03. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Skrifaði læknir Fóstbræðrasögu? - Erindi af Læknadögum 2013

Íslenskir læknar hafa ekki verið afkastamiklir á ritvelli fagurbókmennta. Nokkrir hafa verið liðtækir hagyrðingar, einhverjir hafa gefið ljóðabækur, leikrit og skáldsögu en lítið hefur verið um stórvirki andans frá stéttinni.

Það var mér mikil ánægja þegar ég uppgötvaði að sennilega hefur læknir skrifað eitt mesta meistaraverk Íslendingasagna, sjálfa Fóstbræðrasögu. Sagan fjallar um tvær söguhetjur: skáldið Þormóð Bessason og kappann Þorgeir Hávarsson.


Á Læknadögum í Hörpu um daginn lét Óttar Guðmundsson gamminn geisa
um þá svarabræður Þormóð Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson og höfund
sögunnar af þeim. Spurning hvort innkirtlalæknir hafi skrifað Fóstbræðrasögu?

Í fyrri hluta sögunnar er sagt frá þeim fóstbræðrum báðum en síðan skilja leiðir og Þorgeir fer utan í þjónustu konunga.

Í næstu köflum er greint frá þeim hvorum í sínu lagi, annars vegar kvennamálum og vandræðagangi Þormóðar og hins vegar vígaferlum Þorgeirs og falli hans norður á Melrakkasléttu. Eftir það fylgir sagan Þormóði þar til hann deyr hetjudauða á Stiklastöðum með Ólafi konungi digra.

Halldór Laxness studdist við Fóstbræðrasögu þegar hann skrifaði Gerplu sem er eins konar skopstæling á bókinni. Reyndar hafa sumir fræðimenn sagt að Fóstbræðrasaga sé frá hendi höfundar síns háðslegt skop um hetjudýrkun samtímans. Er þá Gerpla skopstæling á skopstælingu? Hvernig sem á það er litið er Fóstbræðrasaga mjög skemmtileg bók og fyndin.

Það vekur athygli hversu vel höfundurinn er heima í læknisfræði samtíma síns og veltir fyrir sér ýmsum kenningum og almennum fróðleik. Í sögunni er að finna  þennan texta: „en reiði hvers manns er í galli, en líf í hjarta, minni í heila, metnaður í lungum, hlátur í milti, lystisemi í lifur.“ Þarna koma fram helstu grunnatriði í læknisfræði Hippókratesar um skiptingu eðlislægra eiginleika eftir líffærum.

Menn vissu að hjartað var lífvöðvi líkamans eða lífið sjálft, enda bjó sálin í því. En hjartað var líka aðsetur hugrekkis og hugleysis. Í sögunni er stórt hjarta álitið heyra blauðum til vegna þess að hræðslan sé í réttu hlutfalli við blóðið í hjartanu. Stórt hjarta rúmaði mikið blóð en hjarta hins hugprúða lítið. Mikill hjartsláttur gefur til kynna að maður sé hræddur.

Þessi trú á sambandið milli hjarta og hugrekkis var reyndar grundvöllur þess að menn drukku hjartablóð og borðuðu hjartað eins og berserkir gerðu til að sigra í orustum.

Í sögunni er fjallað um hjartað í Þorgeiri sem var smátt og blóðlítið. Þetta skýrir óttaleysi og samviskuleysi kappans. Höfundurinn lýsir því hvernig banamenn hans krufðu líkið og undruðust hversu lítið hjartað var. Hann klæðir þessar hugleiðingar sínar í trúarlegan búning því að hann segir að þessa miklu hugprýði eigi hann sjálfum höfuðsmiðnum að þakka. Sagan færir þannig líffræðilega sönnun á hugrekki Þorgeirs Hávarssonar fengna með krufningu á hjarta hans. Höfundurinn slær fram ákveðinni kenningu sem hann sannar síðan með vísindalegri rannsókn. Þorgeir var eiginlega hjartalaus og gat því hvorki fundið til með fólki né heldur elskað aðra. Þetta var án efa skýringin á sálarleysi hans, siðblindu og kynleysi að mati höfundar. Þessar athugasemdir um hugrekki og hjartastærð Þorgeirs eru skráðar af miklu innsæi og líklegt að læknislærður maður hafi gert það.

Annars staðar í sögunni er þessi tilvitnun í líffærafræði samtímans: „Öll bein hans skulfu þau er voru í hans líkama en það voru tvö hundruð beina og fjórtán bein. Tennur hans nötruðu, þær voru þrír tigir. Allar æðar í hans hörundi pipruðu fyrir hræðslu sakir. Þær voru fjögur hundruð og fimmtán.“ Þarna skýtur höfundurinn inn almennum læknisfræðilegum fróðleik lesendum til skemmtunar.

Sjúkdómalýsingar eru nokkrar í bókinni. Þannig slær ástkona Þormóðar, Þorbjörg Kolbrún, hann með ógurlegum augnverk eða höfuðkvölum þegar hann snýr kvæði hennar upp á lof til annarrar konu. Af lýsingum að dæma er um heiftarlegt mígreni að ræða sem lagast ekki fyrr en Þormóður játar sviksemi sína fyrir fólki. Faðir hans, Bersi læknir, ráðleggur honum að gera það og greinilegt að hann er sammála mörgum nútímalæknum sem telja að mígreni eigi sér að einhverju leyti andlegar skýringar. Annars staðar er lýsing á sárum sem Þormóður hlaut í bardaga og hversu lengi hann var að jafna sig. Hér heldur læknir um pennann, sem þekkir dynti ýmissa veikinda sem lúta ekki neinum almennum lögmálum heldur fara sínar eigin leiðir.

Margt bendir til að höfundur hafi haft talsverða reynslu af konum og þekkt vel sálarlíf þeirra. Hann skýtur inn setningum sem sýna innsæi í mannlega hegðun og samband kynjanna. Þegar Þormóður hafði móðgað Þórdísi segir sagan að hún hafi reigt sig og skotið öxl við honum „eins og konur eru jafnan vanar, þá er þeim líkar eigi allt við karla“.

Í sögulok er frásögnin af hetjudauða Þormóðar. Hann gekk vel fram í bardaganum að Stiklastöðum enda vildi hann falla með konungi sínum. Þormóður fékk ör í síðuna og leitaði til kornhlöðu þar sem sárir menn lágu og kona nokkur bjó um áverkana. Hún vildi gefa Þormóði laukgraut að drekka til að sjá hvort hann hefði holsár eða ekki. En Þormóður sýndi lækninum litla virðingu og sagðist ekki ekki hafa grautsótt.

Þegar hún spurði hverju það sætti að hann væri svo fölur svaraði hann með vísu og útúrsnúningum. Hún reyndi að draga út örina með spennitöng en ekkert gekk. Þormóður bað hana þá að skera til járnsins svo að hann næði betra tangarhaldi á örinni. Hún gerði svo en hann gaf henni þá gullhring að launum svo að læknisverkin voru betur launuð á þessum tíma en nú. Hann kippti þá örinni úr sárinu og lágu tágar af hjartanu á krókunum, sumar rauðar, aðrar hvítar, gular og grænar. Þá mælti Þormóður þau orð sem uppi munu verða meðan land byggist:

„Vel hefur konungurinn alið oss, hvítt er þessum karli um hjartarætur.“ Hann kastaði fram einni vísu og dó eftir það standandi og féll ekki til jarðar fyrr en hann var dauður.

Lýsingin á viðskiptum Þormóðar og læknisins er mjög skemmtileg og greinilegt að höfundurinn þekkir vel til erfiðra og hrokafullra sjúklinga sem hlýða engum fyrirmælum. Læknirinn sýnir mikið langlundargeð með þessum stæriláta manni sem svarar ráðleggingum með skætingi. Mér finnst þetta samtal minna helst á reynslu mína af slysadeild þegar læknar reyna eftir mætti að ræða við óþekka og drukkna gesti sem haga sér eins og stór börn.

Þannig má segja að Fóstbræðrasaga sé margslungin bók þar sem blandað er saman hetjusögu, læknisfræði og margs konar speki úr heimi sállækninga. Ég tel líklegt að höfundurinn hafi verið skemmtilegur læknir sem bjó yfir mikilli þekkingu í fræðunum og hafði reynslu af veiku fólki og sjúkdómum. Hann hafði ríka kímnigáfu og bjó yfir miklu innsæi í mannlegt eðli. Engin önnur Íslendingasaga hefur að geyma svo mikla læknisfræðilega kunnáttu. Loksins eignaðist læknastéttin ritsnilling þótt seint væri!
Þetta vefsvæði byggir á Eplica