliðarverkanir.
Kremin
Kerecis hefur ekki einungis fengist við þróun á stoðefnum unnum úr roði heldur einnig þróað línu af meðhöndlunarkremum sem innihalda meðal annars Omega3 fjölómettaðar fitusýrur og markaðssett eru undir nafninu MariCell. Megin-virkni MariCell kremanna snýr að styrkingu á efnum sem eru á milli frumanna í hyrnislagi húðarinnar (efsta lagið).
MariCell Footguard kremið er fyrir ofurþurra fætur, oft með sprunginni húð. Kremið inniheldur sýru sem mýkir sigg og efstu lög húðarinnar þannig að Omega3 fitusýrurnar eiga greiða leið inn í húðina til að styrkja og næra millifrumuefni hyrnislagsins.
MariCell Psoria kremið er fyrir húð með einkenni psoríasis eða annarskonar hreistursmyndun. Kremið inniheldur sýru sem losar hreistrið af og eykur gegndræpni húðarinnar þannig að Omega3 fitusýrurnar eiga greiða leið inn í hana. Omega3 fitusýrurnar afspenna húðina og draga úr kláða ásamt því að auka vatnsbindigetu húðarinnar. MariCell Xma er fyrir þunna og bólgna húð með einkenni exems. Í þunnri og bólginni húð hefur náttúrulegt millifrumuefni húðarinnar gefið eftir þannig að húðin er gegndræp og móttækileg fyrir Omega3 fitusýrunum sem hjálpa til við að minnka gegndræpnina og endurskapa rakabindigetu húðarinnar.
MariCell Smooth er fyrir húð með rakstursbólur og húðnabba (keratosis pilaris). Kremið inniheldur sýru og örlítið magn af Omega3 sem mýkir efsta lag húðarinnar þannig að hár vaxa auðveldar í gegnum hana og raksturstbólur myndast síður.