05. tbl. 99. árg. 2013

Fræðigrein

Rannsókn unnin í Röntgen Domus í Domus Medica og á hjartadeild Landspítala.

doi: 10.17992/lbl.2013.05.497

Ágrip

Inngangur: Þekkt er að kalk í kransæðum veldur truflunum í tölvusneiðmyndarannsókn (TS) sem torveldar mat á kransæðaþrengslum. Markmið rannsóknarinnar var að meta nánar áhrif kalks í kransæðum á greiningargildi 64 sneiða TS á kransæðum í íslensku þýði, með hjartaþræðingu sem viðmið.

Efniviður og aðferðir:Þessi afturskyggna rannsókn náði til 417 einstaklinga sem bæði höfðu komið í TS-kransæðarannsókn og hjartaþræðingu með 6 mánaða millibili. Einstaklingum var skipt eftir Agatston-skori (kalkmagn í kransæðum): [0], [0,1-10], [10,1-100], [100,1-400], [400,1-750] og [>750]. Hæfni TS-kransæðarannsóknar til að greina ≥50% kransæðaþrengingu var metin með hjartaþræðingu sem viðmið. Þá voru tengsl á milli Agatston-skors og ≥50% kransæðaþrengingar skoðuð.

Niðurstöður: Alls voru rannsökuð 1668 kransæðasvæði í 417 einstaklingum (68,6% karlar og meðalaldur 60,2 ± 8,9 ár). Agatston-skor var að meðaltali 420 (spönn frá 0-4275). Næmi tölvusneiðmyndarannsóknar við greiningu ≥50% kransæðaþrengingar í kransæð var 70,1%, sértæki 79,9%, jákvætt forspárgildi 55,4% og neikvætt forspárgildi 88,2%. Neikvætt forspárgildi lækkaði úr 93,0% fyrir Agatston-skor núll og niður í 78,3% fyrir Agatston-skor ˃>750. Agatston-skor 363 spáði best fyrir um ≥50% kransæðaþrengingu með 49,6% næmi.

Ályktun: Greiningargildi TS-kransæðarannsóknar er almennt gott með háu neikvæðu forspárgildi og sértæki. Kalk hefur töluverð áhrif á greiningargildið en neikvætt forspárgildi skerðist lítið fyrir Agatston-skor allt að 400. Agatston-skor er ekki gott til að spá fyrir um ≥50% kransæðaþrengingu í þessu þýði. Ekkert ákveðið Agatston-skor gildi fannst sem spáði fyrir um ónothæfa æðarannsókn með TS.

Inngangur

Hjarta- og æðasjúkdómar eru leiðandi orsök dauðsfalla í hinum vestræna heimi og koma við sögu hjá milljónum einstaklinga árlega.1,2Hér á landi hefur dauðsföllum vegna hjarta- og æðasjúkdóma fækkað á undanförnum árum og það má þakka því hve mikið hefur dregið úr áhættuþáttum, ásamt bættri greiningu og meðferð.3

Mikilvægt er að til séu aðferðir sem greina kransæðasjúkdóm hratt og örugglega til að koma í veg fyrir dauðsföll og frekari sjúkdóm og eru hjartaþræðing og tölvusneiðmyndarannsókn (TS) af kransæðum meðal þeirra rannsóknaraðferða sem notaðar eru í dag. Hjartaþræðing hefur verið notuð sem viðmiðunarstaðall fyrir kransæðaþrengingar.4,5 Hjartaþræðing notar þó tvívíða myndgreiningartækni, sem er takmarkandi við rannsóknir á flóknum líffærum.6

TS af kransæðum er tiltölulega nýleg tækni sem er í stöðugri framþróun og hefur í völdum tilvikum komið í stað kransæðaþræðingar.7 Tæknilegar framfarir við TS-rannsóknir hafa aukið næmi þessara rannsókna en aukið næmi getur þó komið niður á sértæki og neikvæðu forspárgildi, sem hefur verið allt upp í 90-100% við að útiloka marktækar kransæðaþrengingar.8,9 Þetta kallar á samanburð við greiningarhæfni hefðbundinnar hjartaþræðingar.

