05. tbl. 99. árg. 2013

Fræðigrein

Reynsla fullorðinna Íslendinga af líkamlegum refsingum og ofbeldi í æsku

Experience of Icelandic adults of corporal punishment and abuse in childhood

doi: 10.17992/lbl.2013.05.496

Ágrip

Inngangur: Líkamlegar refsingar barna og ofbeldi geta haft neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að skoða reynslu fullorðinna Íslendinga af líkamlegu ofbeldi í æsku, meta umfang hennar, réttlætingu þolenda og áhrif á mat á uppeldi.

Efniviður og aðferðir: Af slembiúrtaki 1500 fullorðinna Íslendinga úr þjóðskrá, 18 ára og eldri, tóku 977 (65%) þátt. Þeir voru spurðir í símtali um mat á uppeldi sínu, og reynslu af 5 tilteknum formum líkamlegra refsinga og umfang þeirra, auk opinnar spurningar um önnur form.

Niðurstöður: Af 968 svarendum mátu 810 (84%) að uppeldi þeirra hafi verið gott. Alls 465 þátttakendur (48%) sögðu frá bernskureynslu af að minnsta kosti einu formi líkamlegra refsinga og voru flengingar algengastar (29%). Svarendur sem voru þrjátíu ára og eldri voru 1,9 sinnum líklegri til að hafa slíka reynslu borið saman við þá sem voru yngri (95% CI 1,4-2,6) og karlar voru 1,6 sinnum líklegri en konur (95% CI 1,2-2,0) til að segja frá slíkri reynslu. Þeim sem var refsað oft töldu marktækt oftar að refsingin hafi aldrei verið réttlætanleg (OR=6,5; 95% CI 1,8-22,9) og voru líklegri til að telja uppeldi sitt hafi verið slæmt eða ásættanlegt (OR=10,2; 95% CI 4,7-21,9) borið saman við þá sem höfðu enga slíka reynslu.

Ályktun: Líkamlegum refsingum var marktækt minna beitt í æsku svarenda sem voru fæddir um og eftir 1980 en þeirra sem fæddust fyrr. Vaxandi umræða og skilningur á réttindum barna og breyttar hugmyndir um uppeldi þeirra hefur stutt við slíka þróun.

Inngangur

Ísland er eitt af 33 ríkjum heims sem hafa bannað líkamlegar refsingar.1 Það bann endurspeglar breytingar hér á landi á viðhorfum til refsinga barna frá því að „Tilskipan um húsagann á Íslandi” var sett árið 1746.2 Með henni var íslenskum foreldrum gert skylt að refsa börnum sínum „með hendi og vendi eftir ásigkomulagi yfirsjónarinnar.” Húsagatilskipanin markaði tímamót í lagasetningu um uppeldi barna á Íslandi.

Í Svíþjóð hafa viðhorf til líkamlegra refsinga breyst mikið á hálfri öld, en algengi þeirra hefur minnkað verulega síðan þær voru bannaðar með lögum árið 1979.3, 4 Engu að síður er ofbeldi gegn börnum þar enn vandamál.5 Spurningakannanir sem lagðar voru fyrir ungt fólk þar í landi sýna að árið 1995 höfðu 30% verið flengdir en um 13% á tímabilinu 2000-2006. Niðurstöður rannsókna sem byggja á frásögnum foreldra eru þær að nánast öllum sænskum börnum hafi verið refsað líkamlega árið 1960, um helmingi þeirra árið 1980 og 14% árið 2000.6 Í Bandaríkjunum er alvarlegt líkamlegt ofbeldi gegn börnum á undanhaldi.7 Kannanir frá 1975, 1985, 1995 og 2002 sýna þó að flengingar barna á leikskólaaldri eru þar víða viðtekin venja og algengt er að börn séu barin með ýmiss konar áhöldum.3, 8

Ofbeldi gegn börnum og illri meðferð á þeim hefur verið skipt í fjóra meginflokka: líkamlegt ofbeldi, andlegt (eða tilfinningalegt) ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu.9-11 Á allra síðustu árum er farið að skilgreina reynslu barna sem lenda í eldlínu átaka foreldra sem fimmtu tegund ofbeldis gagnvart þeim.11 Rannsóknir hafa sýnt að reynsla af ofbeldi í æsku hefur neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan einstaklinga til skemmri og lengri tíma.6, 11-14 Mörk ofbeldis og refsinga barna geta þó verið óljós og einnig hvað telst vera ásættanleg harka við beitingu líkamlegra refsinga.15, 16

Í 19. grein Barnasáttmálans er aðildarríkjum uppá-lagt að vernda börn gegn hvers konar ofbeldi, meðal annars með því að efla löggjöf og stjórnsýslu.17 Í samræmi við þá skyldu kveður V. kafli Barnalaga nr. 76/2003, 28. gr. á um að forsjá barns feli í sér „skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.“ Í kjölfar umdeilds dóms Hæstaréttar Íslands frá 22. janúar 2009 (nr. 506/2008)18 sem sýknaði sambýlismann móður af ákæru um að hafa beitt tvo syni hennar kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi, samþykkti Alþingi 16. apríl árið 2009 breytingar á Barnaverndarlögum nr. 80/2002. Þar með var tekinn af allur vafi um að óheimilt er að beita börn slíku ofbeldi.

Á síðustu árum hefur kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hér á landi fengið vaxandi athygli en minna fjallað um aðrar tegundir ofbeldis.19 Þegar ofbeldi gegn börnum varð viðfangsefni rannsókna í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar, var athygli beint að misþyrmingu á börnum (battered baby syndrome).20 Talið var að slíkt ofbeldi væri fátítt hér á landi, enda fá skráð tilfelli.21 Í rannsókn frá 1994 töldu 7% fjölskyldna líkamlegar refsingar ásættanlega uppeldisaðferð.22 Rannsókn meðal 14-15 ára unglinga á Íslandi leiddi í ljós að um 7% þeirra höfðu orðið vitni að líkamlegu ofbeldi fullorðinna á heimili sínu og um 6% þeirra höfðu sjálf orðið fyrir slíku ofbeldi.23 Í dag er hugtakið heimilisofbeldi vel þekkt meðal grunnskólabarna, en um 70% 10 ára barna og um 94% 14 ára unglinga þekkja til þess.24 Þessar niðurstöður endurspeglast í nýlegri samantekt á rannsóknum á ofbeldi gegn börnum á grunnskólaaldri.25 Hún sýnir að mörg þeirra hafa reynslu af ofbeldi á heimilum sínum sem hefur neikvæð áhrif á heilsu þeirra og líðan.

Markmið þessarar rannsóknar er að skoða reynslu fullorðinna íslenskra ríkisborgara af líkamlegu ofbeldi og refsingum í æsku, meta umfang hennar, réttlætingu þolenda og áhrif slíkrar reynslu á mat á uppeldi.

Efniviður og aðferðir

Tekið var 1500 manna slembiúrtak Íslendinga 18 ára og eldri úr þjóð-skrá. Spyrlar á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla -Íslands hringdu í þá sem voru í úrtakinu á tímabilinu 19. október til 10. nóvember 2010. Alls tóku 977 þátt í könnuninni (65%) en hún var hluti af svokölluðum spurningavagni stofnunarinnar. Í slembiúrtakinu var hlutfall karla og kvenna, aldur og búseta þeirra sambærileg við hlutfall svarenda. Svarhlutfall í aldurshópnum 60 ára og eldri var þó heldur lægra en í hinum aldurshópunum (61% borið saman við 65-67% í öðrum aldurshópum).

