05. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Að finna efni í Læknablaðinu

Á heimasíðu Læknablaðsins eru nú komnir inn rúmlega þrettán árgangar af blaðinu, og fylgirit númer 39 til 76. Á heimasíðunni er leitarhnappur og inn af honum birtist tvöföld leit, annars vegar eftir efnisorði og hins vegar eftir höfundarnafni. Með því að setja gæsalappir um leitarorðið er leitin þrengd og skilar þá afmarkaðri árangri. Nýlega var farið yfir alla leitarvélina í Hugsmiðjunni sem er vefhýsingaraðili blaðsins og sem á og rekur Eplica-kerfið sem heldur utan um efnið á netinu. Allar skrúfur voru hertar og lagað eftir fremsta megni það sem hafði staðið góðri leit fyrir þrifum. Leitarvélin er sérsmíðuð fyrir blaðið og um hana gilda sérlausnir sem eru flóknar og hafa iðulega hindrað gott leitarflæði sem hefur á köflum því miður verið of stirt. Nú hefur verið lagaður bæði leitarstrengur fyrir efnisorð og fyrir höfunda, en um þau gilda ólíkar upprunareglur. Jafnframt var farið yfir elsta efnið á heimasíðunni og gengið úr skugga um að það væri rétt skráð inn í umsýslukerfið. Lesendur beðnir að skoða og láta vita af hnökrum.

Fyrir alla árganga blaðsins á netinu er birtur pdf af efnisskrá hvers árs, og þar geta menn uppá gamla mátann leitað að efni og sjálfum sér og öðrum í höfundaskrá.

Inni á Gegni er skráð fræðiefni úr Læknablaðinu frá árinu 1946, og hjá Hirslu Landspítalans, sem er vísinda- og fræðsluefnissafn á netinu, er varðveitt fræðiefni úr Læknablaðinu frá 1988, leiðarar og ritrýnt efni.

Sú leitarvél sem ber höfuð og herðar yfir allar aðrar hvaða nafni sem þær nefnast er Google, - og þangað er langbest og skilvirkast að snúa sér til að leita að efni, enda er sögnin að gúgla löngu komin með íslenskt ríkisfang. Leitarorðið Læknablaðið og síðan efnisorð eða heiti höfundar skilar mjög mikilli uppskeru.Hjá Google er líka fylgst með umferð um einstakar heimasíður í netheimum, og þar kemur í ljós að stakir gestir inn á síðu Læknablaðsins er óvenju margir í hverjum mánuði miðað við aðgerðir þar. Heimasíðan er nánast óbreytt í mánuð milli útgáfu tölublaða.

Við hjá Læknablaðinu svörum líka einfaldlega í síma blaðsins 5644104, og reynum að svara öllum fyrirspurnum um efni blaðsins fyrr og síðar af fremsta megni, og sendum pdf með greinum ef vill.

VSÞetta vefsvæði byggir á Eplica