TS af kransæðum er tvíþætt rannsókn, fyrst er gert kalkskann en síðan æðarannsókn með skuggaefni. Tölulegt mat á kalki í kransæðum er gert með aðferð Agatstons10 sem gefur Agatston-skor.

Þekkt er að þéttar kalkanir í kransæðum geta leitt til ofmats kransæðaþrenginga í TS af kransæðum, sem gerist vegna þess að ef það sem myndað er hefur mikla eðlisþéttni virðist það stærra á mynd en það í raun er.11 Eldri rannsóknir hafa sýnt að hátt Agatston-skor veldur myndgöllum í TS og falskt jákvæðum niðurstöðum fjölgar. Það er því álitamál hvort TS æðarannsókn er gagnleg þegar mikið kalk er í kransæðum.12-15 Líkur á kransæðaþrengingum aukast einnig eftir því sem kransæðakalk er meira.16 Skiptar skoðanir eru þó um hvort til sé þröskuldur fyrir Agatston-skor sem segir til um hvort vert sé að framkvæma TS-æðarannsókn, og þá hver hann sé.17

Markmið þessarar rannsóknar var að meta áhrif kalks í kransæðum á greiningargildi 64 sneiða TS-æðarannsóknar í íslensku þýði, með hjartaþræðingu sem viðmið. Kannað var hversu vel Agatston-skor spáir fyrir um ≥50% kransæðaþrengingu við hjartaþræðingu. Að lokum var reynt að ákvarða þröskuldsgildi Agatston-skors sem gefur til kynna að frekari TS-æðarannsókn verði ónothæf vegna myndgalla.

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var afturskyggn og fólst í að bera saman niðurstöður og myndir allra einstaklinga sem höfðu komið í TS-kransæðarannsókn og hjartaþræðingu með ≤6 mánaða millibili á tímabilinu janúar 2007 til nóvember 2010. TS-kransæðarannsóknirnar voru framkvæmdar í Læknisfræðilegri myndgreiningu (Röntgen Domus) og gerðar með 64 sneiða tæki, Toshiba Aquilion (Toshiba Medical Systems, Tokyo, Japan). TS-kransæðarannsóknin var framkvæmd bæði fyrir (kalkskann) og eftir skuggaefni (æðarannsókn). Þegar æðarannsókn var framkvæmd var notuð afturvirk EKG-lyklun og kransæðar og holrými þeirra metin af röntgenlækni. Hjartaþræðingarnar voru framkvæmdar á hjarta- og æðaþræðingarstofum Landspítala með æðaþræðingarbúnaði frá Siemens, Philips og General Electrics. Hver æðahluti var skoðaður frá nokkrum mismunandi sjónarhornum. Upplýsingar um einkenni og áhættuþætti einstaklinga voru sótt í gagnagrunn SCAAR (Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry). Tilskilinna leyfa var aflað frá Vísindasiðanefnd og Persónuvernd.

Úrtakið var 462 einstaklingar en 27 einstaklingar voru útilokaðir, meðal annars vegna stoðnets, hjáveitu- eða annarra hjartaaðgerða, gáttatifs og líffærafræðilegs afbrigðis. Þá voru 18 útilokaðir vegna þess að rannsókn (TS eða hjartaþræðing) var metin ógreiningarhæf af sérfræðingi. Alls voru því 417 einstaklingar (1668 kransæðasvæði) metnir og var magn kalks í kransæðum mælt á kalkskanni með Calcium Scoring hugbúnaði (Carestrem Health, Rochester, NY). Agatston-skor var skráð fyrir fjögur kransæðasvæði; vinstri aðalstofn (LM), vinstri millisleglakvísl (LAD), vinstri umfeðmingskvísl (LCX) og hægri kransæð (RCA), sem og samanlagt skor allra kransæðasvæða. Einstaklingar voru flokkaðir eftir heildar Agatston-skori í 6 flokka: [0], [0,1-10], [10,1-100], [100,1-400], [400,1-750] og [>750].

Notast var við úrlestur (niðurstöður og myndir) bæði röntgen- og hjartasérfræðinga þegar metin var þrenging í kransæðum. Fyrir hvert kransæðasvæði var skráð hvort og hversu mikil þrenging var greind með TS annars vegar og hjartaþræðingu hins vegar, flokkað í 6 flokka: 0% (engin þrenging), 1-29%, 30-49%, 50-69%, 70-99% og 100% (alger lokun). Kransæðasvæði var talið marktækt þrengt (veikt) ef þrenging var ≥50% og einstaklingur með kransæðasjúkdóm (veikur) ef hann var með marktæka þrengingu á einu eða fleiri kransæðasvæði. Ef fleiri en ein þrenging var á sama kransæðasvæði var mesta þrengingin skráð. Athugað var hve rétt TS-rannsókn greindi veika einstaklinga (þrenging óháð svæði) annars vegar og hins vegar hve rétt TS greindi veik kransæðasvæði (þrenging samkvæmt TS-rannsókn borin saman við niðurstöðu hjartaþræðingar fyrir sama svæði).

Krosstöflur voru gerðar til að meta greiningarhæfni TS og næmi, sértæki, jákvætt og neikvætt forspárgildi reiknað, sem og nákvæmni. Við samanburð hópa var notað óháð t-próf fyrir raðbreytur og kí-kvaðrat próf fyrir flokkabreytur. Kappa-gildi var notað til að meta fylgni milli greiningaraðferðanna tveggja á 6 stiga flokkunarskala. Þar sem dreifing Agatston-skors er mjög hægri skekkt var því umbreytt með náttúrulegum logaritma (+1) og notað við tölræðiúrvinnslu. ROC (receiver operating characteristic) kúrfur voru gerðar til að kanna hve vel Agatston-skor hentar til að greina kransæðasjúkdóm (≥50% kransæðaþrengingu á einu eða fleirum kransæðasvæðum). Út frá ROC-kúrfu var fundinn Agatston-skor þröskuldur sem spáir best fyrir um ≥50% kransæðaþrengingu. Tölfræðileg marktektarmörk voru sett við p≤0,05. Forritin Excel (Microsoft Corp, Redmond, WA) og SPSS Inc., Version 17, fyrir Windows voru notuð við tölfræðiúrvinnslu.


Niðurstöður

Rannsóknarhópurinn samanstóð af 417 einstaklingum, 286 körlum (69%) og 131 konu. Meðalaldur þátttakenda var 60,2±8,9 ár. Tafla I sýnir helstu einkenni og áhættuþætti kransæðasjúkdóma hjá þátttakendum. Meðaltal Agatston-skors var 420, miðgildi 231 og spönn frá 0-4275. Ekki reyndist marktækur munur á Agatston-skori milli karla (miðgildi 250) og kvenna (miðgildi 205) (p-gildi=0,094). Alls voru 38% karla og 33% kvenna með Agatston ˃>400. Kalkmagn í kransæðum jókst með aldri eins og mynd 1 sýnir. Miðgildi Agatston-skors var hæst í LAD, þá RCA, LCX og lægst í LM, bæði hjá körlum og konum. Meðaltími á milli TS og hjartaþræðingar var 67 dagar (±47 dagar).

Veik en marktæk fylgni (tafla II) var á mældum kransæðaþrengslum milli TS og hjartaþræðingar miðað við sex stiga flokkun (kappa-gildi, = 0,29 (p˂0,001)). Mynd 2 sýnir hversu vel TS og hjartaþræðingu ber saman þegar greina á kransæðaþrengingar í 1668 kransæðasvæðum við mismunandi Agatston-skor. Allt í allt greindi TS 638 kransæðasvæði án þrenginga en hjartaþræðing 821. Af þeim voru rúm 55% (TS) og rúm 58% (hjartaþræðing) með Agatston-skor hærra en 100. Kransæðasvæði með 50-100% þrengingu voru alls 554 samkvæmt TS en 448 samkvæmt hjartaþræðingu. Af þeim höfðu um 52% (TS) og 54% (hjartaþræðing) Agatston-skor yfir 400. Samkvæmt TS voru 23 kransæðasvæði alveg lokuð en fleiri samkvæmt hjartaþræðingu, eða 43. Þegar kransæðasvæði var greint alveg lokað var Agatston-skor einstaklings í flestum tilfellum hátt, en þó undir 10 í fimm tilvikum.

Alls voru 252 einstaklingar af 417 (60,4%) með ≥50% kransæðaþrengingu í einu eða fleiri kransæðasvæðum samkvæmt hjartaþræðingu. Af þessum 252 einstaklingum var þrenging á einu kransæðasvæði í 51,6% tilfella, í 29,4% tilfella voru þrengingar á tveimur svæðum,  í 12,7% tilfella á þremur svæðum og í 6,3% tilfella á öllum fjórum kransæðasvæðunum. Af þeim sem höfðu ≥50% kransæðaþrengingu voru 79,8% (201 einstaklingur) með þrengingu yfir 70% samkvæmt hjartaþræðingu.

Tafla III sýnir hve vel greiningu með TS ber saman við niðurstöðu hjartaþræðingar. Annars vegar þegar einstaklingur er rétt greindur með kransæðaþrengingu (≥50%, eitt eða fleiri svæði) og hins vegar þegar hvert og eitt kransæðasvæði er rétt greint ≥50% þrengt. Þegar horft er á einstakling óháð kransæðasvæði er næmi mikið (91,7%) en sértæki lítið (33.3%), en þegar hvert og eitt svæði um sig er skoðað snýst þetta við.

Tafla IV sýnir áhrif kalks í kransæðum á hæfni TS til að greina rétt ≥50% kransæðaþrengingu. Sértæki minnkar og neikvætt forspárgildi lækkar með hærra Agatston-skori. Sértæki fer úr 89,8% þegar skor er núll og niður í 63,5% þegar skorið er yfir 750, og neikvætt forspárgildi fer úr 93,0% þegar skor er núll og niður í 78,3% þegar Agatston-skor er yfir 750. Á hinn bóginn vex næmi og jákvætt forspárgildi hækkar með hærra skori.

Agatston-skor var marktækt hærra hjá þeim sem greindust með kransæðaþrengingu (miðgildi 358) heldur en hjá þeim sem höfðu ekki marktæka þrengingu (miðgildi 135) (p-gildi˂0,001). Á mynd 3 sést hve nákvæmlega skorið spáir fyrir um ≥50% kransæðaþrengingu. Agatston-skorið sem best spáði fyrir um ≥50% kransæðaþrengingu var 363 með 49,6% næmi, 80,0% sértæki og jákvætt og neikvætt forspárgildi 79,1% og 51,0%. Flatarmálið undir ferlinum er 0,664.


Umræða

Þessi rannsókn staðfestir það sem aðrar rannsóknir hafa sýnt18, 19 að þegar TS og hjartaþræðingu ber ekki saman er þrenging oftast ofmetin með TS í samanburði við hjartaþræðingu. Út frá töflu II sést glöggt að TS metur þrengslin ívið meiri en hjartaþræðing gefur til kynna. Veik en marktæk fylgni var á mældum kransæðaþrengslum milli TS og hjartaþræðingar og var kappa-gildi einungis 0,29 sem er ekki mjög gott. Kappa-gildi 0 gefur enga fylgni en kappa-gildi 1 gefur til kynna fullkomna fylgni á milli rannsóknaraðferða.20 Því er hægt að segja hér að ekki sé mikil fylgni á milli TS og hjartaþræðingar í þessu þýði. Í heildina ofgreinir TS marktæka kransæðaþrengingu (finnur 324 kransæðasvæði með 50-70% á móti 135 kransæðasvæðum í hjartaþræðingu), þó einungis þegar þrengingin er undir 70%. Þrengingar umfram 70% eru aftur á móti fleiri samkvæmt hjartaþræðingu en TS (303 á móti 230). Mismunandi niðurstöður má að einhverju leyti rekja til tækninnar sem notuð er við myndgerðina. Þrívíddareiginleikar TS bæta mat á líffærum með flókna lögun þar sem endurreiknaðar myndir í mörgum sniðum hjálpa til við mat á holrúmum æða.6 Á móti kemur að TS-myndir eru niðurstaða flókinna útreikninga sem eru viðkvæmir, til dæmis fyrir óreglulegum hjartslætti og hreyfingu einstaklings.11,21