Fyrst var spurt hvort svarandi teldi sig hafa fengið gott, ásættan-legt eða slæmt uppeldi. Þá fylgdu spurningar um líkamlegar refsingar, refsingar af sálrænum toga og upplifun af vanrækslu. Hér verður eingöngu fengist við niðurstöður er varða líkamlegar refsingar. Hafa ber í huga að refsingar sem áður þóttu sjálfsagðar eru í dag bannaðar með lögum og teljast til ofbeldis. Því var spurt með þeim hætti að svarendur gæfu upp reynslu sína hvort sem þeir litu sjálfir á þá meðferð sem þeir urðu fyrir sem refsingu eða ofbeldi.

Svarandi var beðinn um að segja til um reynslu sína af 5 formum líkamlegra refsinga (flenging, kinnhestur, vera hristur, slegið á fingur og snúið upp á eyru) auk opinnar spurningar um aðra reynslu. Þá var spurt um umfang þeirra og voru valmöguleikarnir aldrei, einu sinni, nokkrum sinnum, oftog mjög oftfyrir hvert form fyrir sig. Ef um var að ræða aðra reynslu af líkamlegu ofbeldi en spurt var um, var viðkomandi beðinn um að lýsa þeirri refsingu með eigin orðum. Í framhaldinu var spurt hver hefði beitt refsingunum, það er faðir, móðir eða einhver annar forsjáraðili. Einnig var spurt um mat viðmælenda á því hvort refsingarnar hefðu verið réttlætanlegar, með svarmöguleikunum alltaf, oft, stundum, sjaldaneða aldrei.

Við tölfræðilega úrvinnslu var notast við SPSS (v17,0 fyrir Windows og v19,0  fyrir Apple) og JMP v6 fyrir Macintosh. Lýsandi tölfræði var notuð og marktektarprófið kí-kvaðrat notað til að meta hvort tölfræðilega marktækur munur (p<0,05) væri á hlutföllum mismunandi hópa. Línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að meta áhrif bakgrunnsbreyta. Líkindahlutfall (OR) var reiknað með 95% öryggisbili (CI).

Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar. Ekki er um -per-s---- ónu-greinanleg gögn að ræða og vilji til að svara spurningunum var tekinn sem upplýst samþykki um þátttöku.

Niðurstöður

Meðalaldur þátttakenda var 46,3 ár (miðgildi 46,0; spönn 18-94). Sá elsti var fæddur árið 1916 en þeir yngstu árið 1992. Bakgrunni þátttakenda er lýst í töflu I.
 

Líkamlegar refsingar

Af 977 einstaklingum sem tóku þátt í könnuninni svöruðu 12 (1%) ekki spurningum um líkamlegar refsingar. Samtals 465 svarendur  (48%) gáfu upp að þeir hefðu reynslu af að minnsta kosti einu formi líkamlegra refsinga. Enginn marktækur munur var á bakgrunni svarenda (tafla I) sem höfðu reynslu af líkamlegum refsingum og þeim sem höfðu enga slíka reynslu, nema hvað varðar aldur. Meðalaldur þeirra sem höfðu verið beittir líkamlegum refsingum var 48,2 ár miðað við 44,4 ár hjá þeim sem sögðust ekki hafa slíka reynslu (p=0,0007). Um helmingur í hverjum aldurshópi hafði reynslu af líkamlegum refsingum, nema í yngsta aldurshópnum þar sem rétt rúmur þriðjungur svaraði því játandi (tafla II). Þeir sem voru 30 ára og eldri voru nær tvöfalt líklegri til að hafa reynslu af líkamlegum refsingum borið saman við þá sem voru yngri (OR=1,9; 95% CI 1,4-2,6). Karlmenn voru 1,6 sinnum líklegri til að segja frá reynslu af líkamlegum refsingum en konur (95 % CI 1,2-2,0).

Samtals 434 svarenda (94%) tilgreindu geranda líkamlegra refsinga. Faðir var gerandi hjá 155 svarendum (36%), móðir hjá 142 (33%), bæði faðir og móðir hjá 106 (24%) og aðrir fullorðnir forsjáraðilar hjá 31 (7%). Feður voru marktækt líklegri til að hafa beitt syni sína líkamlegum refsingum en dætur (p=0,005) og mæður refsuðu dætrum sínum marktækt oftar en sonum (p=0,005).

Mismunandi form líkamlegra refsinga

Reynsla af flengingum í æsku var algengust en 29% svarenda höfðu reynslu af þeim (tafla III). Marktækt fleiri karlmenn sögðu frá slíkri reynslu borið saman við konur (OR=1,5; 95% CI 1,2-2,0) en ekki var marktækur munur á meðalaldri þeirra sem höfðu slíka reynslu (47,1 ár) og þeirra sem voru án hennar (45,8 ár) (p=0,28). Einstaklingar sem voru 30 ára og eldri voru þó marktækt líklegri til að hafa verið flengdir en þeir sem voru yngri (OR=1,6; 95% CI 1,1-2,3).

Næstalgengasta form líkamlegra refsinga var kinnhestur og að vera hristur (tafla III). Þeir sem voru 30 ára og eldri höfðu marktækt oftar reynslu af kinnhesti (OR=2,4; 95% CI 1,4-4,1) og að vera hristir (OR=2,1; 95% CI 1,2-3,5) en yngri svarendur. Ekki var marktækur munur á því hvort karlmenn eða konur í þessum aldurshópum sögðu frá því að hafa fengið kinnhest (p=0,51) eða verið hrist (p=0,09).

Feður voru rúmlega tvisvar sinnum líklegri til að flengja börn sín borið saman við mæður (OR=2,1; 95% CI 1,3-3,4). Mæður refsuðu marktækt oftar en feður með því að gefa kinnhest (OR=2,5; 95% CI 1,5-4,2) og slá á fingur (OR=2,1; 95% CI 1,2-3,9). Ekki var marktækur munur á hvort foreldri hristi börn sín oftar (p=0,13).

Alls 27 svarendur (3%) sögðu frá öðrum formum líkamlegra refsinga en þeim sem sérstaklega var spurt um. Dæmi um refsingar voru að hafa verið ýtt, hrint, fengið spark í sig, munnur sápuþveginn, köld sturta, drekkingarathafnir eða að vera barinn með áhöldum (til dæmis herðatré, skóflu eða belti).


Réttmæti refsinga og mat á uppeldi

Af 465 viðmælendum með reynslu af líkamlegum refsingum svöruðu 419 (90%) spurningu um réttmæti þeirra refsinga sem þeir höfðu reynslu af. Rétt um þriðjungur (n=134; 32%) taldi að þær hefðu alltaf verið réttlætanlegar og aðeins færri (n=124; 30%) að sú hefði aldrei verið raunin. Ekki var marktækur kynjamunur á upplifun svarenda um réttmæti refsingar (OR=0,7; 95% CI 0,5-1,2).

Þeir sem töldu refsinguna aldrei hafa verið réttlætanlega voru rúmlega 6,5 sinnum líklegri til að hafa verið refsað líkamlega oft eða mjög oft (95% CI 1,8-22,9) borið saman við þá sem fannst refsingin alltaf hafa verið réttlætanleg. Þeir sem fannst refsingin aldrei hafa verið réttlætanleg voru rúmlega 10,2 sinnum líklegri (95% CI 4,7-21,9) til að telja uppeldi sitt hafa verið annaðhvort ásættanlegt eða slæmt, borið saman við þá sem fannst refsingin alltaf hafa verið réttlætanleg. Sextán (14%) af 117 viðmælendum sem töldu refsinguna sem þeir fengu aldrei hafa verið réttlætanlega var refsað líkamlega oft eða mjög oft borið saman við þrjá (2%) af þeim 126 viðmælendum sem fannst að refsingar þeirra hefðu verið réttlætanlegar.

Svarendur sem töldu sig hafa fengið gott uppeldi voru 3,2 sinnum líklegri (95% CI 2,2-4,6) til að neita að þeir hefðu reynslu af líkamlegum refsingum, borið saman við þá sem töldu uppeldi sitt hafa verið ásættanlegt eða slæmt. Ekki var marktækur munur ef svaranda hafði verið refsað líkamlega einu sinni, borið saman við þann sem hafði aldrei verið refsað. Eftir því sem reynsla af mismunandi formum líkamlegra refsinga var fjölbreyttari, þeim mun líklegra var að uppeldið væri talið ásættanlegt eða slæmt (p<0,0001) fremur en gott (tafla IV). Þeir sem höfðu reynslu af þremur eða fleiri formum líkamlegra refsinga voru 5,6 sinnum líklegri (95% CI 3,2-9,8) til að meta uppeldi sitt sem ásættanlegt eða slæmt, borið saman við þá sem höfðu enga slíka reynslu eða hafði verið refsað með allt að tveimur formum refsinga. Svarendur sem voru yngri en 30 ára voru marktækt líklegri til að telja uppeldi sitt gott, borið saman við þá sem voru eldri (OR=2,3; 95% CI 1,4-3,8).

Umræða

Hér eru birtar í fyrsta sinn tölulegar upplýsingar um algengi reynslu fullorðinna Íslendinga af líkamlegum refsingum og ofbeldi í æsku af hálfu foreldra eða forsjáraðila. Um er að ræða slembiúrtak úr þjóðskrá með 65% svörun. Ekki er munur á bakgrunnsbreytum einstaklinga sem svöruðu og þeirra sem höfnuðu þátttöku. Svarendur könnunarinnar endurspegla því nokkuð vel íslensku þjóðina. Því má leiða líkur að því að niðurstöður rannsóknarinnar varpi ljósi á beitingu slíkra refsinga og algengi líkamlegs ofbeldis gegn börnum á Íslandi fyrir þá aldurshópa sem hér eru til skoðunar. Rétt tæplega helmingur svarenda sagði að þeir hefðu verið beittir líkamlegri refsingu og voru eldri þátttakendur marktækt líklegri til að segja frá henni en þeir sem voru yngri.

Samanburður á algengi líkamlegra refsinga á milli landa er flókinn vegna mismunandi aðferðafræði við öflun gagna. Alþjóðleg rannsókn í 32 löndum þar sem háskólanemar voru spurðir hvort þeir hefðu mikla reynslu af flengingum eða því að vera slegnir fyrir 12 ára aldur sýnir að í flestum landanna hafði meira en helmingur nemanna slíka reynslu.15 Algengi var lægst meðal hollenskra (15%) og sænskra háskólanema (17%) en var verulega hærra í Bretlandi (55%) og Bandaríkjunum (60%). Í langflestum landanna var algengi hærra meðal drengja en stúlkna. Í rannsókn okkar höfðu 14% þátttakenda verið flengdir nokkrum sinnum í æsku og 2% þátttakenda oft eða mjög oft. Færri sögðu frá reynslu af öðrum tegundum líkamlegra refsinga (tafla II). Þrátt fyrir -ólíkan bakgrunn þátttakenda í þessum rannsóknum og mismunandi aðferðafræði, gefa þessar tölur til kynna að Ísland sé í hópi landa þar sem algengi alvarlegra líkamlegra refsinga barna er tiltölulega lágt.

Marktækt minna var um líkamlegar refsingar í æsku meðal yngri svarenda, sérstaklega þeirra sem voru fæddir um og eftir 1980, borið saman við þá sem voru eldri. Þeir sem voru fæddir fyrir 1980 voru tæplega tvisvar sinnum líklegri til að hafa reynslu af líkamlegum refsingum, borið saman við þá sem voru fæddir seinna. Það er í samræmi við niðurstöðu eigindlegrar rannsóknar á viðhorfi einstaklinga sem fæddir voru á tímabilinu 1920-1985 til refsinga, en þeir töldu að líkamlegar refsingar hafi þótt sjálfsagðar á Íslandi þar til á áttunda áratug síðustu aldar.26

