05. tbl. 99. árg. 2013
Umræða og fréttir
Brúnir skammtar, séra Friðriks skammtar og aðrir skammtar
Skammtar (lat. dosipulveres) er skammtað (e. dosed) lyfjaform þar sem virku efni í föstu formi er ásamt fylliefni, langoftast laktósa allt að 2 g, komið í pappírslykju af hæfilegri stærð, svokallað skammtabréf (mynd 1). Skammtar eru gerðir í höndum. Þeir eru þess vegna mun dýrara og einnig ónákvæmara lyfjaform en töflur sem framleiddar eru í vélum.1 Þótt skammtar séu í raun gamalt lyfjaform er endanlega skilgreiningu á þeim fyrst að finna í Dönsku lyfjaskránni 1948 sem einnig gilti hér á landi. Má undrast hve seint þetta einfalda lyfjaform var staðlað og hlaut opinbera viðurkenningu.
Brúnir skammtar og séra Friðriks Friðrikssonar skammtar (skammstafað
"Sj. Fr. Fr. skamtar"). Efst á myndinni eru sýndir fullbúnir brúnir skammtar
framleiddir í Lyfjabúðinni Iðunni. Neðar er sýnd samsetning þessara skammta
samkvæmt vinnubók úr lyfjabúðinni frá árinu 1930 eða þar um bil. Virk efni í
séra Friðriks skömmtum voru fenasetín (móðurefni parasetamóls) og natríum-
salisýlat. Aðalábendingin var höfuðverkur ("timburmenn"). Virk efni í brúnum
skömmtum voru auk fenasetíns koffein, bæði hreint og í pasta guarana, brasi-
lískum dróga, sem hafði brúnan lit. Pasta guarana þótti sérlega virkt við
höfuðverk. Aðalábending á notkun brúnna skammta var því mígreni.
(Brúnir skammtar og vinnubókin úr Lyfjabúðinni Iðunni eru safngripir í
Lyfjafræðisafninu í Nesi. Myndin var tekin þar 8.02.2013; Þorkell Þorkelsson).
Í nýlegri ritgerð höfunda var gerður samanburður á framboði á töflum og fjórum öðrum tegundum lyfja til inntöku hér á landi á rúmlega 50 ára tímabili (1913-1965) samkvæmt opinberum heimildum. Skammtar voru eitt af þessum fjórum lyfjaformum. Það kom í ljós við þessa könnun að eins og vænta mátti voru mjög fáar tegundir skammta opinberlega skráðar á þessu tímabili og alls engar fyrr en um og eftir 1950.2 Skaut þetta samt óneitanlega skökku við þar eð skammtar voru algengt lyfjaform framan af síðustu öld, áður en töflugerð varð útbreidd.
Um þetta vitna meðal annars minningar Stefáns Thorarensen (1891-1975) lyfsala, en hann var lærlingur í apóteki á heimsstyrjaldarárunum fyrri.3 Á sömu lund eru minningar Ingibjargar Kristínar Lúðvíksdóttur (f. 1922) um skammtagerð föður hennar, Lúðvíks Norðdal Lúðvíkssonar (1895-1955), sem var síðast héraðslæknir á Selfossi (persónuleg heimild, 2013). Héraðslæknar höfðu þá lyfsöluleyfi og máttu því bæði tilreiða lyf og selja. Í minningum Stefáns eru aspirínskammtar í fyrirrúmi. Ingibjörg Kristín telur hins vegar að faðir hennar hafi nær einvörðungu búið til „brúna skammta“ sem nánar verður rætt um hér á eftir.
Tvær skýringar eru sennilegar á þessu misræmi milli fjölda opinberlega skráðra skammta og skammtagerðar í raun. Önnur er sú að læknar gætu hafa ávísað lyfjum í miklum mæli í formi skammta samkvæmt eigin forskriftum (lat. ordinationes magistrales). Eðli málsins samkvæmt er mjög erfitt að sannreyna þetta. Hin skýringin er sú að lyfsalar hafi gefið út einkalyfjaforskriftasöfn, læknum til leiðbeiningar við ávísun lyfja. Þessi skýringartilgáta fær stuðning í því að komið hefur í leitirnar „Lyfjahandbók lækna“, sem lyfsalinn í Reykjavíkurapóteki (Þorsteinn Scheving Thorsteinsson, 1896-1971) gaf út 1950. Í formála bókarinnar kemur réttilega fram að lyfsalinn gaf bókina út „á sitt eindæmi“.4
Lyfjahandbókin er alls 109 blaðsíður og er lýsandi dæmi um einkaframtak í lyfjagerð á fyrri tíð. Í henni er fjöldi forskrifta um lyfjasamsetningar í ýmsum lyfjaformum. Þar á meðal eru 43 tegundir af skömmtum. Síðast í upptalningu skammtaforskrifta eru tvær tegundir skammta sem oftast gengu undir nöfnunum „brúnir skammtar“ og „brúnir skammtar með kódeini“ vegna þess að innihaldið var brúnt að lit. Brúnir skammtar með kódeini voru stundum nefndir „sterkir“ til aðgreiningar frá „venjulegum“ brúnum skömmtum, sem líka voru stundum nefndir „veikir“. Samsetning venjulegra brúnna skammta er sýnd á mynd 1 eftir vinnubók úr Lyfjabúðinni Iðunni (stofnuð 1928).
Aðalábending á brúna skammta var mígreni. Brúnir skammtar án kódeins voru lausasölulyf og voru seldir í apótekum vel fram á 7. áratug síðustu aldar (Jakob Kristinsson, f. 1943: persónuleg heimild, 2013).
Í vinnubókinni úr Lyfjabúðinni Iðunni eru einnig tilgreindir „séra Friðriks skammtar“ (mynd 1). Þessir skammtar voru kenndir við séra Friðrik Friðriksson (1868-1961), hinn kunna kristindómsfræðara og leiðtoga barna og unglinga. Skammtar þessir voru eins og geta má sér til af samsetningunni meðal annars notaðir við höfuðverk. Tryggvi Ásmundsson (f. 1938) man eftir séra Friðriks skömmtum frá námsárum sínum í læknadeild á fyrri hluta 7. áratugar síðustu aldar. Hann telur raunar að aðalábending á notkun þessara skammta hafi verið „timburmenn“ (persónuleg heimild, 2013). Guðmundur Oddsson (f. 1936) man frá námsárum sínum í læknadeild bæði eftir brúnum skömmtum og séra Friðriks skömmtum og mest fyrir þá sök að varað var við nýrnaskemmdum af völdum fenasetíns í skömmtunum (persónuleg heimild, 2013).
Engar heimildir eru um það hvers vegna nafn séra Friðriks Friðrikssonar tengdist þessum skömmtum. Ef til vill hefur hann átt einhvern hlut að máli sjálfur. Í þessu sambandi er áhugavert að séra Friðrik nam fyrst læknisfræði og enn fremur að síðar var hann prestur holdsveikraspítalans í Laugarnesi.5
Óneitanlega vekur það athygli og nokkra undrun að fyrir einum mannsaldri eða tæplega það skyldi þekkjast að kenna lyfjasamsetningar í apótekum við nafngreinda menn eða útlit lyfjanna og lyfsalar gætu gefið út einkalyfjaforskriftasöfn handa læknum að nota. Þetta liðist ekki í dag og er til vitnis um breyttar reglur og kröfur um lyfjagerð og lyfsölu. Vatnaskil urðu árið 1963 þegar fyrstu lög um lyf tóku gildi hér á landi. Meðal veigamestu ákvæða þeirra laga var að við gildistöku laganna urðu lyf skráningarskyld og skyldu vera í viðurkenndum lyfjaformum og virk.6 Fyrir þann tíma voru því engin lög brotin þótt lyfjasamsetningar sem ekki var að finna í viðurkenndum lyfjaskrám eða lyfjaforskriftabókum væru frjálslega framleiddar og kenndar við menn eða útlit eða lyfsalar legðu nafn við einkaforskriftasöfn. Hér hefur vissulega miðað mikið fram á veg og þótti höfundum að gefnu tilefni rétt að vekja athygli á því. Á grundvelli laganna hófst svo skráning sérlyfja árið 1965.6,7
Þakkarorð
Guðmundi Oddsyni, Ingibjörgu Kristínu Lúðvíksdóttur, Jakobi Kristinssyni og Tryggva Ásmundssyni eru þakkaðar persónulegar upplýsingar.Heimildir
- Schou J. Forordningslære (2. útg.). Nyt Nordisk Forlag Arnold Busck. København 1973: 89-90.
- Skaftason JF, Jóhannesson Þ. Töflur og töflugerð. Með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna. Læknablaðið 2013; 99: 197-202.
- E.B. Kandídat klippti asperínskammta allan daginn. Viðtal við Stefán Thorarensen. Tímarit um lyfjafræði 1972; 7: 46-8.
- Scheving Thorsteinsson Th. Lyfjahandbók lækna. Reykjavíkurapótek, Reykjavík 1950.
- Haraldsson G. Guðfræðingatal 1847-2002. Prestafélag Íslands 2002: 339-41.
- Jóhannesson Þ. Vinna að lyfjamálum sumarið 1963 og fyrsta skráning sérlyfja. Læknablaðið 2004; 90: 792-5.
- Sérlyfjaskrá 1965. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, Reykjavík 1965.