Hæfni TS-rannsóknar til að greina ≥50% kransæðaþrengingu var almennt góð í þessari rannsókn, með miklu sértæki og háu neikvæðu forspárgildi, sem gefur til kynna að TS-kransæðarannsókn sé gagnleg til að útiloka ≥50% þrengingu í kransæð. Þetta er sambærilegt við niðurstöður íslenskra rannsókna frá árunum 2006 og 2008 þó sértæki og neikvætt forspárgildi sé ívið lægra í þessari rannsókn en í rannsókn frá árinu 2008 (80% og 88% nú á móti 94% og 95% þá).22,23 Þó skal taka fram að hér er um mismunandi rannsóknarþýði að ræða. Í þessari rannsókn voru allir þeir sem komu í TS og hjartaþræðingu á ákveðnu tímabili teknir inn en í rannsókninni frá 2008 voru þetta allt sjúklingar með kransæðastoðnet og gæti munurinn á niðurstöðunum falist í því. Einnig gæti munurinn falist í því að í eldri rannsókninni eru einstaklingar með skert myndgæði í TS útilokaðir en í þessari rannsókn eru öll kransæðasvæði sem fengu greiningu tekin með.

Í þessari rannsókn er næmi fyrir kransæðasvæði aðeins 70,1% en aðrir hafa sýnt fram á 90%-100% næmi.8,24 Næmi í þessari rannsókn er minna vegna þess að hlutfall falsk-jákvæðra er hátt en það má rekja beint til þess hvernig úrtakið var fengið. Í þessari rannsókn eru einungis einstaklingar sem fóru bæði í hjartaþræðingu og TS og þar sem hjartaþræðingin var oftast (99,5%) í framhaldi af TS, má ætla að falsk-jákvæðar niðurstöður séu miklu algengari en ella (hjartaþræðing er gerð ef þrenging er greind með TS en hinir eru ekki rannsakaðir frekar).

Hæfni TS-rannsóknar til að greina marktæka kransæðaþreng-ingu hjá einstaklingi (≥50% þrenging í einhverjum af hinum fjórum kransæðasvæðum) var slakari en fyrir kransæðasvæði og er sértæki hjá einstaklingi einungis 33,3% á móti 79,9% fyrir kransæðasvæði. Þetta er í samræmi við eldri rannsóknir.25 Munur á sértæki fyrir einstakling og kransæðasvæði er að þegar einstaklingur er metinn eru öll kransæðasvæði hans metin saman og skiptir ekki máli í hvaða kransæðasvæði einstaklingur er með þrengingu, svo framarlega sem það er þrenging í einhverjum af þessum fjórum kransæðasvæðum bæði á TS og hjartaþræðingu. Fjögur kransæðasvæði eru metin sem eitt og því ekki útilokað að greiningarhæfni sé sú sama og þegar einungis er skoðað æðasvæði á móti æðasvæði. Næmi aftur á móti er mjög gott fyrir einstakling, eða 91,7%, sem segir að TS-rannsókn á frekar auðvelt með að finna einstakling með ≥50% kransæðaþrengingu í einhverjum af hinum fjórum kransæðasvæðum samanborið við hjartaþræðingu.

Rannsóknin sýnir að greiningarhæfni TS skerðist eftir því sem Agatston-skor hækkar og eru niðurstöður okkar í samræmi við eldri rannsóknir sem hafa sýnt minnkandi nákvæmni með hækkandi skori.8,9,12,26 Eftir því sem kalk eykst minnkar sértæki og neikvætt forspárgildi lækkar, sem þýðir að erfiðara verður að útiloka marktæka þrengingu. Þetta kemur heim við rannsóknir annarra sem sýnt hafa að kalk í æðaveggjum torveldar mat á holrúmi æðar, sem aftur leiðir til ofmats á þrengingu.18 Neikvætt forspárgildi skerðist þó ekki að neinu ráði fyrr en við Agatston-skor hærra en 400. Jákvætt forspárgildi hækkar þegar kalk eykst, sem kemur ekki á óvart þar sem líkur á kransæðasjúkdómi aukast með hærra skori.16

Agatston-skor var hærra hjá einstaklingum sem greindust með marktæka kransæðaþrengingu (≥50%) (miðgildi 358 á móti 135). Sá þröskuldur sem best greindi á milli veikra og heilbrigðra reyndist vera 363 en flatarmál undir ferli ROC-kúrfunnar var þó aðeins 0,664. ROC-greiningin gefur til kynna að 79,1% einstaklinga með skor yfir 363 séu veikir, en næmið var lélegt (49,6%) og því ekki hægt að búast við að finna nema tæplega helming veikra einstaklinga. Að baki ROC-greiningarinnar eru aðeins gögn einstaklinga sem fóru bæði í TS og hjartaþræðingu, en ætla má að þeir sem aðeins fara í TS séu almennt minna veikir og með minna kalk í kransæðum. Það er því ekki hægt að yfirfæra þennan þröskuld á TS-kransæðar almennt.

Eins og áður var komið fram minnkar nákvæmni eftir því sem skor hækkar. Erfiðara verður að greina kransæðasvæði og einstakling rétt. Þetta á sérstaklega við eftir að Agatston-skor er komið yfir 750. Skiptar skoðanir hafa verið á niðurstöðum eldri rannsókna um hvort til sé Agatston-skor þröskuldur sem segir til um hvort vert er að framkvæma TS-æðarannsókn, og þá hver hann er.17 Miðað við niðurstöður þessarar rannsóknar er ekki hægt að segja að til sé þröskuldur sem segir TS-æðarannsókn gagnslausa. Þegar Agatston-skor er komið yfir 750 þá er nákvæmin komin niður í 71,0% og sértæki niður í 63,5%. Þetta er ekki ýkja gott þegar talað er um greiningarhæfni. Það væri þó hægt að benda á að þegar Agatston-skor er komið yfir 750 má velta fyrir sér hvort TS-æðarannsókn sé réttlætanleg. Þetta er þó ekki svona einfalt. Um er að ræða fjögur kransæðasvæði og getur kalkmagn á þeim verið mjög mismunandi. Ef skor er yfir 750 gæti verið um að ræða kalk einungis í einni kransæð, sem gerir það að verkum að sú kransæð verður ógreiningarhæf og TS-æðarannsókn gagnslaus til úrlestrar í þeirri æð en önnur kransæð er með lítið kalk og auðveldlega er hægt að gefa greiningu í þeirri æð.

Einnig þarf að taka inn í reikninginn að ekki eru allar skellur kalkaðar og þar af leiðandi er hægt að greina kransæðaþrengingu þrátt fyrir að ekkert kalk sé að valda þrengingunni. Í okkar rannsókn voru 5 kransæðasvæði af 43 án kalks rétt greind alveg lokuð. Nýleg rannsókn á asísku fólki með brjóstverk leiddi í ljós að 15% þeirra sem ekki höfðu neitt kalk í kransæðum (14 af 92) voru engu að síður með marktæka kransæðaþrengingu (≥50%) samkvæmt TS. Tíu af þessum 14 voru réttilega með marktæk kransæðaþrengsl samkvæmt hjartaþræðingu.27 Hjá fólki án einkenna og með litla þekkta áhættu finnast einnig marktækar þrengingar í æð án kalks, þó tíðnin sé mun lægri, eða um 1%.28,29 Hvað sem öðru líður gefur niðurstaða TS-kalkskanns mikilvægar vísbendingar um hvort TS-æðarannsókn sé líkleg til árangurs og þá um leið hvort hún er réttlætanleg.

Helstu annmarkar rannsóknarinnar voru þeir að hún var afturskyggn og margir sérfræðingar komu að TS og hjartaþræðingum. Niðurstöður hjartaþræðingar og TS sem liggja til grundvallar voru ekki staðlaðar og fyrir kom að erfitt var að fella niðurstöðu undir skilgreiningar rannsóknarinnar. Rannsóknin tók aðeins til fólks sem fór bæði í TS og hjartaþræðingu og eins og við var að búast var hátt hlutfall hjartasjúkdóma (60,4%) í úrtakinu. Úrtak rannsóknarinnar er því ekki þverskurður af almenningi og endurspeglar ekki almennt þýði og varhugavert að yfirfæra niðurstöður rannsóknar algjörlega á almenna notkun TS-rannsókna af kransæðum.

Í stuttu máli sagt er TS-kransæðarannsókn gagnleg aðferð til útilokunar kransæðasjúkdóms með almennt gott greiningargildi sem þó er nokkuð breytilegt á milli kransæðasvæða. Þegar kalk í æðum er umtalsvert (Agatston-skor yfir 400) minnkar sértæki og neikvætt forspárgildi lækkar og erfiðara verður að útiloka marktæka kransæðaþrengingu í æð, en það á þó einungis við æðina sem kalkið er í og því varhugavert að útiloka gagnsemi TS-kransæðarannsóknar þó Agatston-skor sé hærra. Út frá þessum vangaveltum og okkar niðurstöðum getum við því ekki sagt að til sé neinn þröskuldur sem segir til um hvort TS-æðarannsókn er gagnslaus eða ekki. Agatston-skor eitt og sér er ekki áreiðanlegt til að spá fyrir um kransæðasjúkdóm.

  

Þakkir

Þakkir fá starfsfólk Læknisfræðilegrar myndgreiningar og hjartadeildar 14-G á Landspítala fyrir hjálp og afnot af aðstöðu þeirra. Tölfræðingar hjá Tölfræðimiðstöð HÍ fá einnig þakkir fyrir aðstoð við tölfræðiúrvinnslu.

 