Rannsóknir sýna að reynsla af ofbeldi í æsku getur haft nei--
kvæð áhrif á heilsu og vellíðan þolenda til lengri eða skemmri 
tíma.11, 12, 26 Nýleg rannsókn hér á landi sýndi að 14-15 ára unglingar með reynslu af líkamlegum átökum innan veggja heimilisins höfðu marktækt meiri einkenni um þunglyndi, kvíða og reiði og voru með lægra sjálfsmat en jafnaldrar án slíkrar reynslu.23 Unglingar sem höfðu reynslu af því að vera vitni að líkamlegu ofbeldi foreldra á heimilum sínum reyndust vera tæplega 46 sinnum líklegri til að hafa verið beinir þátttakendur í slíku ofbeldi en þeir sem höfðu enga slíka reynslu. Í ljósi þessa og samantektar Unicef á Íslandi um ofbeldi gegn börnum hér á landi25 er ekki hægt að útiloka að sú reynsla sem hér er til umræðu hafi haft neikvæð áhrif á heilsu og líðan svarenda. Það er einn veikleiki rannsóknarinnar að ekki var spurt um þetta atriði.

Í rannsókn okkar var ekki marktækur munur á því hvort feður eða mæður beittu meira líkamlegum refsingum gagnvart svar-endum þegar þeir voru börn. Aftur á móti var marktækur munur á formi refsinga sem feður og mæður beittu. Feður flengdu syni sína marktækt oftar en mæður dætur sínar. Rannsóknir sýna ýmist að mæður beiti oftar líkamlegum refsingum en feður eða að ekki sé mikill munur á hvort foreldra sé gerandi og á það við hvort heldur foreldrar eða börn eru spurð.4, 27 Þá gáfu marktækt fleiri karlmenn en konur upp reynslu af líkamlegu ofbeldi í okkar rannsókn og er það í samræmi við flestar rannsóknir um þetta efni.15, 28

Þeim mun oftar sem refsingum hafði verið beitt, þeim mun líklegra var að svarandi teldi þær hafa verið ranglátar. Eins leiddi reynsla af fleiri formum líkamlegra refsinga til þess að líkur jukust á að svarandi teldi uppeldi sitt hafa verið ásættanlegt eða slæmt fremur en gott. Þetta á þó ekki við ef líkamlegri refsingu hafði verið beitt aðeins einu sinni og er það í samræmi við aðrar rannsóknir sem sýna að umfang og harka refsinga auki neikvæð áhrif þeirra.6, 13 Einstök líkamleg refsing er þó ekki sársaukalaus þar sem minningin um hana er einstaklingum ofarlega í huga og getur hún auk þess valdið geranda hugarangri.25

Hafa ber í huga að rannsóknin er afturskyggn og að svarendur voru spurðir um misjafnlega löngu liðna atburði, sem gæti skekkt niðurstöðuna. Sýnt hefur verið fram á að óhætt er að styðjast við minningar um skýrt skilgreinda atburði en þó sé líklegt að þeir séu vantaldir þar sem liðnir atburðir falli í gleymsku, sérstaklega fyrstu æviárin.28 Því gæti munur á reynslu eldri og yngri aldurshópa af líkamlegum refsingum verið meiri en hér kemur fram. Niðurstöður rannsóknarinnar eru í samræmi við niðurstöður rannsókna hér á landi sem byggja á sögulegri greiningu16 og eigind-legri rannsókn26 og styður það við trúverðugleika þeirra.

Líkamlegar refsingar þóttu eðlileg uppeldisaðferð langt fram á síðustu öld enda voru þær lögbundnar með Húsagatilskipaninni árið 1746, en hún féll sennilega ekki úr gildi fyrr en með tilkomu Barnaverndarlaga árið 1932.16 Með lögfestingu Barnasáttmálans í febrúar 2013 (lög nr. 19/2013) og breytingu árið 2009 á Barnaverndarlögum nr. 80/2002 ætti nú að vera tryggt að íslensk börn hafi vernd löggjafans gegn líkamlegum refsingum.

Ætla má að aukin meðvitund og umræða um ofbeldi hafi breytt viðhorfum til líkamlegra refsinga hér á landi undanfarna áratugi.16 Það sama á við um aukna áherslu á réttindi barna með tilkomu Barnasáttmálans og bætta löggjöf um vernd barna.17, 18 Rannsóknir sýna samband milli banns við líkamlegum refsingum og vantrú á gildi þeirra, en þó er ekki ljóst hvort komi fyrst, bannið eða efasemdir um gildi refsinganna.29 Eins hafa rannsóknir sýnt að foreldrar sem telja líkamlegar refsingar óæskilega uppeldisaðferð beita þeim engu að síður.30 Því þarf að efla fræðslu til foreldra, til dæmis í mæðravernd og í ung- og smábarnavernd, um neikvæð áhrif líkamlegra refsinga og ofbeldis innan fjölskyldna á heilsu og vellíðan barna í bráð og lengd. Mikilvægt er fyrir íslenskt samfélag að standa vörð um réttindi barna og fjölskyldna og tryggja að öll börn vaxi upp við aðstæður sem veita þeim öryggi og styðja við vöxt þeirra og þroska.

Þakkir

Þakkir fá þátttakendur sem gáfu sér tíma til að svara spurningum um uppeldi sitt og reynslu af líkamlegum refsingum og Björg Helgadóttir sem aðstoðaði við tölfræðilega úrvinnslu.

Heimildir

 1. Prohibiting corporal punishment: achieving equal protection for children in EU member states. Progress Report 2013. Global Initiative to End All Corporal Punishment of Children, London 2013.
 2. Guttormsson L. Bernskan, ungdómur og uppeldi á einsveldisöld: Tilraun til félagslegrar og lýðfræðilegrar greiningar. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 1983.
 3. Gilbert R, Fluke J, O›Donnell M, Gonzalez-Izquierdo A, Brownell M, Gulliver P, et al. Child maltreatment: variation in trends and policies in six developed countries. Lancet 2012; 379: 758-72.
 4. Janson S, Langberg B, Svensson B. Våld mot barn 2006/2007. Stiftelsen Allmänna Barnhuset och Karlstads Universitet, Stockholm 2007.
 5. Annerbäck E-M, Wingren G, Svedin CG, Gustafsson PA. Prevalence and characteristics of child physical abuse in Sweden – findings from a population-based youth survey. Acta Paediatr 2010; 99: 1229-36.
 6. Annerbäck E-M, Sahlqvist L, Svedin CG, Wingren G, Gustafsson PA. Child physical abuse and concurrence of other types of child abuse in Sweden - Associations with health and risk behaviors. Child Abuse Negl 2012; 36: 585-95.
 7. Sedlak A, Mettenburg J, Basena M, Petta I, McPherson K, Green A, et al. Fourth national incidence study of child abuse (NIS-4) (2009-2010): report to congress. Department of Health and Human Services (DHHS), Administration for Children and Families (ACF), Office of Planning, Research, and Evaluation (OPRE) and the Children´s Bureau, Washington 2010.
 8. Zolotor AJ, Theodore AD, Runyan DK, Chang JJ, Laskey AL. Corporal punishment and physical abuse: population-based trends for three-to-11-year-old children in the United States. Child Abuse Rev 2011; 20: 57-66.
 9. Leeb RT, Paulozzi LJ, Melanson C, Simon TR, Arias I. Child Maltreatment Surveillance. Uniform Definitions for Public Health and Recommended Data Elements. Centers for Disease Control and Prevention, Atlanta 2008.
 10. Runyan D, Wattam C, Ikeda R, Hassan F, Ramiro L. Child abuse and neglect by parents and other caregivers. Í: Krug EG, Dahlberg LL, Mercy JA, Zwi AB, Lozano R, ritstj. World Report on Violence and Health. World Health Organisation, Genf 2002: 57-87.
 11. Gilbert R, Widom CS, Browne K, Fergusson D, Webb E, Janson S. Burden and consequences of child maltreatment in high-income countries. Lancet 2009; 373: 68-81.
 12. Gershoff ET. Corporal punishment by parents and associ-ated child behaviors and experiences: a meta-analytic and theoretical review. Psychol Bull 2002; 128: 539-79.
 13. Hahm HC, Lee Y, Ozonoff A, Wert MJ. The impact of multiple types of child maltreatment on subsequent risk behaviors among women during the transition from adolescence to young adulthood. J Youth Adolesc 2009; 39: 528-40.
 14. Afifi TO, Mota NP, Dasiewicz P, MacMillan HL, Sareen J. Physical punishment and mental disorders: results from a nationally representative US sample. Pediatrics 2012; 130: 184-92.
 15. Strauss MA. Prevalence, societal causes, and trends in corporal punishment by parents in world perspective. Law Contemp Problems 2010; 73: 1-30.
 16. Einarsdóttir J, Ólafsdóttir STh, Gunnlaugsson G. Heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi: höggva-hýða-hirta-hæða-hóta-hafna-hrista-hræða. Miðstöð heilsuverndar barna og Umboðsmaður barna, Reykjavík 2004.
 17. Björgvinsson DTh. Alþjóðaskuldbindingar um vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Í: Hinn launhelgi glæpur. Kynferðisbrot gegn börnum. Ólafsdóttir SÍ, ritstj. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2011.
 18. Friðriksdóttir H. Að nota samning SÞ um réttindi barnsins með hendi og vendi að hingað til brúkanlegum siðvana. Í: Valsson TF, ritstj. Rannsóknir í félagsvísindum X Lagadeild. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 2009.
 19. Ólafsdóttir SÍ, ritstj. Hinn launhelgi glæpur: Kynferðisbrot gegn börnum. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2011.
 20. Kempe HC, Silverman FN, Steele BF, Droegemeller W, Silver HK. The battered child syndrome. JAMA 1962; 181: 17-24.
 21. Karlsson Á. The battered child syndrome in Iceland. Nord Psykiatr Tidsskr 1971; 25: 112-8.
 22. Júlíusdóttir S, ritstj. Barnafjölskyldur: samfélag, lífsgildi, mótun. Rannsókn á högum foreldra og barna á Íslandi. Landsnefnd um Ár fjölskyldunnar/Félagsmálaráðuneytið, Reykjavík 1994.
 23. Gunnlaugsson G, Kristjánsson ÁL, Einarsdóttir J, Sigfúsdóttir ID. Intrafamilial conflict and emotional well-being: A population based study among Icelandic adolescents. Child Abuse Negl 2011; 35: 372-81.
 24. Kristinsdóttir G, Harðardóttir IH. Mörg íslensk börn hafa vitneskjuna: Um þekkingu og skilning barna á ofbeldi á heimilum. Tímarit hjúkrunarfræðinga 2008; 84: 46-54.
 25. Réttindi barna á Íslandi: ofbeldi og forvarnir. Unicef á Íslandi, Reykjavík 2013.
 26. Gunnlaugsson G, Einarsdóttir J. Að hemja hundrað flær á́ hörðu skinni … Ofbeldi og refsingar barna. Í: Jóhannesson GÞ, Björnsdóttir H, ritstj. Þjóðarspegillinn 2010. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 2010: 51-8.
 27. Gould F, Clarke J, Heimn C, Harvey PD, Majer M, Nemeroff CB. The effects of child abuse and neglect on cognitive functioning in adulthood. J Psychiat Res 2012; 46: 500-6.
 28. Hardt J, Rutter M. Validity of adult retrospective reports of adverse childhood experiences: review of the evidence. J Child Psychol Psychiatry 2004; 45: 260-73.
 29. Zolotor AJ, Puzia ME. Bans against corporal punishment: a systematic review of the laws, changes in attitudes and behaviours. Child Abuse Rev 2010; 19: 229-47.
 30. Lansford JE, Alampay LPn, Al-Hassan S, Bacchini D, Bombi AS, Bornstein MH, et al. Corporal punishment of children in nine countries as a function of child gender and parent gender. Int J Pediatr 2010;2010:672780.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica