04. tbl. 99. árg. 2013

Ritstjórnargrein

Á vendipunkti

Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga- og handlækningasviðs á Sjúkrahúsinu á Akureyri

doi: 10.17992/lbl.2013.04.490

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fréttum af Íslandi síðastliðin ár að alvarlegt efnahagshrun varð síðla árs 2008 og við höfum verið að berjast við afleiðingar þess hér allar götur síðan. Aðhald og niðurskurður hefur einkennt ríkisfjármálin og þó vilji hafi verið til að hlífa heilbrigðiskerfinu þá hefur það ekki farið varhluta af niðurskurðinum. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa fjárframlög verið skorin niður um 20% frá árinu 2008. Þetta hefur þýtt að þrátt fyrir ítrustu hagræðingu í rekstri og endurskipulagningu í starfsemi hefur starfsfólki fækkað um 11%.

Starfsfólk heilbrigðisstofnana hefur sýnt að-stæðunum mikinn skilning og lagt sig fram um að koma í veg fyrir að niðurskurðurinn bitni á þeim sem síst við því mega, sjúkingunum.

Nú er hins vegar svo komið að farið er að hrikta í stoðum þess ágæta heilbrigðiskerfis sem okkur var svo tíðrætt um að væri með því besta sem gerist. Við erum ekki samkeppnisfær við nágrannalönd okkar þegar kemur að því að bjóða fagfólki innan heilbrigðisþjónustunnar viðunandi kjör. Það hefur valdið því að ungir sérfræðilæknar koma ekki til baka úr sérfræðinámi sínu með nýja þekkingu og starfskraft. Sérhæft heilbrigðisstarfsfólk sem hefur starfað hér er að gefast upp á erfiðum vinnuskilyrðum, auknu vinnuálagi og leitar í önnur störf eða til annarra landa. Við höfum ekki sinnt viðhaldi tækja og húsnæðis sem skyldi. 

Það var oft talin góð vinnuregla að leggja ekki í síðasta plássið á gjörgæsludeild. Með því var átt við að ef sinna á bráðaþjónustu sem skyldi þá þurfa að vera til opnir möguleikar þegar bráðatilfellin koma. Það er ljóst að fyrir löngu er búið að leggja í síðasta plássið og jafnvel á ganginn líka!

Það eru farnar að birtast tölur um að gæðin sem við vorum svo stolt af í samanburði við aðra séu farin að dala.*

Þarna eru viðvörunarmerki sem við megum ekki hundsa. Það tekur langan tíma að byggja upp góða heilbrigðisþjónustu og þann kúrs sem við virðumst vera komin á verður ekki auðvelt að leiðrétta.

Stjórnendur heilbrigðisstofnana hafa starfað náið með stjórnvöldum síðustu ár svo best megi nýta þá fjármuni sem til heilbrigðiskerfisins hafa verið veittir. Menn hafa gert ráð fyrir að stjórnvöld hafi af heilum hug reynt að setja eins mikið af fjármagni til heilbrigðisstofnana eins og unnt er. Á svona erfiðum tímum þarf að ríkja traust.

Það er því mikilvægt að stjórnvöld beri það traust til þessara sömu aðila nú þegar þeir segja að of langt hafi verið gengið og verði blaðinu ekki snúið við muni illa fara. Brestirnir eru það miklir og stoðirnar það veikar að þær þarf að styrkja strax.

Það einfaldlega verður að veita meira fjármagni aftur inn í heilbrigðiskerfið, að öðrum kosti er hætta á að landsmönnum verði boðið upp á annars flokks heilbrigðisþjónustu. Viljum við það? Nei!

Við þurfum að huga að nýbyggingum þar sem þess er þörf og við þurfum að taka upp nýjungar í meðferðum og þar með bjóða sjúklingum upp á aðstöðu og heilbrigðisþjónustu sem sæmir þeirri öld sem við lifum á. 

Við þurfum að gera átak í endurnýjun tækja og aðbúnaðar svo að þeir sem hafa menntað sig í að nota nýjustu tækni séu reiðubúnir að vinna hér á landi.

Síðast en ekki síst þá verður ekki komist hjá því að bæta kjör heilbrigðisstétta svo að Ísland verði aftur samkeppnisfært við nágrannalönd okkar.

Það var með nokkru stolti sem tilkynnt var að á fjárlögum fyrir 2013 yrði ekki niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Það reynd-ist skammvinn gleði þar sem verðbólguhækkanir eru þegar farnar að rjúfa þá ramma sem voru settir.

Nú fyrir kosningar hefur flestum forystumönnum framboða orðið tíðrætt um að það þurfi að bæta heilbrigðisþjónustuna. Það verður að gera þá kröfu að þeir sem þannig tala hafi kynnt sér stöðuna og láti verk fylgja orði. 

*(healthpowerhouse.com/files/Report-EHCI-2012.pdf )Þetta vefsvæði byggir á Eplica