04. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Af liðbólgusjúkdómum og sagnfræði læknisfræðinnar

Félag íslenzkra gigtarlækna ásamt fleirum gáfu fyrir skömmu út bækling um liðbólgusjúkdóma. Kominn á aldur og gigtin aðeins farin að narta í kjöt og liði, hugsaði ég mér nú gott til glóðarinnar og hóf lestur. Margt bar þar fróðlegt fyrir augu, til dæmis voru á 17. og 18. öld uppi glöggir karlar sem bæði læknuðu og skrifuðu um gigt.


Folkekuranstalten við Hald nærri Viborg sem er norðarlega á Jótlandi. Danski Rauði krossinn byggði
búðir þessar fyrir flóttafólk úr fyrri heimsstyrjöldinni.

Við lesturinn kom upp í mér áhugamaðurinn um sögu læknisfræðinnar, en þarna gaf að líta eftirfarandi: „Sérgreinin gigtarlækningar byrjar að mótast hérlendis með tilkomu Jóns Þorsteinssonar læknis, en hann varð yfirlæknir á gigtardeild Landspítalans 1969. Síðan bættust Kári Sigurbergsson og Jóhann Gunnar Þorbergsson við.“ Að þessu lesnu má ekki annað skilja en að fyrir tilkomu ofanskráðra hafi hér hvorki verið til gigtarlæknar né lækningar, nema þá í bezta falli ómótaðar og á frumstigi.

Vegna gigtarlækna í nútíð og framtíð, svo og þeirra er láta sig sögu læknisfræðinnar einhverju varða, langar mig að bæta hálfri öld framan við ofanskráð „mótunartímabil“. Árið 1908 útskrifast Jón Kristjánsson sem nudd- og sjúkraþjálfari frá  Kaupmannahöfn. Hann rak síðan stofu sína hérlendis til dauðadags 1937. Í millitíðinni tók hann próf úr læknadeild HÍ 1914, rak áfram stofu sína og 1923 veitti Læknafélag Íslands honum sérfræðileyfi sem gigtarlæknir. Hann kenndi og útskrifaði tvo sjúkraþjálfara og fleiri urðu þeir ekki útskrifaðir hérlendis fyrr en með tilkomu námsbrautar í sjúkraþjálfun við HÍ 1976 (útskr. 1980).

Á eftir Jóni fengu réttindi Karl Jónsson 1930, Björgvin Finnsson 1937, Kristján Hannesson 1940, Ragnar Sigurðsson 1948, Haukur Þórðarson 1962 og vafalaust einhverjir ótaldir. Læknar þessir voru allir sérmenntaðir á viðurkenndum stofnunum erlendis og störfuðu síðan hér heima sem gigtar- og endurhæfingarlæknar. Ástæðulaust er að ætla annað en að þeir hafi starfað með þeim tólum og lyfjum er bezt þóttu á hverjum tíma.


Sjúkraþjálfarar á Hald árið 1928.

Starfsheiti þessara lækna var lengi vel á reiki, og nafnið gigtarlæknir festist seint í sessi. Heitið endurhæfingarlæknir á sér enn styttri sögu. Nokkur dæmi um fyrri nöfn eru: nuddlæknir, fysioterapeut, fysiurg, orkulæknir.

Til gamans má geta þess að sjúkraþjálfarar útskrifaðir frá virtum stofnunum á Norðurlöndum nefndust þar til dæmis sygegymnast eða sjukgymnast, en hingað komnar skyldu þær heita nuddkonur og var svo fram til 1962 er þær endanlega hlutu núverandi nafn, sjúkraþjálfari. 

Þrátt fyrir þessi misgáfulegu starfsheiti má ætla að bæði lækningar og endurhæfing hafi verið sambærileg við það sem gerðist í þeim löndum er fólk þetta hafði menntazt, en áfram með sagnfræðina. Til þess að veita áhugasömum örlitla innsýn í nám og störf gigtarlæknis um og fyrir miðja síðustu öld, vil ég bera þar niður er ég þekki bezt til.

Karl Jónsson (1896-1980) útskrifaðist úr læknadeild HÍ 1925. Hið háa Alþingi veitti honum styrk til sérfræðináms í Danmörku, en hugur hans stóð til skurðlækninga. Er hann kom í sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og hugðist leysa út ávísun sína, var hann kallaður inn til sendiherrans, sem þá var Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti Íslands. Sveinn spurði Karl hvað hann hygðist fyrir og er hann nefndi skurðlækningar sagði sendiherrann: „Æ, vilduð þér ekki heldur kynna yður gigtarlækningar? Það er svo ósköp mikil gigt heima,“ og strauk á sér hnéð. Hann bauðst til að tala við vin sinn og skólabróður sem nú væri orðinn yfirlæknir við Folkekuranstalten ved Hald, sem þá var stærsta gigtar- og endurhæfingarstofnun Norðurlanda með pláss fyrir 500 sjúklinga. Karl þakkaði að vonum gott boð en kvaðst ætla að þreifa fyrir sér um pláss á skurðdeild. Hann komst fljótt að raun um að slíkt væri ekki auðsótt, og þáði síðan boðið. Karl var fyrstur íslenzkra lækna til að nema frá grunni sérgrein gigtar- og endurhæfingarlækninga við viðurkennda stofnun.

Með viðkomu á nokkrum sjúkrahúsum og deildum hélt hann svo til Hald og var þar við störf og nám til 1930 er hann fór í 5 mánaða námsför til Berlínar, Pistyan, Marienbad, Karlsbad, Wiesbaden, Ems og Aachen. Þar var þá stærsta gigtarhæli í Evrópu og rúmaði 1000 sjúklinga.

Meðan á dvölinni stóð kvittaði Karl fyrir áðurnefndan styrk og skrifaði grein um gigt og gigtarmeðferð. Nefndist greinin „Um gigt“, og fjallaði um það sem hæst bar í þessum fræðum 1930. Greinin birtist í Læknablaðinu í maí 1930, 16. árg. og var 26 síðna löng með 37 heimildum.


Sunnan undir vegg á Túngötu 3: Guðrún Árnadóttir sjúkraþjálfari, Torfhildur Helgadóttir sjúkraþjálfari og Björg Ríkharðsdóttir aðstoðarstúlka. Myndin er tekin uppúr 1930.

Við hingaðkomu 1930 opnaði Karl stofu í sérgrein sinni og 1933 er hann hafði byggt yfir sig bæði heimili og vinnustað að Túngötu 3 í Reykjavík, hafði hann yfir að ráða 200 fermetra læknisstofu. Með honum á stofunni unnu yfirleitt 2-3 sjúkraþjálfarar og tvær aðstoðarstúlkur. Meðal samstarfskvenna hans voru: Ingunn Thorstensen vann á stofu hans er hann hóf störf. Hún varð síðan fyrsti formaður Félags íslenskra nuddkvenna. Sigríður Gísladóttir síðar formaður sama félags, Auður Sigurðardóttir yfirsjúkraþjálfari hjá Náttúrulækningafélagi Íslands í Hveragerði, Torfhildur Helgadóttir á Akranesi, Guðrún Árnadóttir á Siglufirði og svona má lengi telja, enda starfsævi Karls 50 ár. Guðrún kona hans vann og lengst af á stofunni í 42 ár. Hún hafði frá 1928 „Den Almindelige Danske Lægeforenings autorisation som Massör og Sygegymnast“, en hér var hún nuddkona.

Tækjakostur var ætíð góður hjá Karli. Má þar tilnefna Vierzellenbad, leirböð, gufuböð, hljóðbylgjutæki, kolbogaljós, háfjallasólir, rimla, trissur, gorma og margt fleira. Sprautað var í liði og festur og þau lyf notuð er bezt þóttu á hverjum tíma.

Árið 1957 var Karl að ósk Tryggingastofnunar ríkisins ráðinn yfirlæknir gigtar- og endurhæfingardeildar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Gegndi hann því starfi til sjötugs, eða til 1966. Karl fór í nokkrar endurmenntunarferðir til Evrópu, bæði fyrir og eftir stríð og skrifaði fleiri greinar um gigt í Læknablaðið.

Nú mundi flestum þykja mál að linni og skal svo gert. Enn er þó ósvarað spurningunni um það hvenær sérgreinin gigtarlækningar byrjaði að mótast. Var það 1969, eða ef til vill mörgum áratugum fyrr? Svari nú hver fyrir sig.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica