06. tbl. 99. árg. 2013
Ritstjórnargrein
Allar dyr inn í velferðarþjónustuna ættu að vera þær réttu fyrir vímuefnafíkilinn
Nýlega gerðu Háskóli Íslands, Íslensk erfðagreining og Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) með sér samstarfssamning um kennslu og rannsóknir. Meginmarkmið samningsins er að efla gæði meðferðar við fíknisjúkdómum og þekkingu á þeim. Þó að samstarf þessara aðila á sviði rannsókna og meðferðar hafi verið talsvert undanfarin ár og skilað góðum árangri markar þessi samningur nokkur tímamót. Við hjá SÁÁ bindum því vonir við að þessi samningur sé enn eitt skrefið til að auðvelda okkur að auka þekkingu á fíknisjúkdómum hér á landi.
SÁÁ er stofnað í október 1977 og hefur tekist að byggja upp og starfrækja sjálfstæðar meðferðarstofnanir og viðamikla alhliða meðferð fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Í dag reka samtökin Sjúkrahúsið Vog, tvö endurhæfingarheimili, Vík á Kjalarnesi og Staðarfell í Dölum, auk göngudeilda í Reykjavík og á Akureyri. Þessar sjúkrastofnanir vinna saman sem ein heild og veita fíklunum alhliða þjónustu. Við uppbyggingarstarfið hafa samtökin notið óvenju mikils stuðnings almennings, stjórnmálamanna, embættismanna og heilbrigðisstarfsfólks.
Heilbrigðisstarfsmenn SÁÁ líta á þennan samning sem viðurkenningu á árangursríku meðferðarstarfi á vegum samtakanna um áratuga skeið og góðu sjúklingabókhaldi með vandaðri skráningu á neysluvanda hvers og eins. Um leið sjá þeir aukin tækifæri til samskipta við aðra heilbrigðisstarfsmenn og sóknarfæri til að koma enn frekar að kennslu heilbrigðis- og velferðarstétta.
Á sjúkrahúsinu Vogi gefst einstakt tækifæri fyrir nema í heilbrigðisfræðum til að fylgjast með afeitrun fíkla og kynnast hvernig staðið er að greiningu geðrænna og líkamlegra fylgikvilla hjá þeim. Sjá síðan hvernig meðferðin þar stuðlar að samstarfsvilja sjúklinga og eykur þeim áhugahvöt til góðra breytinga og áframhaldandi meðferðar og eftirfylgni. Í lok árs 2012 höfðu 8,8% Íslendinga á aldrinum 15-64 ára leitað sér meðferðar á Vogi, 12,3% karla og 5,4% kvenna. Á hverju ári innritast þar um 2200 sjúklingar af báðum kynjum á aldrinum 14-80 ára með mismunandi fíknivanda og neysluvenjur. Á Vogi hefur verið safnað skipulega miklum upplýsingum síðustu tvo áratugi um þennan stóra sjúklingahóp. Þau gögn eru afar verðmæt heimild um þróun, eðli og umfang vímuefnavandans á Íslandi á þeim tíma.
Stóru dyrnar á Sjúkrahúsinu Vogi eru ekki einu dyrnar sem áfengis- og vímuefnafíklar ganga um á leið sinni inn í heilbrigðisþjónustuna. Sífellt fleiri vímuefnasjúklingar koma mikið veikir af fylgikvillum eða vegna eitrana á bráðamóttöku og leggjast þaðan inn á geðdeild, taugadeild, smitsjúkdómadeild og meltingardeild Landspítala og lyflækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Til að auka gæði og skilvirkni þjónustunnar sem þessir sjúklingar fá þurfa hinar ýmsu deildir sjúkrahúsanna og SÁÁ að auka samvinnu og samstarf enn frekar umfram það sem nú tíðkast. Grunnurinn að slíkri samþættingu og samvinnu er aukin samvinna um kennslu og viðurkenning á nauðsyn þess að allar heilbrigðisstéttir fái góða klíníska kennslu í fíknilækningum og að tíminn í starfsþjálfun þar verði metinn eins og hver annar námstími bæði í grunn- og framhaldsnámi.
Full þörf er á að samráðsnefndin sem sér um framkvæmd samstarfssamningsins setji sér háleit markmið. Hafa verður að leiðarljósi að gera allar dyr heilbrigðiskerfisins, og reyndar velferðarkerfisins alls, að réttum dyrum fyrir vímuefnafíkilinn. Kalla heilsugæsluna einnig til aukinnar samvinnu um kennslu í forvörnum og styðja hana til betri eftirfylgni með vímuefnafíklum.
Markmið okkar hlýtur að vera að leitast við að tryggja að hvar sem vímuefnafíkillinn þarf þjónustu í velferðarkerfinu mæti hann skilningi fremur en fordómum. Forsenda þess er að næg þekking sé til staðar hjá starfsfólki þjónustunnar, þekking og skilningur sem stuðli að réttri greiningu og áhugahvöt hjá fíklinum til að sækja sér nauðsynlega meðferð og eftirfylgd. Litið verði svo á að hann þjáist af sérstökum langvinnum heilasjúkdómi sem kallar á sérhæfða faglega meðferð sem skilar oft góðum árangri ef rétt er að farið þótt hrösun sé algeng á þeirri vegferð. Að meðferð lokinni þarfnast sjúklingur svipaðrar eftirfylgni og aðrir sjúklingar sem þjást af langvinnum sjúkdómum og komi í árlegt eftirlit þar sem greind verður áhætta á föllum og staða fylgikvilla.