Heimildaskrá

  1. Jones CM, Athanasiou T, Dunne N, Kirby J, Attaran S, Chow A, et al. Multi-slice computed tomography in coronary artery disease. Eur J Cardiothorac Surg 2006; 30: 443-50.
  2. Lloyd-Jones D, Adams RJ, Brown TM, Carnethon M, Dai S, De Simone G, et al. Heart Disease and Stroke Statistics--2010 Update. A Report From the American Heart Association. Circulation 2009 Dec 17.
  3. Aspelund T, Gudnason V, Magnusdottir BT, Andersen K, Sigurdsson G, Thorsson B, et al. Analysing the large decline in coronary heart disease mortality in the Icelandic population aged 25-74 between the years 1981 and 2006. PLoS One 2010; 5: e13957.
  4. Bourassa MG. The history of cardiac catheterization. Can J Cardiol 2005; 21: 1011-4.
  5. Mueller RL, Sanborn TA. The history of interventional cardiology: cardiac catheterization, angioplasty, and related interventions. Am Heart J 1995; 129: 146-72.
  6. Arbab-Zadeh A, Texter J, Ostbye KM, Kitagawa K, Brinker J, George RT, et al. Quantification of lumen stenoses with known dimensions by conventional angiography and computed tomography: implications of using conventional angiography as gold standard. Heart 2010; 96: 1358-63.
  7. Delgado K, Williams M. Diagnostic accuracy for coronary artery disease of multislice CT scanners in comparison to conventional coronary angiography: an integrative literature review. J Am Acad Nurse Pract 2010; 22: 496-503.
  8. Meijboom WB, Meijs MF, Schuijf JD, Cramer MJ, Mollet NR, van Mieghem CA, et al. Diagnostic accuracy of 64-slice computed tomography coronary angiography: a prospective, multicenter, multivendor study. J Am Coll Cardiol 2008; 52: 2135-44.
  9. Zhang LJ, Wu SY, Wang J, Lu Y, Zhang ZL, Jiang SS, et al. Diagnostic accuracy of dual-source CT coronary angiography: The effect of average heart rate, heart rate variability, and calcium score in a clinical perspective. Acta Radiol 2010; 51: 727-40.
  10. Agatston AS, Janowitz WR, Hildner FJ, Zusmer NR, Viamonte M, Jr., Detrano R. Quantification of coronary artery calcium using ultrafast computed tomography. J Am Coll Cardiol 1990; 15: 827-32.
  11. Choi HS, Choi BW, Choe KO, Choi D, Yoo KJ, Kim MI, et al. Pitfalls, artifacts, and remedies in multi- detector row CT coronary angiography. Radiographics 2004; 24: 787-800.
  12. Brodoefel H, Reimann A, Burgstahler C, Schumacher F, Herberts T, Tsiflikas I, et al. Noninvasive coronary angiography using 64-slice spiral computed tomography in an unselected patient collective: effect of heart rate, heart rate variability and coronary calcifications on image quality and diagnostic accuracy. Eur J Radiol 2008; 66: 134-41.
  13. Raff GL, Gallagher MJ, O‘Neill WW, Goldstein JA. Diagnostic accuracy of noninvasive coronary angiography using 64-slice spiral computed tomography. J Am Coll Cardiol 2005; 46: 552-7.
  14. Ong TK, Chin SP, Liew CK, Chan WL, Seyfarth MT, Liew HB, et al. Accuracy of 64-row multidetector computed tomography in detecting coronary artery disease in 134 symptomatic patients: influence of calcification. Am Heart J 2006; 151: 1323 e1-6.
  15. Abbara S, Arbab-Zadeh A, Callister TQ, Desai MY, Mamuya W, Thomson L, et al. SCCT guidelines for performance of coronary computed tomographic angiography: a report of the Society of Cardiovascular Computed Tomography Guidelines Committee. J Cardiovasc Comput Tomogr 2009; 3: 190-204.
  16. Rumberger JA, Brundage BH, Rader DJ, Kondos G. Electron beam computed tomographic coronary calcium scanning: a review and guidelines for use in asymptomatic persons. Mayo Clin Proc 1999; 74: 243-52.
  17. Hecht HS, Bhatti T. How much calcium is too much calcium for coronary computerized tomographic angiography? J Cardiovasc Comput Tomogr 2008; 2: 183-7.
  18. Kroft LJ, de Roos A, Geleijns J. Artifacts in ECG-synchronized MDCT coronary angiography. AJR Am J Roentgenol 2007; 189: 581-91.
  19. Kopp AF, Kuttner A, Trabold T, Heuschmid M, Schroder S, Claussen CD. Multislice CT in cardiac and coronary angiography. Br J Radiol 2004; 77 Spec No 1 :S87-97.
  20. Landis JR, Koch GG. The measurement of observer agreement for categorical data. Biometrics 1977; 33: 159-74.
  21. Hsieh J. Computed tomography: Principles, design, artifacts, and recent advances. 2 ed. Wiley Interscience and SPIE; 2009.
  22. Valgeirsdottir IR, Haraldsdottir S, Scheving SS, Gudjonsdottir J, Sigurdsson AF, Gudnason T, et al. Greiningarhæfni 64 sneiða tölvusneiðmyndatækni til samanburðar við hefðbundna kransæðaþræðingu. Læknablaðið 2008; 94: 199-205.
  23. Jonsdottir B, Danielsen R. Samanburður á mati kransæðaþrengsla með tölvusneiðmyndatækni og hjartaþræðingu. Læknablaðið 2006; 92: 27-32.
  24. Herzog C, Zwerner PL, Doll JR, Nielsen CD, Nguyen SA, Savino G, et al. Significant coronary artery stenosis: comparison on per-patient and per-vessel or per-segment basis at 64-section CT angiography. Radiology 2007; 244: 112-20.
  25. Baumuller S, Leschka S, Desbiolles L, Stolzmann P, Scheffel H, Seifert B, et al. Dual-source versus 64-section CT coronary angiography at lower heart rates: comparison of accuracy and radiation dose. Radiology 2009; 253: 56-64.
  26. Arbab-Zadeh A, Miller JM, Rochitte CE, Dewey M, Niinuma H, Gottlieb I, et al. Diagnostic accuracy of computed tomography coronary angiography according to pre-test probability of coronary artery disease and severity of coronary arterial calcification. The CORE-64 (Coronary Artery Evaluation Using 64-Row Multidetector Computed Tomography Angiography) International Multicenter Study. J Am Coll Cardiol 2012; 59: 379-87.
  27. Yoon YE, Chang SA, Choi SI, Chun EJ, Cho YS, Youn TJ, et al. The absence of coronary artery calcification does not rule out the presence of significant coronary artery disease in Asian patients with acute chest pain. Int J Cardiovasc Imaging 2012; 28: 389-98.
  28. Iwasaki K, Matsumoto T, Aono H, Furukawa H, Samukawa M. Prevalence of non-calcified coronary plaque on 64-slice computed tomography in asymptomatic patients with zero and low coronary artery calcium. Can J Cardiol 2010; 26: 377-80.
  29. Bielak LF, Rumberger JA, Sheedy PF, 2nd, Schwartz RS, Peyser PA. Probabilistic model for prediction of angiographically defined obstructive coronary artery disease using electron beam computed tomography calcium score strata. Circulation 2000; 102: 380-5.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica